03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

83. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég er sammála því, að æskilegt hefði verið að koma l. í framkvæmd um heilsugæzluna. En hlálegt þykir mér, að þessi hv. þm. (2. landsk.) skuli vera að tala um þetta. Það stóð í grg. frv., að eigi hefði náðst það samkomulag við hlutaðeigandi aðila, sem þörf væri á. Svo mikið bar á milli, að talið hefur verið því sem næst ókleift að tala við þá. En játa skal, að nú fari að verða hægt að ræða málin, þegar Sigurður Sigurðsson er orðinn aðili í málinu. Læknarnir eiga því sinn þátt í því, að erfiðlega hefur gengið um heilsugæzluna.

Það hefur mjög verið rætt um það, að l. væru flausturslega úr garði gerð. Vil ég geta þess að gefnu tilefni, að ég benti á það árið 1946, hve l. væru hirðuleysislega samin, og yrði að bíða með framkvæmd þeirra og endurskoða þau nánar. Þetta er hv. þm. kunnugt, sessunaut mínum. Allt var fellt, er til úrbóta horfði, og eru l. því stórgölluð, þó að fari í rétta átt. Þau hafa og verið átalin. Það er ólíklegt, hversu mjög var reynt s.l. ár að sníða ágalla l. af og vinna sigur á misréttinu. En hlutur tryggingaráðs er þó eftir enn. Ég játa, að þetta hefði verið æskilegt, en langt er í frá, að það sé hægt, og heilsugæzluna skortir starfskrafta. Í gær var því og lýst yfir, að starfslið vantaði við fæðingardeildina. Þó að ríkissjóður gæti komið upp byggingum, þá er ekki hægt að starfrækja þær sökum skorts á hjúkrunarkonum og e.t.v. líka læknum, sem heilsugæzlan krefst. Það eitt er því næg ástæða til frestunar. Margt er það, sem athuga þarf. Og ég játa, að þetta hefði vissulega verið til bóta, en ástæður verða bara að vera fyrir hendi að koma stofnununum upp.

Þá minntist hv. þm. á vísitölu í 310 stigum við útreikning iðgjalda, en skv. l. er gert að skyldu að greiða lífeyri með 315 stiga álagi. Veit hv. þm. þetta ekki? En raunar verður að heimta iðgjöldin inn með hærri vísitölu en 315, þó að hér sé aðeins farið fram á 310 stig. Það er því eigi hægt að greiða með fleiri vísitölustigum, og getur það svo til gengið í um það bil 1 ár.

Ég man nú ekki eftir, hvort taka þarf fleira fram varðandi ræðu hv. 2. landsk. Þetta mun vera aðalinntakið.

Skv. ræðu hv. þm. V-Húnv. um reglugerðina, þá er rétt, að verið er að undirbúa hana, en eigi er hún fullsmíðuð enn. Álögð iðgjöld árið 1947 voru 4,7 millj. króna, og búast má við, að eitthvað af þeirri fjárhæð komi ekki inn. En í dag er búið að greiða bætur, sem nema um 135 millj. króna. Tekjuafgangur verður því ca. 3.4 millj. króna — á pappírnum. En slíkar bætur eru lengi að berast, og skýrslur utan af landi geta verið lengi á leiðinni. Er t.d. ekkert afgr. fyrir árið 1948. Fjöldi manns veit heldur eigi fyrsta árið, hvernig á að haga sér til að biðja um bætur. Gera má því ráð fyrir, að stórar upphæðir eigi eftir að bætast við, og getum við áætlað eitthvað, t.d., að afgangurinn 1947 verði tæp milljón króna. Við verðum að gá að því, að eftir 1 ár er ekki unnt að gera áætlun til langs tíma. Lagt var fyrir Alþ. í fyrra frá hv. allshn. yfirlit um tekjur og gjöld um 20 ára skeið. Iðgjaldatölurnar eru þar mjög mismunandi, sum árin 70–80% af tekjum, en önnur árin lægri. En árið 1947 hafa iðgjaldavikurnar verið betur taldar fram. Áður var það svo, að atvinnurekendur gáfu upp viknafjöldann. Urðu ýmiss konar vanhöld á í því efni. En síðustu árin hefur verið farið eftir skattaframtölum, og það hefur reynzt betur. Í sambandi við það eru gjaldaákvæðin of há. Núna mun óhætt að segja, að ákveðið sé að lækka iðgjöld trygginganna. Eigi er hægt að segja til um, hversu miklu lækkunin komi til með að nema á hvern flokk, en heildarlækkunin verður um 25%. Um sjúkratrygginguna er það að segja, að hún hefur mjög staðið í járnum. Við vitum, að áraskipti eru að því, hversu tryggingunum vegnar. Og nauðsynlegt er að eiga gilda sjóði til að mæta erfiðleikunum, er að höndum ber, þótt á hinn bóginn sé vitað mál, að á meðan atvinna er næg í landinu og fólk fær ýmisleg störf á hendur í stað annarra, sem það missir eða getur eigi innt af hendi, þá mæðir ekki mjög á tryggingunum. En allt verður erfiðara, þegar að þrengir. Undanfarandi ár hefur verið hér mikið góðæri, næg vinna fyrir gott kaup. Hefur þá verið minna sótzt eftir smávægilegum bótum. En þetta getur breytzt, og verður því að gæta hófs um lækkun iðgjaldanna.