14.12.1948
Efri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og skýrt var frá hér við 2. umr. þessa máls, hafði n. ekki haft tíma til að ganga frá brtt. sínum við þá umræðu, og varð samkomulag um að bíða með þær til 3. umr. og athuga málið jafnframt nánar þangað til. Mér þykir þá rétt, áður en lengra er farið, að geta þess hér í stórum dráttum, hvernig afkoma þessa hluta útvegsins hefur verið að undanförnu.

Samkvæmt gögnum, sem fyrir liggja, eru samanlagðar skuldir 140 vélbáta, sem hér um ræðir, umfram eignir, báta, sem stundað hafa síldveiðar á undanförnum árum með stöðugu tapi, samtals 25.226.000 kr. Tap þessara báta á sumarsíldarvertíðinni 1948 nemur samkvæmt skýrslunum 14.104.133 kr. Alls voru tekjur þeirra á þessari vertíð 11.138.822 kr. en rekstrargjöldin 25.242.955 kr. Það er því bert af þessum gögnum, að það er ekki að ófyrirsynju, að fram er komið frv. um að veita þessum flota nokkra aðstoð. Þeir bátar, sem hér um ræðir, eru mikið til sömu bátarnir og veitt var 5 millj. kr. lán 1945 og aftur 5 millj. kr. lán 1947, og munu sárafáir þeirra hafa getað endurgreitt nokkuð af þessum lánum, sem ekki er furða. Rekstrarafkoman hefur sumpart átt rætur sínar að rekja til aflabrestsins undanfarin ár, allt frá 1945, en þó verður ekki sagt, að heildaraflinn á þessu tímabili hafi einn gefið tilefnið til þessarar afkomu, heldur koma þar og aðrar ástæður til greina. Hins vegar varð fullkominn síldarbrestur s.l. sumar, er rak smiðshöggið á verkið og leiddi til þess fjárþrots og öngþveitis, sem nú ríkir, enda var það ekki nema lítil] hluti af skipunum, sem fiskaði fyrir tilkostnaði í sumar. eða líklega um 25%. Það er því ekki deilt um það, að þessarar hjálpar er þörf. Um hitt eru fremur skiptar skoðanir, á hvern hátt eigi að hjálpa útveginum, og þá, hvort þetta frv. nægi til þess að koma útgerðinni á eðlilegan rekstrargrundvöll eða bæta svo fjárhag hans, að annað og meira þurfi ekki til, og er það viðurkennt af flestum, að þessar aðgerðir einar nægi ekki. Ég tel vafasamt, að þetta mál eigi að vera annað en hlekkur í keðju, og hefði talið heppilegra, að það væri leyst í sambandi við frekari aðstoð.

Ég hef átt sæti í nefnd til að rannsaka, hve hátt fiskverðið þyrfti að vera, til þess að þessir bátar beri sig á þorskveiðum í Faxaflóa í vetur og síldveiðum í Hvalfirði, ef síldin kemur þangað. Áætlanir um þetta frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna voru lagðar fyrir þessa nefnd, og sýndu þær, að þorskverðið þyrfti að vera 88 aurar pr. kg. til þess, að bátarnir gætu stundað þorskveiðarnar hallalaust í vetur. Ef þessar áætlanir væru réttar, væri samt ekki hægt að greiða neinar skuldir með þessu verði á fiskinum, sem ég nefndi, og virðist því svo, að sú aðstoð, sem hér er talað um, þyrfti a.m.k. að ná svo langt, að verðið gæti orðið 88 aurar pr. kg. til þess, að bátarnir gætu stundað þorskveiðarnar hallalaust í vetur. Ef þessar áætlanir væru réttar, væri samt ekki hægt að greiða neinar skuldir með þessu verði á fiskinn, sem ég nefndi, og virðist því svo, að sú aðstoð, sem hér er talað um, þyrfti a.m.k. að ná svo langt, að verðið gæti orðið 88 aurar, ef fyrirbyggja á sams konar fjárhagslegt öngþveiti bátaflotans innan mjög skamms tíma. Í þessu 88 aura verði er reiknað með 11,2 millj. kr. vaxtabyrði, en afborgunum er þar ekki reiknað með, og eru þær þó 4–12 þús. kr. á bát. Það er því auðséð, að þetta frv. getur á engan hátt dugað eitt til að greiða úr þessum málum. Væri nú horfið að, að tryggja 88 aura verð jafnframt þessu frv., mundi það samt sem áður kosta ríkið 38 milljónir auk uppbóta, eða samtals um 50 millj. kr. fyrir allan flotann. Hér er því um 50 milljónir að ræða eða þar um bil auk þeirra 6 milljóna, sem tilteknar eru í þessu frv. Og þessi upphæð, um 50 milljónir, gildir þó ekki nema fyrir þorskveiðarnar 1949, síldveiðarnar eru þar fyrir utan. Samkvæmt áðurnefndum áætlunum LÍÚ er gert ráð fyrir 42 kr. verði pr. mál af þeirri síld, sem veiðist í Hvalfirði, og á þá að verða aðeins um 1000 króna rekstrarafgangur yfir vertíðina, ef reiknað er með þessu verði fyrir síldina. Með tilvísun til þessa tel ég, að til þess sé full ástæða að halda því fram, að það sé í fyllsta máta eðlilegt að taka öll þessi mál til athugunar í einu, en kippa ekki þessu einu úr samhengi.

Eins og ég gat um áður, þá eru menn á eitt sáttir um, að svona sé nú hag útvegsins komið, og enn fremur eru allir á eitt sáttir um, að eitthvað verði að gera til þess að bæta úr. En á hitt eru menn ekki eins sáttir, hvernig fara beri að því. Ég fer ekki dult með það, að það er álit mitt, að það sé rangt að fara þá leið, sem hér er valin. Ég álít, að það eigi að taka málið til athugunar að nýju, og við þá yfirvegun er rétt að beina skeytum að öðrum aðilum en ríkisstj.

Það hefur verið bent á tvöfalt gengi. Ég tel þá leið of lítið athugaða. Ef þessi leið er farin, þá er það sjáanlegt, að verðmæti útflutts fisks nemur 100 millj. kr. Ef taka ætti þessar 100 milljónir og selja á hærra gengi, þá þyrfti að hækka um 50% til þess að ná 50 millj., eins og þyrfti. En það þarf enginn að halda því fram, að hægt sé að leggja 50 milljónir á 100 milljónir. Eins og innflutningsáætluninni er nú háttað, þá er slík hækkun ekki möguleg nema með mjög mikilli röskun. Væru síldarafurðir teknar og taldar gefa 100 milljónir, þá þyrfti ekki nema 15% til þess að standa undir rekstrarhallanum. En þessi braut er erfið, og alls ekki hættulaus. Það er athyglisvert, sem fram hefur komið í n., að til þess að hækka aflann svo að bátarnir beri sig, þá þarf hlutur sjómanna að vera 16.000 kr. og mundi það verða með 80 aura verði. Það segir sig sjálft, að ef það þarf að tryggja sjómenn með 1.6000 kr. í 41/2 mánuð, þá mundi það velta af stað nýrri verðbólgu. Það dettur engum í hug, að það sé hægt að tryggja með 16.000 kr. fyrir 4–5 mánaða vinnu. En það hefur verið skýrt fyrir okkur í n., að þó að þessir menn væru tryggðir með þessari upphæð, þá væru sjómenn samt verr settir en þeir, sem vinna við frystihúsin. Þess vegna er ekki hægt að fá menn á bátana, þegar þeir bera minna úr býtum en þeir, sem vinna að aflanum í landi. Ég er fullkomlega sammála, að þeir, sem hafa lengstan og verstan vinnutíma, vinna hættulegustu störfin og bera mesta áhættu, þeir eiga að hafa mest kaupið. En þegar þeir, sem í landi vinna, frétta, að hinir hafi meira en þeir, þá gera þeir kröfu til að fá meira og meira en framleiðendurnir þola. Ég er ekki að ráðast á kaupgjald manna í landinu. En er það ekki þjóðin sjálf, sem fyrir þessu verður? Er þá ekki sama, hvort greidd eru minni laun eða að öðrum kosti lagðir á hærri skattar? Ég hygg nú, að svo sé komið að menn séu farnir að sjá, að þessi loddaraleikur getur ekki staðizt öllu lengur. Það hefur sýnt sig, að málið er komið á það stig, að útvegurinn þarf að fá stórar fjárfúlgur úr ríkissjóði, ekki aðeins einu sinni, heldur hvað eftir annað. Mér hefur verið tjáð, að bráðlega sé von á nýjum lagafrv., þar sem þessi mál verði tekin til meiri og gaumgæfilegri athugunar. Ég tel heppilegast, að þetta sé látið bíða þangað til, vegna þess að þetta er svo fléttað hvað inn í annað.

Það hefur, reyndar ekki í þessari d., en við umræður um frv. í Nd., verið deilt harðlega á bankana í sambandi við þetta mál, einkum á Landsbankann, og hann sakaður um hina mestu afturhaldssemi gagnvart bátaútveginum. En ég vil leyfa mér að benda á, að menn mega ekki gleyma því, að Alþ. fyrirskipaði bönkunum að lána útgerðinni gegn 4% vöxtum, eða 2% lægra en venjulegt er, og 1/2 lægra en bankarnir greiða sparifjárinnlánendum. Þetta er stór fórn, og það er mikið vafamál, hvort það geti talizt eðlilegt, að Alþ. skipi þjóðbankanum að lána með slíkum kjörum, en þetta er staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá.Það má heldur ekki loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að flest verðbréf Landsbankans eru með 31/2% vöxtum, eða 1/2% lægri, en lánin til útvegsins. Hins vegar er það ljóst, að ríkisstj. hefur orðið að knýja á dyr hjá Landsbankanum með stærri lánaupphæðir en hollt er. Hv. þm. hafa haldið því fram, að bankarnir væru ríkisstofnanir, sem Alþ. gæti skipað fyrir verkum, en bankalögin mæla svo fyrir, að bankarnir eigi að vera óháðar stofnanir. Það er líka mjög varhugavert að rýra svo mjög sjálfsákvörðunarrétt bankanna, því að fjárhagslega sterkur þjóðbanki er sterkasta stoðin fyrir allt athafnalíf. Stjórnin verður því að gera aðrar ráðstafanir, en veikja þjóðbankann fjárhagslega.

Að svo búnu mun ég ræða hér þær brtt., sem sjútvn. leggur hér fram. Eins og þskj. 205 ber með sér, þá hefur n. mætt á 3 fundum. Rætt hefur verið við forsrh., fjmrh. og formann Landssambands ísl. útvegsmanna um þær brtt., sem komið hafa frá nm. Var n. sammála um, að nokkrar brtt. væru til bóta, og var n. óklofin um fyrstu þrjár greinarnar. Hins vegar fékkst ekki samkomulag um 4. gr., og skrifuðum við tveir nm., hv. 5. landsk. og ég, undir nál. með fyrirvara.

1. brtt. á þskj. 205 er við 2. gr. frv. og er svo hljóðandi, að aftan við 2. mgr. bætist: „Hafa þau lán sama forgangsrétt fyrir öðrum skuldum sem þær lögveðskröfur og sjóveðskröfur, er inn kunna að verða leystar skv. 1. mgr. þessarar greinar.“ Þ.e.a.s., það er heimilt að lána fleiri aðilum, sem hafa getað fengið lán, til þess að leysa sjóveðs- og lögveðskröfur út, en n. leggur það til, að þessi lán hafi sama gildi, sama forgangsrétt og lögveðskröfur. Það er vitanlega ekki hægt að leysa út lögveðskröfur og láta um leið haldast sem forgangskröfur og koma aftur fyrir veðbundnar kröfur. Þess vegna þótti rétt að setja þessa brtt. inn.

2. brtt. er um það, að aftan við 3. gr. bætist: „Lögveðskröfur og sjóveðskröfur, sem kunna að myndast eftir gildistöku þessara laga, hafa þó alltaf forgangsrétt fyrir hinum innleystu kröfum samkv. 2. gr.“ Það hefur þótt rétt að taka af öll tvímæli hér um, og var gr. því sett inn. N. var sammála um, að rétt væri að tryggja þessar kröfur.

Um 3. og 4. tölul. brtt., að í stað „lánveitinganefnd“ komi: skilanefnd — er það að segja, að það er gert til að samræma við væntanlegar lagagreinar síðar.

Eins og sést af nál. hef ég skrifað undir það með fyrirvara, og vil ég nú snúa mér að þeim atriðum, er snerta fyrirvara minn, og skírskota ég til grg. brtt. á þskj. 206, við 4. gr. Sú fyrri er um það, að í stað „1. júlí“ tvisvar í greininni komi: 1. okt. Skv. þskj. 190 er gert ráð fyrir greiðslufresti til 1. júlí. Ég tel, að frestur þessi sé allt of skammur, ef ætlazt er til þess, að útvegurinn geti sjálfur reist sig við og starfað þessa vertíð, og ekki aðeins þessa vertíð, heldur áframhaldandi, Það er staðreynd, að 1. júlí er mikill hluti bátaflotans að búa sig undir síldveiðarnar fyrir Norðurlandi, sem er rauðan í egginu hjá útgerðinni. Ef bátarnir gætu ekki farið á síld vegna þess, að allt væri í sama horfinu og nú er, þá efast ég um, að nokkur vildi taka á sig það ómak að fara á veiðar og leggja mikið fé í undirbúning þeirra, ef fresturinn væri útrunninn 1. júlí. Með tilvísun til þessa þykir mér rétt, að fresturinn sé lengdur til 1. okt. Ég tel það ákaflega vanhugsað að halda, að útvegurinn geti á þeim tíma, sem er til 1. júlí, greitt vexti og afborganir og rekstrarkostnað vegna síldveiðanna.

Ég vænti þess, að hv. þdm. sjái sér fært að breyta frestinum með tilvísun til þessa.

Eins og frv. gerir ráð fyrir, þá er greiðslufrestur veittur, lögboðinn á skuldum útgerðarmanna, á öllum skuldum, þar með taldar lausaskuldir. Þetta tel ég vera mjög ranglátt, því að þeir aðilar, sem í góðri trú hafa lánað útgerðarmönnum í von um, að vel veiddist, þeir eru alveg tryggingarlausir, en þeir, sem hafa samið um lánin, hafa þó alltaf einhverja tryggingu. Ég tel þetta rangt af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að fyrir því er engin trygging, að hagur útvegsins verði betri 1. júlí og að einmitt þá sé hægt að greiða þessar skuldir og hægt sé að fá lán út á væntanlegar síldveiðar. Hins vegar tel ég þetta verða mjög til að veikja traust viðkomandi aðila til útgerðarmanna og geti orðið til þess, að þeir hætti að lána þeim fé. Ég er viss um, að ef þessi ákvæði verða samþykkt hér, þá fer á annan veg en stjórnin ætlast til, og ég tel það óviðeigandi, að Alþ. skuli þurfa að bjóða að það skuli vera gjaldfrestur, eða með öðrum orðum, að skuldunautar skuli ekki greiða. Það hefur verið viðurkennt af stjórninni, að þetta ákvæði skuli ekki ná til þeirra, sem hafa haldsrétt, það er að segja til veiðarfæra, sem eru í viðgerð, ekki til þeirra hluta, sem vélsmiðjur hafa til viðgerðar o.s.frv. Eftir að þessi viðurkenning liggur fyrir, tel ég óhæft að útiloka aðra aðila, sem hafa í góðri trú lánað þessum mönnum, að þeir geti ekki samið um þessar skuldir. Þess vegna hef ég orðað mína till. þannig, að þetta nái ekki til lausaskulda, en ekki megi gera fjárnám í eignum útgerðar til 1. okt. 1949 til tryggingar þeim skuldum, þótt ekki hafi náðst samkomulag um greiðslu. Þetta orðalag er haft beinlínis vegna þess, að ég vil ekki heldur gefa þessum mönnum rétt til að stöðva útgerðina vegna þessara skulda.

Þessi hjálp, sem hér á að gera og er samkvæmt þskj. 190 6 millj. kr., er til að losa þau sjóveð og lögveð, sem hvíla á bátunum. Þau eru beinlínis til að tryggja það, að bátaútvegurinn fari aftur til starfa. Það má segja, að hjálpin nái ekki lengra, því að komi ekki önnur hjálp í viðbót, þá verður hún ekki önnur en þetta, en þetta er helzti hængurinn á, að þeir geti tekið til starfa. En ég álít, að þessi fyrirmæli 4. gr., að lögbinda, að lausaskuldir skuli ekki greiða upp fyrr en 1. júlí, torveldi það svo mjög, að flotinn geti tekið til starfa á þessari vertíð, að hann geri það ekki í mörgum tilfellum bara fyrir það atriði, og þá tel ég verr farið en heima setið, að kasta út úr ríkissjóði 6 millj. kr., án þess að trygging sé fyrir, að það takmark náist, sem til er ætlazt með því að greiða þessar 6 milljónir. Hitt er annað atriði, eins og ég hef áður skýrt frá, hvaða ráðstafanir eigi að gera um önnur atriði, svo sem hvernig útgerðinni verði skapaður öruggur rekstrargrundvöllur. Það er atriði, sem er miklu meira aðkallandi en að leysa þessi veðbönd, sem hér er um að ræða, því að ef rekstrargrundvöllurinn er ekki gerður tryggur, getur Ísland ekki starfað eða lifað. Það getur ekki starfað, nema heilbrigður rekstrargrundvöllur sé fyrir aðalatvinnuveg landsins, en ef það mál væri leyst, þyrfti ríkissjóður ekki að kasta út 6 milljónum til að leysa þessi veðbönd, því að það kæmi af sjálfu sér.

Ég legg mjög eindregið til, að þessar brtt. á þskj. 206 verði einnig samþ., þó að þær séu aðeins frá tveimur nm. og hinir tveir hafi ekki getað fallizt á þær. — Ég skal geta þess, að einn nm., hv. 1. þm. Reykv., var erlendis og gat því ekki verið á fundum n.