06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

83. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í upphafi þessarar umr. bar ég fram fyrirspurn um það, hvort búið væri að ákveða lækkun áhættuiðgjalda til Tryggingastofnunarinnar samkvæmt 113. gr. l., samkvæmt því, er fyrir var lagt í ályktun síðasta Alþ., 23. marz s.l. Frsm. meiri hl. félmn. svaraði þessari fyrirspurn á þá leið, að enn væri ekki búið að setja nýja reglugerð um þessi áhættuiðgjöld. Hins vegar gat hann þess, að það mætti gera ráð fyrir, að lækkunin næmi, að því er mér skildist, 25% að meðaltali. Nú var mér það ekki alveg ljóst af orðum hans, hvort búið væri að slá þessu föstu, að lækkunin næmi nákvæmlega þessu að meðaltali, en ekki meiru. Vildi ég því óska eftir því, ef þetta er ákveðið, að það komi fram nú þegar við 1. umr. málsins. Hins vegar, ef þetta er ekki alveg ákveðið enn þá, vildi ég eindregið óska eftir því, að upplýsingar um þetta liggi fyrir við 2. umr., og ef unnt væri, að hægt væri þá að fá vitneskju um, hvað liði sjómannatryggingunum sérstaklega og hvort gera mætti ráð fyrir, að lækkun áhættuiðgjaldanna næmi þessum 25%, eða hvort lækkunin yrði meiri eða minni. Ég get búizt við því, að það fari eftir því, hvaða svör verða gefin við þessu, hvort hér verða bornar fram brtt. við þetta frv. um að ákveða einhverja lækkun í lögum.