09.11.1948
Efri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi fá skýringu hjá hv. þm. Dal. viðvíkjandi 1. gr. Eins og hún er orðuð, skilst mér, að ekki sé heimilt að leggja útsvar eða tekjuskatt á vinningana, en það má líka fara lengra og segja, að hún feli í sér, að aldrei megi leggja útsvar né eignarskatt á þá eign, er myndast vegna vinninganna. Ég geri ráð fyrir því, að átt sé bara við það ár, er menn fá vinningana, en eins og þetta er orðað nú, má alveg eins túlka það á þann veg, að aldrei megi leggja á þetta útsvör eða tekjuskatt. Ég held, að það þurfi að athuga þetta atriði betur, því að þótt margir vilji styðja þessi lán, hygg ég, að enginn sé með því, að þessi undanþága gildi um tíma og eilífð.