15.12.1948
Neðri deild: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég get sagt hv. þm. Borgf. það varðandi þau mál, sem hann var að tæpa á síðast í ræðu sinni, að unnið er að framgangi þeirra mála Íslandi í vil eftir þeim leiðum, sem líklegastar eru. Ég get ekki sagt um það að svo stöddu, hve miklar líkur eru til þess, að viðunandi málalok náist eftir þeim leiðum, en það get ég sagt, að ekki eru meiri líkur til þess eftir öðrum leiðum. Annars bjóst ég sízt við andstöðu gegn þessu máli af hálfu hv. þm. Borgf., sem hefur verið manna áhugasamastur um, að við fengjum fiskveiðaréttindi við Grænland. Ég fullyrði, að við höfum hag af, að samningar dragist á langinn um þetta, þar til búið er að skera úr um það, hvort við eigum réttarkröfur til Grænlands, því að ef við verðum ekki taldir eiga tilkall til Grænlands, sem hv. þm. Borgf. telur þó, að við eigum, þá er langlíklegast, að við getum samið þar um einhver fiskveiðaréttindi við Dani í sambandi við frágang sambandsslitanna og þá einhver fiskveiðaréttindi Færeyinga hér við land. Það er því talið beint áhugamál Íslands, að þessum samningum í sambandi við skilnaðinn sé ekki lokið um sinn, því að það mundi veikja réttarkröfur okkar til Grænlands, ef við semdum um skipti á fiskveiðaréttindum þar og hér, áður en úrskurður félli um kröfur okkar til Grænlands. En samninga um þau skipti yrðum við að taka upp áður en þær kröfur væru til lykta leiddar, ef við vildum knýja þessi mál í gegn strax. Það er því bezt að láta þessum málum ólokið eins og stendur, og því hefði ég ekki búizt við, að hv. þm. Borgf. beitti sér gegn þessu máli, sem hér liggur fyrir. Ég þori að ábyrgjast, að þessi takmörkuðu veiðiréttindi Færeyinga hér við land verða ekki til þess að draga úr möguleikunum á rýmkun landhelginnar. Það er annað og óskylt mál, að þessi réttindi spilla engu í því efni. En þótt þau séu takmörkuð, eru þau vitanlega einhvers virði, ella væri ekki sótzt eftir þeim. Það er auðvitað rétt hjá nv. þm., þótt mér sé hins vegar ókunnugt um, að þau hafi bakað Íslendingum beint tjón.

Ég hafði alltaf hugsað mér að fá einhver fiskveiðaréttindi við Grænland í skiptum fyrir þessi réttindi Færeyinga hér við land, ef svo færi, að við teldumst ekki eiga tilkall til Grænlands. En það dugar ekki að fara á flot með slík skipti, á meðan talið er, að við munum fá Grænland.