03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

83. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál vil ég vekja athygli á því, að þ. 23. marz s.l. var samþ. þingsályktun á Alþingi um lækkun áhættuiðgjalda til Tryggingastofnunar ríkisins, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að breyta reglugerð frá 21. des. 1946, um áhættuiðgjöld o.fl., samkv. 113. gr. laga nr. 50 1946, um almannatryggingar, þannig að iðgjöld lækki að mun í þeim áhættuflokkum, þar sem reynslan hefur þegar leitt í ljós, að þau eru óeðlilega há, og komi lækkun þessi til framkvæmda við innheimtu þessara gjalda á árinu 1949.“

Ég leyfi mér nú að beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. meiri hl. n., hvort búið sé að breyta þessari reglugerð. Mér skilst, þar eð hún á að gilda frá ársbyrjun 1949, að þá hljóti þetta að verða gert fyrir áramót. Nú er kominn desembermánuður. Ætti þá að vera búið að semja þessa reglugerð. Ég fékk þær upplýsingar í haust, að á árinu 1947 hafi samanlögð upphæð áhættuiðgjalda fyrir árið 1947 numið 5–6 millj. króna skv. 113. gr. l. 1946. En tekjuafgangur hjá deild þeirri, sem með þetta fer, mun um 4 millj. kr. Af þessu sést, sé þetta rétt, að þá hefði orðið töluverður ágóði, jafnvel þótt iðgjöldin hefðu verið helmingi lægri. Ég vil því óska, að hv. frsm. meiri hl. n. gefi upplýsingar um þetta, ef hann getur.