16.12.1948
Efri deild: 39. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég óskaði við 1. umr. þessa máls að fá upplýsingar, sem þá var ekki unnt að fá, sökum þess að hæstv. utanrrh. var þá ekki viðstaddur í hv. d. Mig langaði til þess að vita um, hvers konar samningar hefðu farið fram, því að í 1. gr. frv. er talað um samninga, sem nú standi yfir. Hefur nú hæstv. ráðh. skýrt frá því og gert grein fyrir, hvers vegna hann hafi farið sér hægt um þá samninga. Ég skil vel þær aðstæður og tel eftir atvikum rétt, að ekki hefur verið kapp á það lagt að ljúka samningum um þetta eina atriði. Fyrir mér var þetta því upplýsing, sem hæstv. ráðh. flutti hér áðan, að Danir viðurkenndu ekki sambandsslitin. Og vil ég þá út af því spyrjast fyrir um það, hvort íslenzkir þegnar, sem nú eru í Danmörku við nám og eitt og annað, notfæri sér þá enn þá jafnréttisákvæði sambandslaganna og séu þá í skjóli þeirra og njóti þannig þeirra hlunninda, sem við nutum áður, er sambandslögin voru í fullu gildi, og hvort hæstv. ráðh. telur ekki, að slíkt geti veikt okkar rétt gagnvart Dönum, hvað þetta mál snertir, samninga viðkomandi sambandsslitunum milli Íslands og Danmerkur.