07.12.1948
Efri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

93. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það má vera rétt hjá hv. þm., að benzínskatturinn mætti vera hærri en nú er, en hvað snertir gagnrýni þá, er hann beinir að mér vegna þess, tek ég hana ekki nærri mér. Eins og hv. þm. mun reka minni til, hefur benzínskatturinn stórhækkað í minni ráðherratíð, en hann var allt of lágur áður miðað við annað.

Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þm., að það borgi sig betur að flytja vörur með bílum heldur en skipum, en það er ekki vegna þess, að svo ódýrt sé að flytja með bílum, heldur af því, að svo dýrt er að flytja með skipum. Reksturinn á strandferðunum gengur með skýháum töxtum, og samt sem áður er rungandi tap á öllu saman, sem ríkissjóður og gjaldendur verða að standa undir. Það eru því engin undur, þótt ódýrara sé að flytja með bílum en skipum, og ég samgleðst þeim, sem geta fært sér slíkt í nyt og fengið vörurnar ókolaðar heim í hlað og losna við farm- og uppskipunarkostnað. Bílaflutningurinn er ekki eins ægilega dýr og með strandferðunum, en hann er að sjálfsögðu ekki sérlega ódýr fyrir því. Hitt getur komið til athugunar að hækka þennan skatt sem annað, og getur hv. n. ef til vill átt tal um það við ríkisstj. Það getur komið til greina að líta á þetta frá sjónarmiði hv. þm., en kíkirinn, sem hann horfir í gegnum, er ekki réttur, en ég þakka hv. þm. fyrir þessa ábendingu. Hann veit, að ráðh. er ekki einráður um þetta, heldur verður að fara nokkuð eftir því, hvernig kaupin gerast á eyrinni, en verður jafnframt að sjá um, að jafnvægi sé í ríkisbúinu.

Málið fer nú til nefndar, og mun hún sennilega í samráði við ríkisstj. athuga, hvað mæli með og móti hækkun á þessum tolli, og segi ég þetta ekki til að hnekkja því, að ábendingar hv. þm. hafi við rök að styðjast, en þeir, sem mæla á móti, hafa ef til vill líka eitthvað máli sínu til stuðnings. Helzta ástæðan til hækkunar er sennilega sú, hve vegaviðhaldið er orðið taumlaust, þegar það hleypur 5 millj. kr. fram úr því, sem áætlað er í fjárlögum. Og kallar það í sjálfu sér á hækkun. En ýmislegt í atvinnu manna byggist á því, hve benzín sem drifkraftur er dýrt, og gætu stafað ýmsir örðugleikar af því að það væri dýrara, en nú er. Ég mun nú ekki leggja frekari dóm á þetta, en er fús til að ræða við hv. n. um þetta mál og eins um till. hv. þm.