16.12.1948
Neðri deild: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

104. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Áki Jakobsson:

Það stendur fullyrðing gegn fullyrðingu hjá mér og hæstv. fjmrh. Ég tek það fram, að það er algerlega tilhæfulaust, að við, hv. 4. landsk. þm. og ég, höfum nokkurn tíma neitað að mæta á ríkisstjórnarfundum til umræðna um mál, sem þar voru rædd. Hitt er annað mál, að þegar stj. rofnaði 1946, var af eðlilegum ástæðum rætt um möguleika á því að mynda nýja stjórn. Þannig lá í málinu. Það kom líka fram í seinni ræðu hæstv. fjmrh., að hann greip til þessara fullyrðinga til að afsaka sig og þann slóðaskap, sem hefur verið á afgreiðslu fjárl. Þetta kemur ekki sízt fram, þegar hæstv. fjmrh. er að færa það fram sem rök fyrir þessum óskiljanlega drætti, að sósíalistar hafi þá stefnu að hnýsast í hvers manns dall. Ég vil í sambandi við þessi ummæli hans um stefnu sósíalista segja honum það, að það hefur aldrei verið stjórn á Íslandi með annað eins nefnda- og leyfafargan og nú á sér stað. Það virðist alltaf gengið lengra og lengra á þeirri braut, enda er þessi málafærsla hæstv. ráðh. fram borin til þess að afsaka vinnubrögð hans. Við höfum setið starfslausir á Alþ. frá í haust, fjvn. hefur ekki getað starfað vegna þess, að ekki hefur verið vitað, hvernig þessum málum skyldi fyrir komið, allt vegna þess, að fjmrh. hefur látið dragast svo mjög að ganga frá fjárl. Svo er nú á síðustu stundu komið fram frv. um dýrtíðarráðstafanir, sem á svo að rubba í gegn á 2 dögum. Svo kemur aftur hlé eftir áramótin, en síðan verður fjárlfrv. rubbað í gegn á vikutíma, áður en þingi er lokið. Svona eru vinnubrögðin nú og í fyrra, og þetta er fyrst og fremst slóðaskap hæstv. ráðh. að kenna, að reka ekki fastar á eftir afgreiðslu fjárl.