09.12.1948
Neðri deild: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er mjög undrandi yfir þessari tillögu, sem hér liggur fyrir. Meiningin er að taka útgerðina til gjaldþrotaskipta, og þetta er pólitísk gjaldþrotayfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. Hún treystir sér ekki til að ráða fram úr þessum málum, eins og kom greinilega fram hjá hæstv. frsm. Hún ræður ekki við þá aðila, sem hún þarf að semja við. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, hvert stefnir. Mér finnst, að of lítið örli á hugsun um skyldur við útgerðina. Grundvöllur vandræðanna þarf að koma fram, og það þarf að bæta úr því, sem miður fer. Gjaldeyririnn hefur verið tekinn með valdi af útgerðinni og afhentur bönkunum. Bankinn er fyrst og fremst sá aðili, sem fær gjaldeyrinn, en hann selur hann síðan öðrum aðilum. Landsbankinn verzlar með gjaldeyri og ekki ódýrt, það geta þeir borið um, sem hafa þurft yfirfærslu. Og skýrsla Landsbankans ber með sér, að hann hefur árið 1946 grætt 15 millj. kr. á þessum gjaldeyri og annarri veltu sinni, og 1947 græddi hann 16 millj. Tap síldarútvegsins í ár er hér talið 14 millj. kr. Allt tap síldarútvegsins á þessari hrapallegu vertíð er ekki eins mikið og gróði Landsbankans á einu ári. En það eru ekki bankarnir einir, sem græða á þessum gjaldeyri. Hann er síðan seldur til heildsalanna, og það er ekkert smáræði, sem þeir græða á honum. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur staðið í langvinnum samningum um, hvað lánsstofnanirnar sæju sér fært að greiða, og hefur hangið mánuðum saman sem beiningamaður á Landsbankanum, hvort hann sæi sér fært að gera eitthvað fyrir sjávarútveginn, þrátt fyrir það, að hún hefur fyrir sér reikninga Landsbankans sem sýna, að hann hefur grætt 15 millj. kr. 1946, 16 millj. kr. 1947, og varla verður gróðinn minni nú í ár. Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að fara að sýna sig mynduga gagnvart þessari stofnun. Það er óhætt að spyrja þessa herra, þegar þeir stjórna þannig, að þeir eru að drepa sjávarútveginn, hvar þeir stæðu, ef þeir fengju engan gjaldeyri. Ég veit, hvernig þeir eru, þegar hagsmunir útgerðarinnar eru annars vegar og hæstv. fjmrh. veit það eflaust líka. Og hvert er svo ráð það, sem Landsbankinn gefur ríkisstj.? Það er það, að Alþ. á að lýsa því yfir, að hver einasti maður, sem hefur lánað útgerðinni, eigi að lána áfram án þess að vera viss um að fá það aftur. Það á að skylda alla til að láta laun standa inni áfram. Verkamaður, sem á að fá laun sín vikulega, á að lána laun sín til lengri tíma. Allir aðilar eiga nú að fara að lána til þess að hlífa helztu gróðastofnun landsins, Landsbankanum, við að lána eins árs gróða. Og ef þetta verður nú samþ. í dag eða á morgun og útgerðarmenn verða að svíkja lánardrottna sína, hvernig fer þá eftir hálft ár? Ætli Landsbankinn láni þá? Væri ekki nær að skylda Landsbankann til að leggja fram svo sem 15 millj. til útgerðarinnar, svo að hægt væri að halda henni gangandi. Ég hef séð og oft gert það að umtalsefni, að fyrr eða síðar kæmi að því, að gera yrði upp við sig, hvort útgerðin, sem allt byggist á hér, skuli sett nr. 1 eða hvort verzlunarvaldið og bankarnir skulu skipa það sæti. Bankarnir og verzlunarvaldið hafa alltaf verið að græða, en útgerðin að tapa. Þetta getur ekki gengið. Ef útgerðin væri skynsamlega rekin, mundu menn vilja leggja fé sitt í hana. Það verður að setja fjármagnið þar, sem það er þjóðinni fyrir beztu, og því verður útgerðin að hafa möguleika til þess að græða. Þegar dýrtíðarlögin voru sett, vöktum við athygli á því, að gefa yrði útgerðinni kost á því að græða. Ég gerði þá fyrirspurn um það, hvort öruggt væri, að vextir yrðu einnig bundnir. Hæstv. ríkisstj. svaraði þessu ekki. Ég hafði fengið upplýsingar um, að Landsbankinn ætlaði að hækka vextina, og það gerði hann. Og á sama tíma og hann hækkar vextina, skipar hann ríkisstj. að koma fram með þessar till., að gera flesta landsmenn að lánveitendum í stað sjálfs sin. Með þessu lagi er aðeins tímaspursmál, hvenær útgerðinni verður siglt í strand. Það verður að horfast í augu við erfiðleika útgerðarinnar og létta einhverju af henni, svo að hún sligist ekki undir öllu saman. Útgerðin er nú eins og klár, sem þrír feitir karlar sitja á bakinu á: bankavaldið, verzlunarvaldið og skrifstofubáknið. Þetta bákn tútnar út, en allur gróðinn, sem það fær, er frá útgerðinni, sem dregst saman og brotnar að síðustu niður undir þessum þunga, ef ekkert verður að gert. Alþ. hefur vald til að láta Landsbankann lækka vextina og lána útgerðinni og einnig að minnka skrifstofubáknið, en ekkert slíkt felst í þeim till., sem liggja hér fyrir. Ég neita því ekki, að ef til vill hafi verið rætt um skynsamlega lausn málanna, en allar hafa þær verið kæfðar af hinni afturhaldssömu stjórn, sem ræður Landsbankanum. Hún reyndi að spilla fyrir því, að nýsköpunarstjórnin keypti 30 togara til landsins, og setur sig nú á háan hest og vill ekki láta svo mikið sem eins árs gróða til þess að bjarga útgerðinni, sem bankinn hefur þó fengið mest af gróða sínum frá. Ég tel ástæðulaust fyrir Alþ. að beygja sig svo fyrir embættismönnum sínum að samþ. slíka till., sem áreiðanlega verður ekki til þess að halda útgerðinni gangandi, því að þetta er sama sem að gera hana ómynduga. En gjaldeyrir sá, sem útgerðin aflar, er tekinn og afhentur bönkunum. Ef gjaldeyrisverzlunin væri frjáls, þá væri útgerðin ekki í vandræðum. Frá þessari deild ætti ríkisstj. frekar að fá stuðning til þess að knýja bankavaldið, sem ætlar að sliga útgerðina, til þess að veita henni stuðning. Ég held því, að ekki eigi að samþ. þessa till., heldur samþ. till. um það, að Landsbankinn skuli snara út 14 millj. kr. til þess að bjarga útgerðinni. Ef til vill hugsa þeir þá betur um, hverjir eigi að stjórna fjármálum okkar.

Hæstv. ríkisstj. á ef til vill ofurlitla sök á þessu sjálf vegna þess, hvernig hún ráðstafar vörum þeim, sem útgerðin aflar. Í janúar til ágúst nam útflutningur á síldarolíu 56–57 millj. kr. Ég veit, að meginið af þessari olíu, eða 21 þús. tonn, voru seld á um það bil 100 sterlingspund tonnið, eða um 30 pundum pr. tonn undir sannvirði. Ef útgerðarmenn hefðu sjálfir selt olíuna og skilað andvirðinu til bankanna, þá hefðu þeir fengið 30 pundum meira pr. tonn, eða minnst 18 millj. kr. meira en fékkst. Það, sem haft er af síldarútveginum með sölusamningi ríkisstj. við England bara af síldarolíunni, nemur meiru en allt tap síldarútvegsins. Þrátt fyrir hin ægilegu töp vegna aflabrestsins í Hvalfirði í vetur hefði síldarútvegurinn staðið óstuddur í ár, ef síldarolían hefði aðeins verið seld með réttu verði. Því fer því fjarri, að útgerðin standi sem beiningamaður gagnvart bönkunum og verzlunarvaldinu. Það er því skylda þeirra, sem taka vöruna og gjaldeyrinn, að taka þannig á móti útgerðinni, þegar hún á í erfiðleikum, að ekki sé gefin út slík gjaldþrotayfirlýsing sem hér er gert. Ég vil segja það, að ef þessi till. verður samþ., þá þarf að tryggja, að kaupi verkamanna, sem greiða á vikulega, verði ekki skipað undir hálfs árs greiðslufrestinn. Það munu koma brtt., ef hæstv. ríkisstj. vill ekki hverfa af þeirri vandræðabraut, sem hún nú er að fara inn á.