15.12.1948
Neðri deild: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Pétur Ottesen:

Það er ekki mín sök, þótt dregizt hafi að fá skorið úr um rétt Íslands til Grænlands. Ef mínum tillögum hefði verið fylgt, væri búið að skera úr því máli. Ég hef borið það þrisvar fram á Alþingi.

Mér hefur aldrei komið til hugar, að farið væri að semja við Dani um fiskveiðaréttindi Íslendingum til handa við Grænland, á meðan við gerum kröfur til landsins sjálfs og ekki hefur fallið dómur um réttmæti þeirra krafna. Það kemur vitanlega ekki til mála.

Afgreiðsla þessa máls nú er því ekkert háð því, hvort búið er að ganga frá Grænlandsmálinu eða ekki. Óskin frá Dönum byggist á þörf Færeyinga, og hún er söm, hvernig sem Grænlandsmálið fer. Hitt er rétt, að við eigum ekki að ganga til neinna samninga við Dani um Grænland, áður en skorið er úr um rétt Íslendinga til Grænlands, sem vér gerum kröfu til.