06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

83. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við byrjun þessarar umr. og gat því ekki hlustað á, hvað þá var fram flutt af hv. félmn., en hún er, eins og fram hefur komið, klofin um málið, þar sem meiri hl. vill samþ. frv., en minni hl., hv. 2. landsk. þm., vill fella það. Ég veit ekki gerla, hvað fram hefur komið í umr., en mér þykir rétt að gera grein fyrir aðdraganda málsins, þar sem það heyrir undir það ráðuneyti, sem ég veiti forstöðu.

Eins og kunnugt er, var samþ. á síðasta þingi að fresta til ársloka þessa árs heilsugæzlukafla tryggingal., og voru hv. þm. almennt um það sammála. Það, sem meðal annars olli því, að frestað var framkvæmd l. siðast, var það, að örðugt reyndist þá að ná samkomulagi milli Tryggingastofnunar ríkisins og félagsskapar lækna um taxta, sem læknar færu eftir við framkvæmd l. Ég geri því ráð fyrir því, að það, sem hefur valdið því, að hv. 1. þm. Rang. taldi þetta ástæðu til frestunar á framkvæmd l., eigi að verulegu leyti rætur sínar að rekja til þeirrar reynslu, sem fékkst í fyrra. Hitt er rétt hjá hv. 2. landsk., að varla hefur verið leitað hófanna um þetta í ár. Þótt ástæða sé til að ætla, að örðugt muni reynast að ná samkomulagi milli þessara aðila, þá mátti hugsa sér að fara þá leið, að heilbrmrh. gæfi út taxta í stríði við læknana. En um það vil ég engu spá, hvort samkomulag næst eða hvort ráðh. mundi gefa út taxta í átökum við læknana. En vel minnug þess og með hliðsjón af því, sem gerðist í fyrra, þá óskaði ríkisstj. að fresta framkvæmd þessa kafla l. um eitt ár enn. Eftir að ég hafði rætt um málið við forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og hann taldi örðugt að ná samkomulagi við lækna, þá var málið aftur rætt af mér, heilbrmrh. og fjmrh. við forstjóra Tryggingastofnunarinnar, Sigurð Sigurðsson tryggingayfirlækni og formann tryggingaráðs, Gunnar Möller. Niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú, að við töldum rétt að fresta framkvæmd l. um eitt ár enn, og skrifaði félmrn. Tryggingastofnuninni bréf og óskaði þess, að tryggingaráð undirbyggi frv. til l. um þessa frestun. Tryggingaráð samþykkti einróma, að þótt það kysi helzt, að l. kæmu til framkvæmda um þessi áramót, þá vildi það starfa að undirbúningi þessa lagafrv., og samdi síðan frv., sem hér var svo flutt af heilbr.- og félmn. Þetta er forsaga málsins, sem ég taldi rétt að skýra hér frá og hefði gert það þegar í upphafi umr., ef ég hefði átt þess kost að vera viðstaddur þá.

Um málið almennt vildi ég segja það, að æskilegast væri, að l. gætu sem fyrst komið til framkvæmda, en ég álít það rétt, sem fram hefur komið hjá hv. 1. þm. Rang., og raunar hv. 2. landsk. líka, að framkvæmd l. komi ekki að tilætluðum notum, fyrr en fleiri sjúkrahús og heilsugæzlustöðvar eru í landinu, heldur en nú er, því að eins og alkunnugt er, er á þessu mjög mikill hörgull, sérstaklega þó hér í höfuðborg landsins. Að þessu er stefnt og á að stefna að mínu viti, og vænti ég þess, að langur tími líði ekki, áður en hægt verði að byrja á framkvæmdum í þessum efnum. Þetta er sú framtíðarlausn, sem lá til grundvallar III. kafla alþýðutryggingalaganna, kannske að verulegu leyti, og höfuðeinkenni þess kafla er að hrinda í framkvæmd nýjum sjúkrahúsum og heilsugæzlustöðvum, svo að hægt verði að hafa heilsugæzluna í landinu miklu fullkomnari, en nú er. Á því er áreiðanlega mikil þörf. Hitt er aftur á móti spurning, þegar litið er á afstöðu einstaklinganna til gjalda þeirra fyrir tryggingarnar, eins og nú er, og það, sem einstaklingarnir fá í aðra hönd fyrir gjöldin, hvort affarasælla er, miðað við ástandið eins og það yrði framkvæmt samkvæmt III. kafla laganna eða ástandið, sem nú er í þessum efnum. Á það er að sjálfsögðu litið af hálfu ríkisstj., að með framkvæmd heilsugæzlukaflans hefði ríkið orðið að leggja af mörkum 31/2 millj. kr. í auknum fjárframlögum, sem á þeim tímum, sem nú eru, er talsvert örðugt viðfangsefni fyrir ríkissjóð. Hins vegar hefðu sparazt útgjöld af hálfu sveitarsjóðanna, sem hefðu numið rúmlega 2 millj. kr., við framkvæmd þessa kafla, en aukinn kostnaður á opinberu fé hefði alltaf orðið rúmlega 1 millj. kr. Þessi auknu útgjöld voru að sjálfsögðu mjög þung röksemd af hálfu ríkisstj. En þegar á það er litið, eins og ég drap á áðan, hvernig ástandið er með réttindi og skyldur einstaklinganna í landinu snertandi sjúkratryggingar og aðrar tryggingar yfirleitt, þá er vafasamur hagnaður einstaklingsins, þó að um yrði breytt. Eins og það er nú, miðað við Reykjavík, greiðir ógiftur maður í tryggingagjöld 350 krónur á ári og í sjúkrasamlagsgjald eftir taxta sjúkrasamlagsins í Reykjavík 15 krónur á mánuði, eða á ári 180 krónur, og nemur því upphæðin, sem hann greiðir, alls 530 krónum. En ef heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda, mun hver einstaklingur þurfa að borga til trygginga 445 krónur á ári. Sparaðist þá, hvað gjöld snertir, fyrir hvern einhleypan mann, miðað við Reykjavík, 85 krónur á mánuði. Þessi yrði sparnaðurinn í beinum útgjöldum eða fjárframlögum til trygginganna sjálfra. Svo er önnur hlið á þessu máli, sem breytist nokkuð, þegar heilsugæzlukaflinn kemur til framkvæmda. Áður en ég vík að því, skal ég geta þess, að þar sem sjúkrasamlagsgjöldin eru ekki meira en 8–9 krónur á mánuði, þá yrði sparnaðurinn fyrir hvern einstakan enginn, miðað við það, þó að heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda. Það, sem má líta á líka í sambandi við aðra hlið málsins, er þetta, að eftir reglum sjúkrasamlagsins í Reykjavík er venjuleg læknishjálp, og á ég þá við læknishjálp, sem ekki er sérfræðileg, greidd að fullu nú af sjúkrasamlaginu, en yrði ekki greidd nema að 3/4 hlutum, þegar heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda. Maður, sem verulega yrði að leita til venjulegra lækna, yrði ef til vill að greiða hærra, en áður hefur verið, þegar heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda. Þá má líta á það líka, að eftir reglum sjúkrasamlagsins í Reykjavík fær hver meðlimur greidda frá sjúkrasamlaginu 3/4 hluta af venjulegum meðulum, en eftir að heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda, ekki nema helming. Miðað við nokkuð verulega meðalanotkun, yrðu því útgjöld einstaklingsins út af þessum málum talsvert hærri, ef þessi heilsugæzlukafli kæmi til framkvæmda, en nú er, miðað við starfsemi sjúkrasamlagsins í Reykjavík. Ég vildi benda á það, þegar umræður eru um þetta mál, að það er ekki víst, að þeir, sem verulega þurfa að leita lækna hér í Reykjavík, hafi aukin útgjöld, þó að þessar tryggingar starfi í tvennu lagi, annars vegar Tryggingastofnun ríkisins og hins vegar sjúkrasamlagið. Það er mikið vafamál og fer eftir heilsufari manna og því, hvort þeir þurfa mikið að leita læknis og kaupa meðul, hvort nokkur peningalegur ávinningur er að því, að heilsugæzlukaflinn komi til framkvæmda. Hitt er höfuðatriðið frá mínu sjónarmiði og hinn mikli tilgangur III. kafla tryggingalaganna, að hrinda í framkvæmd öflugri heilsugæzlu í landinu með byggingu heilsugæzlustöðva og sjúkrahúsa, sem yrði til þess að bæta heilbrigðisástand þjóðarinnar. Þetta er að sjálfsögðu höfuðatriðið, og þetta er tilgangurinn með III. kafla þessarar löggjafar. Ég mun því sannarlega ekki, þegar til þess kemur og að svo miklu leyti, sem ég eigi um það að fjalla, draga úr því, að svo fljótt sem nokkur kostur yrði á yrði framkvæmdur III. kafli tryggingalaganna yfirleitt. En ég held, að það sé ekki ástæða til þess á þessu stigi málsins, eins og högum er háttað, að telja það, þó að þessu sé frestað á árinu 1949, að tekin séu lögleg réttindi af fólkinu í landinu. Þegar öllu er á botninn hvolft, er óvíst, hvað þau bráðabirgðaréttindi, sem fengjust með heilsugæzlulöggjöfinni, yrðu meiri í framkvæmdinni en réttindin eru, miðað við núverandi ástand. Það mun einnig hafa verið litið svo á, að þörf væri fyrir það, áður en til þessara framkvæmda kæmi, að fá meiri skilning læknastéttarinnar á Íslandi fyrir því, að þennan kafla þyrfti að framkvæma á þann veg, að honum yrði ekki ofþyngt með óeðlilega háum kröfum þessarar stéttar. Ég vildi mega vænta þess, að hv. 2. landsk., sem telur sig hafa mikla félagshyggju, vildi að því vinna, að kollegar hennar í læknastéttinni vildu reyna að líta á málið með sem mestri sanngirni, og að sá tími, sem kynni að líða þangað til komið yrði í framkvæmd heilsugæzlukaflanum, yrði notaður vel til þess að ná viðunandi samningum út af taxta þeirra í sambandi við hina nýju skipan málanna. Ég hef heyrt það, að hv. 2. Iandsk. hafi í upphafi, þegar málið kom fyrir í félmn., ekki verið sérstaklega andvíg því, að þessi frestur yrði með framkvæmd laganna á árinu 1949, en þá hafi önnur öfl, sterkari en hv. 2. landsk., beitt þar áhrifum sínum.

Ég sé aðeins ástæðu til þess að skýra þetta með þessum almennu orðum og afstöðu ríkisstj. og þeirra ráðuneyta, sem standa sérstaklega að þessum málum, skýra ástæðuna til þess, að stj. taldi rétt, eins og málið lægi fyrir, að fresta framkvæmd þessa kafla löggjafarinnar um eins árs skeið. Hitt vil ég svo benda á, að eins og tekið er fram í nál. minni hl. félmn. eru í 1. gr. frv. að finna aukin réttindi, sem áður voru ekki í tryggingalöggjöfinni. Ætti þetta þá að vera í augum þeirra manna, sem bæta vilja tryggingalöggjöfina og önnur ákvæði hennar en þau, er snerta heilsugæzlukaflann, nokkru ráðandi um afstöðu þeirra til þessara mála. Það er líka í frv., í niðurlagi 1. gr., ákvæði um, að reglulegri endurskoðun á allri löggjöfinni skuli vera lokið fyrir 1. okt. 1949, og tel ég það ekki óeðlilega ástæðu að fresta framkvæmd III. kafla laganna, þangað til fullnaðarendurskoðun hefur farið fram á allri löggjöfinni, endurskoðun, sem þá mundi einnig beinast að þessum kafla löggjafarinnar eins og öðrum köflum hennar, og mætti þá svo verða, að þessi kafli yrði eitthvað betur umbættur, áður en hann í fyrsta sinn kæmi til framkvæmda. Ég vil eindregið mæla með því, að frv, verði samþ. eins og það liggur fyrir, þar sem þetta mál þarf að vera afgr. fyrir 1. janúar. Ég vænti þess, að það þurfi ekki að vera mjög lengi í d., og það ætti að flýta fyrir því, að félmn. beggja d. hafa rætt málið, áður en það var lagt fram hér í d.