16.12.1948
Neðri deild: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

104. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það eru aðeins örfá orð, sérstaklega í tilefni af orðum, sem féllu hjá hv. þm. Siglf. í fyrri ræðu hans, þar sem hann vildi halda því fram, að við starfsbræður fjmrh. mundum verða manna fúsastir til þess að gefa honum slæman vitnisburð, þegar samstarfinu væri lokið. Að vísu er það svo, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, að hjá stjórn, sem skipuð er af þremur allólíkum flokkum, hljóta að koma fram ólík sjónarmið í mörgum málum. Og þegar þessi stjórn rofnar, og það verður hennar endir eins og annarra stjórna, má vel vera, að eitthvað verði rifjað upp, sem fulltrúar flokkanna í ríkisstj. voru ekki sammála um, en það er alveg víst, að við, sem starfað höfum með fjmrh. í þessari stj., munum ekki bera honum þau orð, sem félagi hv. þm. Siglf. bar honum, að það hefði verið einkennandi fyrir hann, að hann hefði umgengizt ríkissjóð eins og versta óvin sinn. Þau orð verða aldrei sögð um núverandi fjmrh.