09.12.1948
Neðri deild: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Áki Jakobsson:

Hæstv. ráðh. tók það fram, að við hefðum ekki bent á nein ráð til þess að leysa þau vandamál, sem hér er um að ræða, en í þess stað hefðum við bara vegið að heildsölunum. Ég hef bent á, að tvöfalt gengi mundi hafa í för með sér áframhaldandi verðbólgu, sem mundi auka erfiðleika útvegsins verulega. Hins vegar er ég með því, að útgerðin yrði meira aðnjótandi og hefði meiri þátttöku í ráðstöfun þess gróða, sem útvegurinn skapar. Með því móti gætum við rétt útveg okkar við. Það á að taka hlut af þeim, sem skiptir hundruðum milljóna á hverju ári. — Þessi tillaga hefur komið frá þeim, sem hag hafa af því, að það fyrirkomulag, sem nú ríkir, haldist. Ég er ekki að kenna heildsölum um þetta ástand, heldur þeim sem stjórna. (Fjmrh.: Hvað gerði þm. til þess að útrýma þessu ástandi, þegar hann var ráðh?) Það var engin leið að komast hjá þessu ástandi, því að það hafði verið að skapast allt frá því 1932.