09.12.1948
Neðri deild: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Þessar brtt. á þskj. 179 eru fluttar af sjútvn. samkv. tilmælum ríkisstj., þ.e. sjútvmrh. Og það náttúrlega þýðir ekki að neita því, að þrátt fyrir það að ástandið sé erfitt hjá sjávarútveginum, þá eru hér gerðar till. um hluti, sem virðast benda til þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér ekki fært að gera neitt verulegt fyrir bátaútveginn í bili, því að það er varla hægt að hugsa sér meiri bráðabirgðaráðstafanir, en hér er um að ræða. Í fyrsta lagi ætlar ríkisstj. að leysa það atriði, að mörg skip liggja föst og geta ekki farið á veiðar vegna sjóveða, með því að leysa sjóveðin til sín — ekki að leysa þau af skipunum. En það segir sig sjálft, að þeir, sem eiga kröfur á skip, eru mjög órólegir út af því, þegar skip eru lengi með sjóveðskröfur, sem ganga á undan samningsbundnum veðum. Og ríkisstj. ætlar að leysa þessi sjóveð, sem á skipunum hvíla, til sín, og það hlýtur að vera meiningin með því að láta skipin sigla með sjóveðskröfum, það segir sig sjálft, að það er það, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj. Það má segja sem svo, að með þessu móti fáist skipin út á veiðar strax um áramót. En óneitanlega er þetta ákaflega losaralega á málunum tekið og lítið fram í framtíðina hugsað, vegna þess að ofan á alla örðugleika, sem útgerðarmenn eiga nú við að stríða, þá er það ekki ánægjulegt, þó að það sé betra, en að láta skipin liggja, að þurfa að gera sín skip út með sjóveði, þannig að hver einasti maður, sem lánaði þeim peninga, væri sem sagt með lífið í lúkunum um það, að hann tapaði öllu þessu, sem hann hefði lánað þessum skipum. Hæstv. ríkisstj. virðist gera sér ljóst, að þetta mundi skapa óróa hjá kröfuhöfum. Og þess vegna eru ákvæði c-liðar 1. tölul. á brtt. 179 sett inn, um það, að útgerðarmenn og útgerðarfyrirtæki, sem síldveiðar stunduðu sumarið 1948 og aðstoð frá samkv. 2. gr. frv., hafi greiðslufrest til 1. júlí 1949 á öllum skuldum og vöxtum af þeim, sem stofnað hefur verið til vegna útgerðarinnar, sem sagt fái þá aðstöðu, að ríkisstj. leysi út sjóveðin, sem hvíla á bátum þeirra. Þetta ákvæði er í sjálfu sér rökrétt afleiðing af því fyrra, af því að þegar skipin væru farin að sigla með sjóveðum, mætti búast við, að kröfuhafar ókyrrðust svo, að þeir reyndu að fá heimild til þess að ganga að skipunum og þar með þá gera útgerðina ófæra, svo að þetta er ekki óeðlileg till. í sambandi við hitt, sem hér er gert ráð fyrir, að innleysa sjóveðin. — En ég vildi óska eftir því, að hæstv. fjmrh. gerði nokkru nánari grein fyrir því, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér framtíð útgerðarinnar á Íslandi, ef búið er að samþykkja með lögum hálfs árs greiðslufrest á skuldum þessum. Mörg fyrirtæki eru þannig sett, að þau eru nærri gjaldþrota og verða það kannske, ef útgerðin verður gjaldþrota. Og útkoman yrði sú, ef skipin sigla með sjóveðum, að hver maður, sem innir af höndum einhverja þjónustustarfsemi fyrir útgerðina, neitar að lána slíkum skipum nokkuð, heldur verður hann að fá allt borgað strax, bæði kol, olíu, viðgerðir á skipum og veiðarfærum o.s.frv., allt út í hönd. Þetta getur kannske komið sér vel nú á allra næsta tíma, sem hér er gert ráð fyrir, fyrir útgerðina, að ríkissjóður leysi sjóveðin til sín. En það þýðir ekkert að loka augunum fyrir þeim miklu örðugleikum, sem þetta skapar útgerðinni. Ég lít þannig á, að þær ráðstafanir, sem gerðar væru, yrðu að miðast við að skapa heilbrigðan rekstur hjá útgerðinni, en að þær mættu ekki verða þannig, að þær settu beinlínis fót fyrir áframhaldandi rekstur. En þegar svo er komið, að ekkert útgerðarfyrirtæki getur fengið lán hjá nokkurri stofnun, sem kemur nærri því að selja til útgerðarinnar vörur eða annast þjónustu fyrir útgerðina, svo sem viðgerðir á vélum skipa, viðgerðir á skipum og veiðarfærum, eftir að ástandið er orðið svo, að ekkert slíkt fyrirtæki getur lánað nokkuð til útgerðarfyrirtækja, þá er bókstaflega ómögulegt eða a.m.k. illmögulegt að reka útgerð skipanna á eftir. Það er yfirleitt hvert einasta útgerðarfyrirtæki á landinu, sem hefur skapað sér lánstraust. Lánstraust útgerðarinnar er nú mjög lamað. En verða þessar ráðstafanir, sem hér koma fram till. um, til þess að rétta það við aftur? Það getur verið, að þessar ráðstafanir bjargi í bili við útgerðarmöguleikum einhverra skipanna. En ég er sannfærður um, að fyrir útgerðina í heild er þetta feikilega alvarleg braut að fara inn á.

Mér fannst ekki hægt að láta þetta mál fara áfram hér án þess að benda á þetta. Og það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstj. að neita því, jafnvel þó að aðgerðir ríkisstj, kunni að vera til bóta í bili í þessu efni, að ef þær hafa þau áhrif í framtíðinni, að þær gera eðlilegan rekstur útgerðarinnar erfiðari, þá erum við að skapa peningalegan skaða með ráðstöfununum. Og þá er spurningin, hvort við gerum ekki betur í því að stíga skrefið stærra og leysa alveg af sjóveðin hjá þeim bátum, þar sem tryggt er, að viðkomandi bátar geti haldið áfram útgerð, t.d. á vetrarvertíð, þannig að ríkisstj. sleppti forgangskröfum, sem fólgnar eru í sjóveðum, og síðan væri með aðstoð ríkisvaldsins leitazt við að fá fyrst og fremst bankana til þess að veita gjaldfrest á lánum og skuldum og á þeim grundvelli verði svo menn aðstoðaðir við það að leita samkomulags við sína viðskiptamenn og viðskiptafyrirtækin, sem selja útgerðinni nauðsynjar og ýmsa þjónustu. Ég held, að það sé ákaflega hættuleg braut að fyrirskipa svona almennt svona hluti eins og hér er gert um gjaldfrest á skuldum bátaútvegsins, þó að það sé ekki nema eðlileg afleiðing af því, að ríkisstj. vill halda áfram sínum forgangsrétti um skuldakröfur á skipin, nefnilega sjóveðunum.

Eins og frv, er, virðist vera gert ráð fyrir því, að bátaútvegsmönnum verði veitt til allt að 10 ára með 5% vöxtum lán til þess að komast út úr kröggum þeim, sem þeir komust í á síðustu síldarvertíð. Þó að ríkissjóður leggi fram í bili þá upphæð, sem þarf til þess að leysa inn sjóveðin, virðist vera ósamræmi á milli loforðanna, sem eru í frv. á þskj. 132, og þeirrar tryggingar, sem ríkisstj. virðist vilja fá fyrir það að leysa til sín sjóveðin, sem ég get ekki séð annað en að sé aðeins hluti af aðstoðinni. Fyrir þann hluta af aðstoðinni vill ríkisstjórnin hafa sjóveðið, en þegar hún heldur áfram á þeirri braut að hjálpa bátaútveginum, skilst mér, að það séu almenn veð frá útgerðinni, sem hún fær fyrir þeirri hjálp, og mér skilst, að þau veð muni vera þannig, að ákaflega litlar líkur séu til, að þau reynist verulega haldgóð.

Sjútvn. er þeirrar skoðunar, eins og kemur fram í brtt. á þskj. 150, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að horfast í augu við þær staðreyndir, að það er tilgangslítið að vera að lána útgerðinni þetta fé, sem nú er hugsað að verja henni til hjálpar, en það verði að veita útgerðinni aðstoð, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að fá það endurgreitt. Og það er þá jafngott að viðurkenna það strax og veita það fé sem styrk til útgerðarinnar. — Jafnframt vill sjútvn. gefa ríkisstj. heimild til að gefa eftir kröfur, sem hún á í skipum vegna síldveiðilánanna 1945 og 1947, þar sem hún telur við eiga, og þetta staðfestir líka þá skoðun sjútvn., að það verði ekki gengið öllu lengra í að skylda útgerðina til þess að standa undir þeim áföllum, sem hún varð fyrir á síðustu síldarvertíð. En þessar till., að ríkisstj. vill láta framselja sér sjóveðin, koma í bága við það, sem ég nú minntist á, að væri skoðun sjútvn. Og þessi skoðun kemur heim við það, sem hæstv. fjmrh. mun hafa sagt við 1. umr. málsins, þó að hann segði það ekki ákveðið, að svo mundi verða gert, nefnilega að fara inn á þá braut, sem n. hefur farið inn á í brtt. á þskj. 150. En það er nokkuð mikið annað, sem hér er um að ræða að gera, að leysa inn sjóveðin og fyrirskipa á þann hátt almennan greiðslufrest á skuldum útgerðarinnar.

Í samræmi við þetta, að ríkisstj. fer þannig að hlutast til, meira og minna, um rekstur hvers einasta báts, þá er breytt verkefni nefndarinnar, sem skipa á samkv. 5. gr. frv., sem fyrir liggur. Og það er ekki annað sjáanlegt, en að þessi nefnd eigi bókstaflega að fylgjast með öllum rekstri útgerðarinnar. M.ö.o., jafnframt því sem útgerðarmenn eiga að njóta þessarar réttaraðstöðu, að ríkið leysi inn til sín sjóveðskröfur, haldandi sjóveðunum — sem sagt geri hlut, sem ekki nokkur fjárhagsleg áhætta er í — þá fær ríkisstj. rétt til þess að hafa skarpt og mjög náið eftirlit með útgerðinni, sem ég býst við, að útgerðarmenn sjái ekki neitt athugavert við. En þetta er ósamræmi, að ríkisstj. við það að leysa til sín sjóveðin fái meiri rétt til þess að hafa eftirlit með útgerðinni, en þeir hafa, sem eiga þessar kröfur nú, því að það er ekki nein hætta á, að þessar skuldir tapist, sem sjóveðin eru fyrir, því að skipin eru í margföldu verði fyrir sjóveðskröfunum, sem þarna er um að ræða. En gagnvart því þarf hæstv. ríkisstj. að gæta sín vel, ef farið er inn á þessa braut, að þessi eftirlitsnefnd verði ekki eitt skrifstofubákn með höfuðstöðvum í Reykjavík og svo deildum úti um allt land, kannske eitt af okkar dýrustu skrifstofubáknum. Það yrði lítill vandi á grundvelli þessara ákvæða að gera þetta að geysilegu ríkisfyrirtæki. Og þá vil ég segja, að þeir peningar, sem til slíks skrifstofubákns færu, sem þannig væri sólundað, væru betur komnir beint til útgerðarinnar heldur en í slíkt skriffinnskubákn. Þetta ákvæði frv. er á þessa leið: „Lánveitinganefnd skal sannprófa, eins og unnt er, hvort skjöl þau séu rétt, sem hún fær frá útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum.“ — Ef ríkisstj. hefði sérstaka reynslu fyrir því, að útgerðarmenn væru einhverjir óheiðarlegir menn, sem væru alltaf að plata um sína afkomu, þá væri ástæða til þess að hafa þetta ákvæði. En ég býst við, að það séu ekki nokkrir aðrir menn í þessu þjóðfélagi, sem verða eins að gera grein fyrir hverjum hlut í sínum rekstri eins og útgerðarmenn. Og svo á að skipa nefnd, sem á að „sannprófa, eins og unnt er“, hvort um skjalafalsanir eða lognar upplýsingar sé að ræða frá þessum mönnum. Á grundvelli þessara ákvæða væri hægt að fyrirskipa lögreglurannsókn hjá þessum mönnum í sambandi við þeirra atvinnurekstur. Og ég sé ekki, að það sé hægt að sannprófa í þessum efnum, ef það á að vera öðruvísi en að fram fari lögreglurannsókn. Það er naumast, að útgerðin á einu sinni að vera undir eftirliti hjá hæstv. ríkisstjórn! — Og þetta er gert af því, að ríkisstj. ætlar að leysa inn sjóveð, en á þessar kröfur vísar samt sem áður, því að þær verða borgaðar, hvað sem fyrir kemur.

Ég verð að segja, að skilningur á þörfum útgerðarinnar er ekki allt of mikill hjá hæstv. ríkisstj. Við höfum skaðað okkur og ríkissjóð peningalega um margfalda þá upphæð, sem það kostar að leysa út þessar sjóveðskröfur, með því stoppi, sem þetta hefur valdið. Þetta hefur einnig orsakað stórkostlegt gjaldeyristap, og verða menn að gera sér það ljóst, að þetta hefði verið hægt að koma í veg fyrir, ef bátarnir hefðu verið leystir og getað farið á veiðar Það er enginn sparnaður að þessu og eina leiðin til að fá úr þessu bætt er að leysa það strax, svo að útgerðin geti haldið því lánstrausti, sem hún hefur, og ekki þurfi stöðugt að hafa hana undir ríkiseftirliti. Það er ömurlegt að vita, hvernig komið er fyrir útgerðinni, og illt til þess að vita, að enn skuli vera reknar atvinnugreinar með gífurlegum hagnaði, sem byggja gróða sinn á tapi útgerðarinnar. Höfuðástæðan fyrir því, hvernig nú er komið fyrir útgerðinni, er ekki sú, hve illa hefur gengið á síldarvertíðum nú undanfarið, þó að ég vilji engan veginn gera lítið úr þeim áföllum og að þá hafi fyrst keyrt um þverbak við þau óhöpp, heldur er orsakanna að leita í því ranglæti, að útgerðin er neydd til að afhenda gjaldeyrinn til ríkissjóðs, sem afhendir hann aftur mönnum, sem ekkert hafa lagt fram til að skapa hann. Flest skipa þeirra, sem nú liggja undir sjóveði, væru ekki í vandræðum nú, ef þau hefðu fengið að verzla með þann gjaldeyri, sem þau öfluðu. Eitt skip, sem er sennilega bráðum komið undir hamarinn í kjördæmi hv. fjmrh., er búið að tapa stórfé, líklega 200–300 þús. umfram það, sem þeir áttu, en það hafði skapað gjaldeyri, sem græðzt hefur annað eins á og þeir eru búnir að tapa. Þetta sýnir, að ekki er hægt að koma útgerðinni á þann grundvöll, að hún geti staðið undir sér, með öðru móti en því, að hún fái gróða af innflutningsverzluninni. Útgerðin heldur áfram að sökkva og sökkva meðan gjaldeyririnn, sem hún hefur aflað, er tekinn og afhentur öðrum, sem ekki hafa aflað hans. Viss öfl vilja ekki viðurkenna þetta, en þetta verða stjórnarvöldin að sjá. Útgerðin þarf að geta grætt til að geta staðið undir atvinnulífi þjóðarinnar. Það er ömurlegt til þess að vita, að eftir að hæstv. ríkisstj. hefur athugað þessi mál síðan í vertíðarlok, skuli aðrar eins káktillögur sem þessar koma fram. Hve langan tíma þarf hún til þess að koma með till., sem horfa í rétta átt, því að enn horfir niður á við. Ég mun ekki ræða þetta frekar, en vona, að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir, hvað hann hugsar sér um varanlega lausn þessa vandamáls. En með þessu er verið að keyra útgerðina niður í botnlaust skuldafen.