03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

83. mál, almannatryggingar

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 142 ber með sér, gat ég ekki fylgt hv. samnefndarmönnum mínum að málum, að því er snertir flutning og fylgi við þetta frv., sem hæstv. ríkisstj. eða félmrn. hefur óskað, að heilbr.- og félmn. flytti. Allir nefndarmenn, að mér undanskilinni, féllust á að flytja þetta frv. og mæla með samþykkt þess. Ég varð frv. andvíg sem heild, þ.e.a.s. fyrsta lið þess, sem er megintilgangur þess, eins og hv. frsm. meiri hl. n. gat um áðan, en það er frestun á III. kafla almannatryggingalaganna, um heilsugæzlu og heilsuvernd. Og það er það atriði, sem andstaða mín gegn frv. byggist á. — Um aðra liði þess er það að segja, að flest af því er til bóta, og mun ég, ef svo fer, að 1. liðurinn verður samþ., greiða öllum hinum liðunum atkv. mitt, að undanskildum 8. lið, sem ég mun greiða mótatkv., en 8. liður 1. gr. frv. er á þá leið, að iðgjöld skuli innheimt með hærri vísitölu, heldur en lög mæla fyrir, sem ég tel óviðfelldið og óeðlilegt. (HelgJ: Það er skylda að greiða elli- og örorkulífeyri með 315 stiga álagi.) Hækkunin er fest með dýrtíðarlögunum, þó að þessi liður yrði felldur niður.

Þá er 4. tölul. 1. gr. frv., sem mælir svo fyrir, að tryggingastofnuninni skuli vera heimilt að greiða giftum konum sjúkrabætur, þótt þær vinni ekki utan heimilis. Að þessu er mikil réttarbót, því að oft er það svo, ef húsmóðirin veikist, þá neyðist maðurinn til þess að vinna heimilisstörf og annast barnagæzlu og hjúkrun, auk þess sem það er mjög ósanngjarnt að vanmeta svo störf húsmóðurinnar, að þau séu ekki bótaskyld í veikindum. En þessa réttarbót og margar aðrar, sem í frv. felast, er mjög auðvelt að lögfesta án þess að fresta um leið framkvæmd III. kaflans, og það alveg jafnt, þó að Tryggingastofnunin hafi ávallt mjög eindregið mælt gegn öllum breyt. á lögunum, þannig að gerðar yrðu breyt. á þeim áður en heildarendurskoðun færi fram Og sú afstaða Tryggingastofnunarinnar hefur vafalaust valdið mestu um það, hversu lítið hefur verið gert að því að flytja frv. um breyt. á lögunum og umbætur á þeim. Og þetta ógeð Tryggingastofnunarinnar á breyt. á l. hefur verið svo mikið, að þeim, sem ekki væri kunnugt um upptök að frestun III. kafla laganna og ekki vissi, að þetta er frá Tryggingastofnuninni og ríkisstj. komið, hefði getað dottið í hug, að 4. liður 1. gr. frv. væri þangað settur til þess að menn freistuðust frekar þess vegna til þess að fylgja því ákvæði, sem er megintilgangur með frv. að setja, frestun III. kafla laganna, um heilsugæzlu. Og þeirri hugsun verður varla varizt, að svo hafi verið. Og það er víst, að þessi heimild í 4. liðnum gerir frv. miklu aðgengilegra en ella. En ákvæði 4. tölul. 1. gr. er auðvelt að lögfesta, þótt ekki sé frestað framkvæmd heilsugæzlukaflans, en á því frestunarákvæði byggist einmitt, eins og ég sagði áðan, andstaða mín við þetta frv., og það jafnt fyrir því, þó að ég fyrir ári síðan hafi stutt umyrðalaust áþekkt frv., sem einmitt hafði að geyma þessa sömu frestun um eins árs skeið. En það var vegna þess, að ég bjóst þá við, að fyrirmælum laganna yrði sinnt og lögin endurskoðuð í heild og að það mundi leiða til endurbóta og breyt. á heilsugæzlukaflanum. Þeirri endurskoðun er, sem kunnugt er, ekki lokið enn, og óvíst, hvort hún er hafin. (HelgJ: Hún er hafin.) A.m.k. eins og frv. barst nefndinni var ekki einu orði að því vikið, hvenær þeirri endurskoðun yrði lokið. Það voru nefndarmenn í hv. heilbr.- og félmn., sem settu inn í frv. þetta ákvæði um, að endurskoðuninni skyldi verða lokið fyrir 1. okt. 1949. (HelgJ: Það var till. frá ríkisstj., að endurskoðuninni yrði lokið fyrir árslok 1949.) Ég bið afsökunar. — Nú fer því víðs fjarri, að ég sé ekki enn sem fyrr sannfærð um nauðsynina á endurskoðun og endurbótum á heilsugæzlulögunum. Hvort tveggja er óhjákvæmilegt, því að á þessu eru miklir annmarkar, og til þess að lögin komi að fullum notum, verður að endurbæta þennan kafla l. Auk þess verður að koma skipulagi á þau mál, sem sé meir í samræmi við bolmagn sveitarfélaga og ríkisheildar, heldur en gert er í löggjöfinni, eins og hún nú er. Þegar þau lög voru sett, var víst meira hugsað um að flaustra af lagasetningu, sem gæfi fyrirheit um heilsufarsleg hlunnindi, en minna hugsað um, hvernig fara ætti að því að standa við þau fyrirheit, þegar til efndanna kæmi. Og síðan hefur af ríkisstj. hálfu lítið orðið vart áhuga á endurskoðun heilsugæzlukaflans, að því undanteknu að skipa Sigurð Sigurðsson yfirlækni heilsugæzlustjóra, sem er hinn mesti ágætismaður, sem ég treysti manna bezt til að hafa þetta starf með höndum, svo framarlega þó, að eitthvað verði aðhafzt annað, en slá því máli á frest og taka ekki mark á till. Sigurðar Sigurðssonar. Ég er andvíg því að fresta frá ári til árs framkvæmdum þessa kafla, vegna þess að ég er yfirleitt á móti þeim vinnubrögðum að setja lög og framkvæma þau svo ekki, þegar frestunin er að ástæðulausu, því að ekki sé ég neitt, sem mælir með slíkum aðförum, en margt mælir því í gegn að rjúfa fyrirheit, sem fólki hefur verið gefið með lögum frá 1946 og almenningur hefur greitt fé fyrir. Og því síður er ástæða til að fresta framkvæmd þessa kafla laganna, ef áframhaldandi aukakostnaður er í sambandi við þetta, sem frestað er, sem er ekki mikill, en þó það, sem fólk munar nokkuð um, 210 kr. á ári fyrir hjón og nokkru minna fyrir einhleypt fólk, og sveitarfélög hafa kostað til vegna þessa kafla um 2 millj. kr. Og fjármagn Tryggingastofnunarinnar mun vera talsvert, eftir því sem stendur í grg. frv. En 8. lið er ætlað að jafna þann halla með vísitölu í 310 stigum. Þá tel ég og varhugavert að hika við framkvæmdir af ótta við erfiðleikana, sem hljóta að mildast, en þeir minnka bara ekkert við biðina. Hér vantar allt til að framkvæma l. Það vantar nægilega marga lækna og hjúkrunarkonur. Og væri fróðlegt að vita um hjúkrunarkvennaskólann varðandi heilsugæzlulögin. — Skattalöggjöfin er ósanngjörn í garð giftra kvenna. Þegar tekjur þeirra bætast við tekjur mannsins, verða úrslitin þau, að þau bera minna úr býtum. — Þá þurfa að koma heilsuverndarstöðvar og lækningastöðvar, og í l. frá 1946 er gert ráð fyrir því, að þeim sé komið upp fyrir árið 1951. Það er þó eigi skýrt tekið fram. Er ólíklegt, að þær framkvæmdir verði hafnar, ef framkvæmd III. kaflans verður enn frestað. Auk þess þarf líka að breyta l. um styrk til sjúkrahúsabygginga, ef sveitarfélögin eiga að geta færzt þetta í fang. Verður fróðlegt að heyra úrslitin um mál hv. þm. A-Húnv. Eini kaflinn, sem hægt er að hefja framkvæmdir á, er um sjálfa sjúkrahjálpina. Hitt er mikilsverðara, að heilsugæzlan taki sem fyrst til starfa. Nú er engan veginn lítið úr því gerandi að hjálpa sjúkum mönnum og draga úr þjáningum þeirra, en hitt ætti að telja mikilvægara, að menn haldi heilsunni. Lokatakmarkið ætti að vera að skapa þau skilyrði, að fólk geti verið heilbrigt, en því verður eigi til vegar komið að fullu nema í ríki sósíalismans. Hvað sjálfa heilsuverndina snertir, þá væri hægt að halda áfram á svipaðan hátt og hingað til, þó að l. kæmu til framkvæmda þegar þ. 1. jan., en heilsugæzlustarfsemin að öðru leyti gæti gert mikið gagn. Það er t.d. á allra vitorði, að berklavarnastarfið hefur komið miklu til leiðar. Allar líkur benda til, að ef III. kaflinn kæmi strax til framkvæmda, væri mjög hægt að draga úr berklasýkingarhættunni. Berklavarnastöðin mun eigi ná til allra fyrr en heilsugæzlulögin koma til framkvæmda, þó að hún geri nú gagn. Þá hefur ungbarnaverndin eigi síður gert mikið gagn í 20 ár. Á hún vafalaust mikinn þátt í, að Ísland hefur þrisvar sinnum haft lægstan ungbarnadauða í veröldinni. Það er þó mjög hætt við því, verði frv. þetta samþ., að svo fari, að sveitarfélögin hiki við að leggja út í þær byggingar, er um ræðir. — Ég er m.ö.o. á móti 1. liðnum og þeim 8., en er samþykk öllum hinum liðunum.