18.10.1948
Neðri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

5. mál, niðursoðin mjólk

Einar Olgeirsson:

Ég vonast nú til þess eftir þessar umræður, sem hér hafa farið fram, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, komi til með að rannsaka það, sem hér hefur verið haldið fram, og væri vafalaust tilefni til að rannsaka fleira, er snertir íslenzka iðnaðinn. Það upplýsist hér strax hjá hv. þm. A-Húnv. viðvíkjandi mjólkurduftinu, að það hefur aldrei verið leitað til viðkomandi framleiðslufyrirtækis á Norðurlandi, ekki heldur til framleiðsluráðs landbúnaðarins eða landbrh. Hæstv. viðskmrh. upplýsti hins vegar, að þeir, sem hann hefði talað við, hefðu sagt, að það væri alger skortur á þessari vöru. Þeir virðast ekki hafa haft fyrir því að leita til hinnar innlendu framleiðslu né spyrja framleiðsluráð landbúnaðarins. Þeir hafa aðeins náð eyra hæstv. viðskmrh. og hæstv. ráðh. virðist ekki hafa haft fyrir því að tala við kollega sinn, landbrh., sem líklega er þó í sama húsi. Hæstv. viðskmrh. hefur látið viðgangast, að viðskiptan. gerði þetta, og álitið sjálfsagt að verða við þessu, að öllum líkindum vegna þess, að það hafa verið svo góðir menn, sem hafa farið fram á að fá þessa þurrmjólk innflutta. Ef til vill fæst það upplýst, hverjir það eru. Hv. þm. A-Húnv. sagði, að einn heildsali hefði flutt þetta inn, en hæstv. viðskmrh. sagði hins vegar, að það væri innlent iðjufyrirtæki. Það er kannske hugsanlegt, að einhver heildsali sé í stjórn innlends iðnaðarfyrirtækis. Það mun koma í ljós, þegar farið er að rannsaka málið. Þegar það er nú upplýst, að upplýsingarnar stangast innan ríkisstj. sjálfrar, þá er ekki undarlegt, þótt eitthvað ofur lítið beri á milli um fleira, er snertir þessi efni. Ég minntist á málningarvörur og hæstv. viðskmrh. kvaðst hafa aðrar upplýsingar. Ég hef fengið þessar upplýsingar í dag frá viðkomandi málningarverksmiðju, en ef til vill fer það þarna á milli mála, að hæstv. viðskmrh. reiknar með því, að svo framarlega sem innflutningsleyfi sé veitt, þá sé þar með allt fengið. Mér virðast upplýsingar frá ríkisstj. stundum þannig hugsaðar, að ef leyfi sé veitt, t.d. í þessu tilfelli á árinu 1948, að þá sé tryggt, að framleiðslan fari fram á því ári. Því fer oft fjarri. Þó að leyfi sé veitt, þá er það engin trygging fyrir því, að viðkomandi hráefni séu komin til verksmiðjunnar og að unnið sé úr þeim á sama ári. Það er oft talað um, að nefndin sé búin að veita svo og svo mikið af leyfum, á sama tíma sem framleiðslutækin kvarta yfir því að geta ekki fengið meira hráefni til að vinna úr. Ég geng út frá því að geta fengið upplýsingar um þetta mál, þegar það verður rannsakað í nefndinni, og hæstv. viðskmrh. veitir mér þá vafalaust tækifæri til að ræða ýtarlega um það, en á því mun engin vanþörf vera, með því skipulagsleysi, sem á þessum innflutningi er, og sífelldri stöðvun hjá framleiðslufyrirtækjum og sífelldum skorti á vörum, sem við gætum framleitt innanlands, og svo er reynt að bæta úr með því að flytja inn fullunna vöru. Þetta skipulagsleysi veldur stórkostlegri eyðslu á gjaldeyri. Ég mun ekki gera þetta frekar að umtalsefni nú, en æskilegt væri, að í næsta skipti, þegar rætt verður um þetta mál, þá lægju fyrir skýrslur frá viðkomandi nefndum, svo að upplýsingar þyrftu ekki að stangast eins mikið á og nú hefur verið.