03.12.1948
Efri deild: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

5. mál, niðursoðin mjólk

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd. og fjallar um breyt. á l. um innflutning á niðursoðinni mjólk. Er ekki þörf á að fara um það mörgum orðum.

Þessi lög eru frá 19. júní 1933, en síðan hefur nú risið upp í landinu þurrmjólkurgerð — á Blönduósi, og þennan nýja atvinnuveg er nauðsyn að vernda. Á s.l. sumri voru flutt inn í landið 17,4 tonn af þurrmjólk, og hefur sá innflutningur valdið því, að legið er með mikið af hinni innlendu þurrmjólk, sem erfitt er að selja.

Aðalbreytingin á 1. gr. er sú, að á eftir orðunum „niðursoðna mjólk“ er bætt við „og þurrmjólk“.

Í 2. gr. laganna skal það aftur tekið fram, að ef vöntun verði á niðursoðinni eða þurrkaðri mjólk, geti atvmrh. veitt undanþágu frá ákvæðum 1. gr., ef framleiðsluráð landbúnaðarins mælir með því. — Þetta atriði, að framleiðsluráð landbúnaðarins mæli með því, er vitanlega sett vegna þess, að það ráð hefur mikið með það að gera, hvernig salan gengur á mjólkinni.

Ég vil geta þess, að þó að allir nm. hafi mælt með frv. í aðalatriðum, þá var þó einn nm., hv. 7. landsk., fremur á móti þessu atriði, og gerði hann ráð fyrir að flytja brtt., en ég hef ekki séð, að hún hafi komið hér fram.