17.12.1948
Neðri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

92. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við umræður í fjhn. um þetta mál skildist mér fyrst, að meiri hl. n. tæki afstöðu með þessari brtt. hæstv. fjmrh., sem þá lá fyrir, en ég lýsti yfir í n., að ég væri andvígur þessari till. En svo fór það þannig, að raunverulega hefur meiri hl. fjhn. ekki tekið afstöðu með þessari stórfelldu hækkun. Það hefur ekki orðið nein smáræðishækkun á þessu gjaldi frá því að núverandi stjórn tók við völdum. Ég get ekki betur séð en verið sé að gera þessar vörur að hálfgerðum lúxusvörum, og eru þetta þó vörur, sem almenningur hefur mikið notað.

Mér þótti í meira lagi einkennilegt að heyra hæstv. fjmrh. kvarta undan viðskiptanefnd, að hún hefði neitað um efni í þessar vörur og að stjórnin réði ekkert við þessa nefnd, að manni skildist. Það væri fróðlegt að heyra eitthvað greinilegra um þetta. Þessi nefnd er ekkert annað en deild úr fjárhagsráði, og ekki vantaði það á sínum tíma, þegar frv. til laga um fjárhagsráð var til umr. hér í Alþ.,ríkisstj. og hennar lið lýsti því yfir hvað eftir annað og staðhæfði, að fjárhagsráð ætti að verða ríkisstj. gersamlega undirgefið. En nú lítur allt í einu helzt út fyrir, að ríkisstj. ráði við hvorugt, viðskiptanefnd og fjárhagsráð, því að ráðherrarnir eru farnir að koma dag eftir dag og kvarta við okkur alþm. hér í d. um það, að þessar stofnanir stjórnarinnar fáist ekki til að taka neitt tillit til tilmæla hennar. Hæstv. menntmrh. kvartaði um þetta í gær og hæstv. fjmrh. í dag. (Fjmrh.: Ég sagði aldrei, að viðskiptanefnd tæki ekkert tillit til vilja stjórnarinnar.) Er stjórnin alveg búin að missa taumhaldið á þessum nefndum sínum og ráðum? Til þess voru þessir undirmenn skipaðir í stöður sínar, að þeir hlýddu og heyrðu beint undir stjórnina og framkvæmdu stefnu hennar. Svo ótvírætt áttu þeir að heyra undir stjórnina og starfa í hennar þjónustu, að Alþ. mátti ekki kjósa þessa menn á sínum tíma, stjórnin varð að skipa þá. Eru þessar kvartanir ráðherranna því ekki í meira lagi undarlegar?

En sem sagt, ég skal ekki tefja þessar umr. lengur, það liggur svo mikið fyrir, sem við þurfum að ljúka við fyrir jól. Ég vildi aðeins lýsa yfir því, að ég er á móti brtt. þeirri, sem hér liggur fyrir.