10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Út af fyrirspurn hv. þm. Siglf. varðandi nefndarskipunina vil ég taka það fram, að nefndin er ekki pólitísk og ekki kosin af þingi, heldur skipuð af ráðh. Þetta er gert á ábyrgð ráðh., sem fyrir því gengst. Ekki er það nema eðlilegt, að hann verði látinn ráða. Ætla ég að þetta sé nægilegt svar við spurningunni. Um síldarprísa og fiskiprísa ætla ég, að sé óþarft að ræða við afgreiðslu þessa máls. Hef ég látið álit mitt í ljós við útvegsmenn sjálfa. Álít ég hentugt, að kaupendur og seljendur komi sér saman, en verksmiðjurnar eru allar einkafabrikkur, en ekki eign ríkisins. Ég býst ekki við, að það hafi neina þýðingu að fara að ræða hér um ábyrgðarverð á fiski og m.fl., sem hv. þm. hefur verið að spyrjast fyrir um, nema það væri tilgangur hans, sem virðist vera, að hv. þm. sé að reyna að tefja fyrir því, að þetta frv. fái afgreiðslu út úr hv. d. í kvöld. En ég vil á engan hátt hjálpa honum til þess að tefja þannig fyrir frv.