10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mál þetta hefur legið alllengi hér í þinginu, var látið bíða í nefnd og litið sinnt þar til nú, að það er allt í einu tekið fyrir á aukafundi, og verða þm. að hafa sig alla við, ef þeir eiga að vita af fundum, og má telja slíkt undarlegt með svo mikilvægt mál. Ég hef fylgzt með málinu, en vissi ekki af fundinum í gær, þegar málið var til 2. umr., fékk enga tilkynningu um það og má teljast heppinn að missa ekki líka af 3. umr. með þessum aðferðum. Málið er nú hér til 3. umr., en þar eð ég missti af 2. umr., mun ég nú ræða það í fyrstu almennt. — Mál þetta er þess eðlis, að það varðar alla landsmenn, og hefur verið beðið lengi eftir lausn á því. Sú till., sem kom í upphafi fram, að ráðstafa 6 millj. kr. á svipuðum grundvelli og áður, er frambærilegri en þetta, sem nú virðist ofan á í brtt., sem var hespuð í gegn. Þessar brtt. eru með öllu óviðunandi fyrir þá, sem þetta varðar, og ég skil ekki, að þeir, sem að þessu stóðu, hafi ráðfært sig við þá, sem vit hafa á þessum málum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að sjóveðs- og lögveðskröfur verði yfirteknar af ríkinu. Síðan er gert ráð fyrir, að ríkið hafi sjóveðin, og svo á að reka útgerðina undir áhvílandi sjóveði ríkissjóðs. Hvernig verður þá með áframhaldandi sjókröfurétt skipverja á bátunum? Nú geta komið nýjar sjóveðskröfur, og fá þeir þá sjókröfur fyrir sínu kaupi næst á eftir ríkissjóði? Ég geri ráð fyrir, að sjómenn verði hræddir við að ráða sig á slík skip. Þetta atriði er algerlega vanhugsað og getur ei svo verið og bjargar engu. Þetta er líka tilgangslaust vegna þess, að margir hv. þm. hafa látið í ljós, að vonlaust verði að innheimta þennan stuðning og því óþarfi að yfirtaka kröfurnar og halda þeim, heldur verði að gefa þær upp. Er þetta þá bara gert til þess, að menn þori ekki að ráða sig á skipin? Ég geri ráð fyrir, að því verði haldið fram, að kaupþegi haldi áfram sjóveðskröfurétti, þó að búið sé að leggja eitt sjóveð á áður og það gangi fyrir.

En svo er annað atriði öllu fráleitara, en það mælir svo fyrir, að ákveða skuli gjaldfrest á öllum öðrum skuldum útgerðarinnar til 1. júlí n.k. Ef ætti að framkvæma þetta, yrðu alger vandræði í öllum útgerðarbæjum. Til hægðarauka skal ég lýsa ástandinu á Norðfirði, þar sem ég er kunnugastur, en ég gæti einnig nefnt aðra staði þar sem eins er ástatt. Þar hafa útvegsmenn stofnað samvinnufélag og reka verkstæði og dráttarbraut. Hver bátur skuldar nú slippnum 20–50 þús. kr., og er nú beðið eftir stuðningsláni. Slippurinn skuldar vinnulaun og efni og færi á hausinn, ef lög þessi kæmu til framkvæmda. Slippurinn mundi því ekki setja neitt skip á flot, fyrr en hann fengi skuldir sínar greiddar. Skipin yrðu svo að dúsa þarna þangað til í júlí næsta sumar. Slippurinn er í samningsbundinni skuld við stofnlánadeild sjávarútvegsins og verður að greiða þangað 1% á mánuði eða 12% á ári og mundi þá komast í vanskil með þetta vegna aðgerða Alþ. Þetta fyrirtæki er ekkert sérstætt, svona er því háttað með slippa og vélaverkstæði annars staðar, þau geta ekki þolað þetta. Bankinn neitar að lána og heldur, að hann geti snúið sig út úr erfiðleikunum með því að láta bláfátæk fyrirtæki lána í sinn stað. Á Norðfirði var einnig myndað olíusamlag, og kaupa útgerðarmenn alla olíu sína í gegnum það, og skulda útgerðarmenn því nú 20–30 þús. kr. og fái útgerðarmenn nú gjaldfrest til næsta sumars, verður það sennilega að hætta störfum. Og það sama verður upp á teningnum, ef aðrar aðstæður eru athugaðar. Útgerðin skuldar verzlunum fyrir kost, og á Norðfirði er samvinnufélag um veiðarfæraverzlun. Það á ekki heldur að fá neitt greitt. Þetta er allt óframkvæmanlegt og helber vitleysa. Bátarnir skulda fátækum frystihúsum beitu og þurfa ekki að greiða hana fyrr en í júlí n.k., og kemur það mjög í bága við samninga frystihúsanna við sína lánardrottna. Þetta er að stinga höfðinu í sandinn. Ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur einungis farið út í þetta af því, að bankarnir hafa neitað að lána nægilegt fjármagn til útgerðarinnar. En eðlilegast væri að fá lán hjá þeim, en þeir þrjózkast við, og það er verkefni Alþ. að fá þá til að veita þetta lán. En hitt, að láta einhvern fátækling standa undir þessu með því að fá ekkert kaup, er að víkja sér undan erfiðleikunum. Eina lausnin á þessu er sú, að enginn fari eftir þessu og bátarnir fái rekstrarlán og borgi skuldir sínar og geti haldið áfram útgerðinni, en ég býst við, að bankarnir segi, að þeir þurfi ekki að borga skuldir sínar, því að þeir hafi gjaldfrest á þessum skuldum. En ef þetta er afsakað með því, að það sé ekki framkvæmanlegt, þá er þetta allt saman helber vitleysa og leysir ekkert. — Svo er hitt, hvernig það fer með útgerðarmenn og útgerð þeirra. Útgerðin verður álitin vandræðarekstur, sem bezt sé að hafa engin afskipti af, því að allt verður ef til vill gefið upp einhvern daginn. Ef þeir skipta við aðra, fá þeir greiðslu þegar í stað, en ef þeir skipta við útgerðina, fá þeir ef til vill hvítt plagg, sem hvergi gildir. Það er ekki álitlegt að eiga von á slíku. En hvað er að segja um bæina, sem byggja allt á útgerðinni? Hvaða þýðingu hefði það fyrir Vestmannaeyjar, Norðfjörð, Ísafjörð o.fl., ef þetta kæmi til framkvæmda? Það mundi þýða dauðadóm, fjöldi fyrirtækja settur á höfuðið og atvinnulífið hneppt í fjötra. Þessi atvinnurekstur verður að greiða sín gjöld til bæjanna, en hann gerir það eðlilega ekki fyrr en í júlí næsta ár, ef þetta nær fram að ganga, og þá er komið að því að greiða nýtt útsvar. Allt þetta hlýtur að stuðla að vandræðum fyrir alla þá, sem hlut eiga að máli. Þeir, sem lifa á verzlun og fá embættislaun, taka gróða eftir öðrum leiðum og hafa það gott eftir sem áður. Það, sem gera átti og hæstv. fjmrh. vissi, þó að strandaði á bankanum, var að samþ. lánveitingu og útvega lán til að létta á skuldum þeim, sem hvíla á útgerðinni, og auk þess viðbótarlán til að greiða brýnustu útgjöld, og um leið að semja um, að fastaskuldir og vextir og afborganir af þeim mættu bíða fyrst um sinn. Þá gat komið til greina að fresta vaxtagreiðslum til lánsstofnana stofnlánadeildarinnar, en hjá öðrum viðskiptastofnunum er það áhugsandi. Ég geri ráð fyrir, að olíufélögin muni segja við báta, sem skulda 15–20 þús.: „Við seljum bara ekki olíu, þegar svona lög eru samþ., og við getum alltaf átt von á slíku“ — og þá verða útgerðarmenn annaðhvort að greiða skuldina eða stöðva útgerðina.

Svo er hitt atriðið, sem óupplýst er, að nú er allt þetta bundið því skilyrði, að tryggður sé áframhaldandi rekstur útgerðarinnar í vetur. En hvað segja bankarnir um þetta? Ég veit ekki betur, en að þeir hafi gefið upp, að þótt útgerðin fengi þessar 6 millj. kr., eða sem því nemur að greiða sjóveðs- og lögveðskröfur, þá mundi t.d. Landsbankinn ekki halda áfram að veita rekstrarlán til nema um það bil helmings þeirra báta, sem við hann skipta. Hefur nokkuð verið úr þessu bætt? Veitir bankinn rekstrarlán þrátt fyrir þessi lög? Nú neitar hann öllum um rekstrarlán til áframhaldandi útgerðar. Sé það ekki tryggt, að Landsbankinn ætli að lána áfram, svo að flestallir útgerðarmenn geti haldið áfram, þá leysir þetta frv. engan vanda. Það skiptir mestu máli, hvort bankarnir ætla að veita riflegri rekstrarlán en áður eða hvort þeir ætla að draga úr rekstrarlánum frá því, sem verið hefur. Það getur vel verið, að bankarnir geti sagt, að þeir hafi þegar lánað svo mikið, að þeir eigi erfitt með að lána það, sem hér þyrfti að koma til. En þá er líka útilokað, að einstaklingar eða einstök fyrirtæki geti lánað, og ég held þá, að Alþ. verði að glíma við að hækka þessa upphæð úr 6 milljónum í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna. Og það er hægt, það verður að skera niður önnur útgjöld, þegar forgangsnauðsyn krefur, þegar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar er í húfi.

Ég vildi nú heyra frá hæstv. sjútvmrh., hvað hann segði við þessu, sem ég hef verið að tala um, og sérstaklega leikur mér hugur á að vita! hvort hann gæti gefið nokkrar upplýsingar um það, hvort Landsbankinn heldur áfram að lána svipað eða meira en áður, eða hann hættir að veita um helmingi þeirra báta, sem við hann skipta, rekstrarlán. Ef bankinn lánar ekki áfram, er gersamlega þýðingarlaust að samþykkja þetta frv.