16.12.1948
Efri deild: 39. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér er sagt, að hv. þdm. hafi spurzt fyrir um það hér í gær, þegar þetta mál var hér til 1. umr. — en þá gat ég því miður ekki verið við hér á fundi, af því að ég var á stjórnarfundi —, hvað liði samningum þeim, sem hér um ræðir um nokkur atriði í sambandi við alger sambandsslit við Danmörku. Formlega séð er ekki ýkja mörg atriði að semja um. Og af Íslands hálfu skiptir það tiltölulega litlu máli, hvernig formlega verður frá þessu gengið, þar sem þegar hefur verið tekin afstaða til þess, sem mest var áriðandi, nefnilega um það, hvernig færi með gagnkvæman ríkisborgararétt milli landanna og þá þeirra Dana, sem hér hafa öðlazt jafnrétti við Íslendinga í skjóli sambandslaganna. Í Danmörku er það aftur á móti þannig, að Danir telja sambandslögin enn þá formlega í gildi og Íslendingar þar njóta hlunninda samkvæmt því. Þetta eru nú að mínu viti leifar af fyrra ástandi, sem ekki eiga lengur við. En ef Danir kjósa að hafa þann hátt á, þá þeir um það. Við vitum, að sá samningur, sem felst í sambandslögunum, er niður fallinn: Og varðandi innri löggjöf Dana viðkomandi Íslandi, þá hefur hún ætið verið svo, að Íslendingar hafa ekki átt gott með að skilja hana frá sínu sjónarmiði, og þá einnig þetta nú, að Danir álíta sambandslögin enn í gildi. En þeir um það. Það er þeirra að ákveða, hvenær þeir telja sambandslögin formlega niður felld.

En það eru sérstaklega tvö atriði, sem valda því, að ég hef ekki talið neinn vinning að ýta á eftir því, að þessum samningagerðum væri lokið. Annars vegar það, að enn þá er óafgert, hvernig verður með íslenzku handritin hin fornu, sem eru í Danmörku og Íslendingar hafa gert kröfu til. Það er að vísu vitað, að þau fást nú ekki með neinum beinum samningum í sambandi við þessi sambandsslit. Það er vonlaust. Ef Danir eiga að fást til að afhenda þau, þá verður það ekki nema einhliða ákvörðun, sem á sér stað af þeirra hálfu, án þess að þeir telji neina skuldbindingu á sér hvíla til þess. Það er eina vonin, að þeir geri þetta af frjálsum vilja. En fyrr en formlega er gengið frá samningunum um sambandsslitin, hef ég ekki séð ástæðu til að reka neitt á eftir með það, að við fáum handritin. E.t.v. þykir það óeðlilegt af Íslendinga hálfu, að samið sé um sambandsslitin, án þess að vikið sé að handritamálinu. En það er vitað, að það er útilokað, að handritin fáist þann veg með samningum. Hitt er svo annað atriði, sem Íslendingar hafa haldið fram, að ef Danir, þ.e.a.s. Færeyingar, ættu að fá nokkurn rétt til fiskveiða í íslenzkri landhelgi, þá verði Íslendingar þar á móti að fá einhver fiskveiðiréttindi við Grænland eða einhvers konar aðstöðu þar. Á því hafa Danir talið mikil vandkvæði, fyrst og fremst vegna þess, að almennir danskir borgarar hafa ekki fiskveiðiréttindi við Grænland. Svo blandast í þetta ákvæði um beztu kjarasamninga, o.s.frv. En áður en gengið er of langt í því að athuga, hvort hægt er að fá einhvern rétt við Grænland fyrir okkur Íslendinga í skjóli þess réttar, sem Færeyingum yrði fenginn til frambúðar hér við land til fiskveiða, svipað og í þessu frv. eru ákvæði um um stundarsakir, eða þá á einhvern annan veg — og er ég þó ekki sérstaklega trúaður á, að slík skipti yrðu fáanleg —, en áður en úr skugga yrði um það gengið, hvort þau væru fáanleg eða ekki, hefur mér þótt nauðsynlegt, að úrslit yrðu á því, hvort Íslendingar ættu að krefjast Grænlands alls eða ekki. Nú hefur hver nokkuð sína skoðun á því, hvort líkur séu til þess, að Íslendingar fái viðurkenndan forráðarétt yfir Grænlandi öllu, sem yrði þá undirstaða m.a. undir fiskveiðiréttindum fyrir okkur við Grænland. Þetta er umdeilt mál, og um það hefur verið rætt í sameinuðu þingi, og skal ég ekkert um það segja hér. En meðan till. um þetta liggja fyrir hæstv. Alþ. og ætla má, að einhver verulegur hluti þjóðarinnar trúi á, að þessi möguleiki sé fyrir hendi, þá hef ég ekki talið fært að knýja á um það, að gengið væri úr skugga um það, hvort við gætum fengið fiskveiðiréttindi við Grænland eftir öðrum leiðum, t.d. í skiptum í sambandi við fiskveiðiréttindi Færeyinga hér við land, því að slík skipti yrðu afneitun á rétti okkar yfir öllu Grænlandi. Við þyrftum ekki að fara í slík skipti, ef við ættum þann meiri rétt yfir Grænlandi, sem dr. Jón Dúason og aðrir með honum halda fram, að við eigum. Ég er þess vegna hræddur um, að erfitt muni vera að ganga frá framtíðarsamningum við Dani um þessi efni, nema því aðeins, að við annaðhvort féllum frá kröfu okkar til alls Grænlands eða misstum úr hendi okkar þann e.t.v. veika möguleika, sem við kynnum að hafa á því að geta skipt á fiskveiðiréttindum Færeyinga hér við réttindi okkur til handa í Grænlandi. Þær ástæður hafa orðið til þess, að ég hef ekki séð neina ástæðu til þess að reka á eftir því, að þessum samningum yrði hraðað. E.t.v. má líta svo á, að hvor tveggja þessi mál, handritamálið og fiskveiðiréttindi okkur til handa við Grænland, séu nú meir óskamál heldur en að það sé þannig, að raunverulegir möguleikar séu til þess að koma þeim fram. En a.m.k. vil ég ekki verða til þess, að óskir Íslendinga í þessum efnum eigi lengra í land með að rætast heldur en áður var. Og þess vegna held ég, að það sé rétt að láta þetta mál vera nokkuð óljóst nú um hríð. Og að því styður ósk mín, sem er í samræmi við ósk dönsku stjórnarinnar, um það, að þessi fiskveiðiréttur Færeyinga verði framlengdur um eitt ár, en málið að öðru leyti látið liggja í bili.