15.11.1948
Neðri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

5. mál, niðursoðin mjólk

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hæstv. viðskmrh. varðandi það, hvað landbn. ætlaðist til, að þessi undanþáguheimild gilti vítt, þá skal ég taka það fram, að n. ætlast til þess, að hún sé notuð, ef ekkert er fáanlegt af þessari vöru, og auðvitað göngum við að því sem sjálfsögðu, að framleiðsluráð landbúnaðarins mæli þá með því undir slíkum kringumstæðum. En eins og tekið er fram í gr., er ekki ætlazt til, að undanþága sé veitt nema um stundarsakir og þá fyrir það takmarkaða magn, sem nauðsynlegt verður að teljast til þess, að iðnaðurinn stöðvist ekki að neinu leyti þeirra hluta vegna. Ég skal taka það fram, að Félag íslenzkra iðnrekenda fór fram á það í till., sem það sendi okkur, að inn í þetta mál væri sett ákvörðun um það, að skylt væri að veita þeim iðnfyrirtækjum, sem nota þurrmjólk, innflutningsleyfi fyrir þeim hráefnum, sem þau þurfa til þess að geta haldið framleiðslunni áfram óhindrað. En landbn. taldi, að ekki væri hægt að taka svo víðtæka kröfu inn í þetta mál, og það heyrði þá undir iðnn., ef áhugi væri á að leggja þetta fyrir Alþingi. En þegar svo miklar innflutningshömlur eru á öllum sviðum sem raun ber vitni, þá er varla hægt, um leið og bannaður er innflutningur á þurrmjólk, að gera þá kröfu, að verksmiðjurnar, sem á þurrmjólk þurfa að halda, geti skilyrðislaust fengið hana innflutta. Það er að vísu æskilegt fyrir verksmiðjurnar, en frá sjónarmiði landbn. var tæpast hægt að lögbjóða þetta í sambandi við þetta mál.