09.12.1948
Neðri deild: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar ríkisstj. fyrir 2 árum settist á laggirnar, lýsti hún yfir, að svo að segja hennar aðalmark og mið væri að koma atvinnulífi landsins á heilbrigðan grundvöll og afnema verðbólguna. Nú er ríkisstj. búin að starfa í 2 ár að því að láta verðbólguna hjaðna og losa þjóðina við þessa óvætti og að því að koma atvinnulífinu á heilbrigðan grundvöll, og hæstv. fjmrh., sem er mjög raunhæfur maður og þekkir fjármálaástand landsins, kvað í sinni ræðu upp þann dóm, að það, að vera að tala um heilbrigðan grundvöll fyrir fjármála- og atvinnulíf Íslendinga, sé eins og að tala um ferð til tunglsins. Það er mjög gott að fá þennan dóm frá þeim ráðh., sem bezt af öllum ráðh. þekkir fjármála- og atvinnuástand landsins. Hann kveður upp dóm yfir því, hve gersamlega ríkisstj. hefur mistekizt með það, sem hún setti sér, þannig að í staðinn fyrir að halda sér við jörðina hefur hún verið á leið til tunglsins. Ég held, þó að ríkisstj. hafi tekizt þetta svona hrapallega í þessi 2 ár, þá þurfi Alþ. ekki að örvænta um það, að ekki sé hægt að koma þessu á heilbrigðan grundvöll, ef unnið er að því af einhverju viti. Hæstv. ríkisstj. er eftir þessi tvö ár ekki enn þá farin að koma fram með nokkra uppástungu, hvað þá að hún sé sjálf sammála um að gera nokkuð til bóta til frambúðar á þessu sviði, enda tek ég eftir því, að ráðh., sem sitja í stólunum með hæstv. fjmrh., flýja um leið og farið er að ræða einhverjar alvarlegar ráðstafanir. Og viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. kom að, að þessi vandamál útgerðarinnar væru verðbólgunni að kenna, þá álít ég, að það sé ekki rétt. En var það ekki verðbólgan, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að lækna, og hvað hefur ríkisstj. verið að gera þessi tvö ár, við hvað hefur hún verið að dunda? Hefur hún verið að dunda við það að athuga, hvort hún gæti ekki komið sér saman um einhverjar till. viðvíkjandi verðbólgunni, og að lokum komizt að þeirri niðurstöðu, að hún hefði ekki neinar till. viðvíkjandi verðbólgunni? Og hæstv. fjmrh. kvað upp þann dóm yfir þessum tilraunum ríkisstj., að það væri ekki von, að hún hefði neitt gert í þessu, því að við sósíalistar hefðum ekki komið með neinar till. Sem sé, ríkisstj., sem samanstendur af þremur flokkum, er búin að leitast við að finna einhverja leið þessi tvö ár og skellir svo skuldinni á okkur, að við höfum ekki bjargað henni, við höfum ekki komið fram með till. þessi tvö ár og þess vegna sé ómögulegt að gera nokkurn skapaðan hlut. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir fyrir ári síðan, að ríkisstj. væri búin að bjarga þessu öllu saman. Ríkisstj. flutti þá till. og sagði, að samkvæmt þeim væri loks fundið út, að þrátt fyrir að sósíalistar væru ekki með, væri hægt að bjarga þjóðinni. Var þá ákveðið, að verkalýðurinn skyldi fórna og vísitalan bundin við 300 stig, og þar með lýsti forsrh. yfir, að vísitalan, sem var í kringum 320, þegar l. voru samþ., mundi vera komin niður í 315 strax eftir að búið væri að samþ. l. og mundi svo á nokkrum mánuðum komast niður fyrir 300, og það áleit ríkisstj., að mundi nægja. Nú er komið ár síðan, og hvað er vísitalan? Ég held, að hæstv. ríkisstj. gerði bezt í því, þegar hún eftir tveggja mánaða þingsetu kemur fram með einhverjar till. fyrir þingið, sem snerta atvinnu- og fjármál, að sýna sig ekki í þinginu, flýja og reyna ekki að ræða þessi mál. Það er ekki hægt að ljúka upp munni um fjármála- og atvinnuástand þjóðarinnar án þess, að það verði fordæming á ríkisstj. og öllum hennar verkum.

Hæstv. fjmrh. sagði, að útgerðarmenn hefðu ekki annað að gera en að bjóða ríkinu að taka við tapinu og ríkisstj. væri þess vegna í hálfgerðum vandræðum, hún þyrfti að taka við þessu, án þess að ríkið hefði afskipti af rekstrinum. Þetta er ekki rétt. Ríkið hefur haft, eins og hæstv. ráðh. veit, mjög mikil og áberandi afskipti af rekstrinum vegna þess, að það er ríkið, sem tekur allan gjaldeyri, sem útgerðarmenn framleiða, og ekki aðeins gjaldeyrinn, heldur líka allar vörur, og rekur hvort tveggja. Það, sem er aðalatriðið í sambandi við reksturinn, eru afurðirnar, sem þeir framleiða, og þeim fá útgerðarmenn ekki að ráða yfir nema að því litla leyti, sem hæstv. ráðh. gat um, að honum hefði tekizt að bjarga í hrognum. Ríkisstj. tekur af þeim vöruna og selur hana við því verði, sem henni þóknast, og afhendir bönkunum gjaldeyrinn. Ég held, að það sé þess vegna fjarri því, að ríkið hafi engin afskipti af útgerðinni. — Hæstv. ráðh. kom síðan inn á það, að þeir bátar, sem stundað hefðu þorskveiðar á ýmsum stöðum, hefðu borið sig vel og það sýndi sig þar, að það væri ekki verðbólgan, sem eyðilegði útgerðina, ef hún fengi sæmilegt verð fyrir fiskinn, sem hún framleiðir. En ég sýndi í minni fyrri ræðu fram á, að það sama gilti um síldarútgerðina og svo framarlega sem ríkisstj. ekki sjálf hefði tekið með valdi alla síldarolíuna, 21.000 tonn, til ágústloka 1948 og selt hana undir fáanlegu verði, þá hefði bara rétt verð á síldarolíu gefið útgerðinni á þessu tímabili 18 millj. kr. meira, en átti sér stað. Það er þess vegna alveg gefið, að það eru þau opinberu afskipti, sem valda þessu tjóni að mjög miklu leyti.

Þá beindi hæstv. ráðh. þeirri spurningu til mín, hvort ég áliti rétta skráningu á gjaldeyrinum nú, og vildi álíta, að ef bara væri rétt verð á gjaldeyrinum, þá gerði ekkert til, þó að hann væri tekinn af útgerðinni. Nú er rétt fyrir okkur að athuga, þegar við setjum fram þá spurningu, hvað sé rétt skráð verð á gjaldeyri, að það er í rauninni þjóðfélagslegt atriði, hvaða verð við viljum skrá. Það getur vel verið, að okkur þyki t.d. henta að skrá lægra verð á gjaldeyri þeim, sem framleiddur er, vegna t.d. dýrtíðar, heldur en viðkomandi framleiðendur mundu geta fengið fyrir hann á frjálsum markaði, vegna þess að slíkt kynni að vera nauðsynlegt með tilliti til þjóðarheildarinnar, en það losar okkur ekki undan þeirri skyldu að hlynna að þessum mönnum á öðrum sviðum, t.d. að láta aðra ekki græða á þeim vegna þess, að okkur er nauðsynlegt að skrá þennan gjaldeyri eins og við gerum. Og svo framarlega sem menn álíta þjóðfélagslega nauðsyn á því að stöðva gjaldeyri íslenzkra framleiðenda, þá verður vel að gæta þess, að það er ekki síður nauðsyn, að ríkisstj. láti 1. ganga jafnt yfir alla í landinu og sjái um, að það sama gildi um útlendinga, sem hér dvelja. Það er vitað, að verð á frjálsum Keflavíkurmarkaði á gjaldeyri er, eins og bent hefur verið á hvað eftir annað, fyrir dollar frá 15–25 kr. En það eru eingöngu Ameríkanar, sem selja fyrir þetta verð til Íslendinga, án þess að ríkisstj., þótt hún viti af þessum svarta markaði, reyni að hindra það. Meðan þess vegna ríkisstj. sjálf ekki álítur þjóðfélagslega heppilegt að skrá gjaldeyrinn með hærra gengi en nú er gert, ber henni, þegar slíkt er gert vegna þjóðfélagsins, skylda til að sjá um, að þeir, sem gjaldeyririnn er tekinn af, verði ekki hart fyrir barðinu á þjóðfélaginu þess vegna, og fyrsta skuldbindingin er sú, þegar verðið er skráð á þennan hátt, að bankarnir séu ekki látnir græða stórkostlega á skráningunni, en útgerðin tapi. Ég hef á það bent, hvaða ráðstafanir sé hægt að gera í sambandi við þetta, en ríkisstj. hefur engar ráðstafanir viljað gera, og ég vil benda á það, að nú er ástandið þannig, að útgerðin verður að ganga á milli stofnana og biðja um gjaldeyri fyrir veiðarfærum. Það væri strax munur, ef hún réði yfir gjaldeyri til kaupa á veiðarfærum, þótt ekki væri á neinn hátt breytt um skráningu. Og ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að það liggur ríkisstj. nær, en að hugsa um skráningu að losa eitthvað um þau höft, sem á útgerðinni eru, því að það er ekki aðeins gjaldeyririnn, sem tekinn er af henni, heldur líka vörurnar, og ef útgerðin ræður yfir sinni vöru, þá gerbreytir það hennar afstöðu, vegna þess að það skapar henni möguleika til að selja betur en ríkisstj. gerir. Til þess að geta sannað, fyrir hvaða verð hægt sé að selja íslenzkar útgerðarvörur, verður að gefa þessa verzlun frjálsa og leyfa íslenzkum útgerðarmönnum að sanna, hvað þeir geta fengið fyrir sínar vörur. Ég held því t.d. fram, að hægt hefði verið að selja síldarolíu fyrir 130 sterlingspund í staðinn fyrir 95100.

Þá vil ég viðvíkjandi þeim praktísku hlutum, sem hér liggja fyrir, beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvernig farið verður að með þessi sjóveð. Verða öll þessi sjóveð jafnrétthá, og ef sjómenn þurfa sjóveð eftir Hvalfjarðarvertíðina, verða þau þá rétthærri eða réttlægri, en sjóveð ríkisstj., og ef ríkið á að hafa sjóveðin, hvernig fer þetta þá, verður þá ekki sjóveðsrétturinn einskis virði, ef þetta er endurtekið nokkrum sinnum?

Ég efast ekki um, að hæstv. fjmrh., eins og hann lýsti yfir, mundi vilja gera allt þetta mjög sanngjarnlega og velviljuglega gagnvart útgerðarmönnum og sjómönnum. En í fyrsta lagi er ekki gefið, að núverandi hæstv. fjmrh. sitji alltaf í þessu sæti, það getur komið annar maður, sem ekki er svo velviljaður útgerðinni, og þess vegna er lítil skuldbinding í slíkum yfirlýsingum eða slíkum velvilja. Í öðru lagi gæti þetta orðið óviðráðanlegt, og með þessari aðferð er verið að fara inn á að skapa svoleiðis glundroða í allri þessari aðstoð og öllum þessum verzlunar- og viðskiptamálum útgerðarinnar, að það finnur enginn maður neitt út úr þessu. Hæstv. fjmrh. taldi mjög varhugavert þetta, sem ég sting upp á, að skylda Landsbankann til að borga þetta. En ég veit ekki, hvort þetta er nokkuð varhugavert. Hvað er mikið af þessum 14 millj. í Landsbankanum, og er hann ekki skyldugur til að lána eitthvað af því með þessu móti, og er þetta þá nokkuð varhugavert, er þá hitt þau ósköp, að það mundi muna sérstaklega mikið um það að taka á sig þá viðbót, er það nokkuð varhugaverðara en að segja Pétri og Páli að eiga þetta hjá útgerðinni? Ég held ekki. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, þó að þetta sé samþ., þegar búið er að gefa fordæmi eins og þetta, að menn, sem koma hingað til Reykjavíkur, fái lánaða matvöru. Ég er hræddur um, að þetta sé ekki einu sinni tjaldað til einnar nætur hvað vertíðina snertir og reynist síðan óhæft til að búa við. Mér skilst, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. vilji gjarnan fá einhvern tíma til þess að hugsa þessi mál betur. Náttúrlega er það ákaflega gleðilegt, ef hæstv. ríkisstj. er allt í einu komin inn á það að ætla að fara að hugsa. Það hefur farið mjög lítið fyrir því hjá hæstv. ríkisstj. undanfarin tvö ár. En ég er hræddur um, þótt hún færi að hugsa og tæki til þess nokkra daga eða nokkrar vikur, að árangurinn yrði ekki meiri en hann hefur verið þessi tvö ár, því að hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að í verðbólgunni hefði ekkert verið gert, en það var það eina, sem ríkisstj. ætlaði að gera. Ég sé ekki, að hæstv. ríkisstj. geti setið yfir svona málum til lengdar, og ég held, að ríkisstj., sem kemur fram með svona till., þar sem ekkert er til frambúðar, eigi að segja af sér. Ég þykist vita, að hæstv. fjmrh. sjái í rauninni alveg dóminn, sem hann kveður upp yfir ríkisstj., en fái hina ráðh. ekki til að sansast á þetta, þeir vilja sitja áfram. Og meðan þeir sitja hlaða þeir þunganum meir og meir á útgerðina, sem endar með því að útgerðin brotnar undan þunganum, og það eru fyrstu brestirnir, sem eru að koma í ljós í þessu frv. Það er svo langt frá því, að það sé verið að skaffa þarna undirbyggingu, að það er þvert á móti. — Ég skil hæstv. ráðh. þannig viðvíkjandi verkamannakaupinu, að hann áliti, að það komi alls ekki þarna inn, vegna þess að verkamenn eigi ekki kaup hjá útgerðinni. Væri rétt að bæta slíku skilyrði inn í 4. gr., og ætti ráðh. ekki að setja sig þar í móti.