10.12.1948
Efri deild: 28. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

93. mál, tollskrá o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur, þegar þetta mál var afgr. á nefndarfundi. Ég hafði ekki verið í bænum. Ég mundi hafa verið þar í minni hl. Ég gerði ráð fyrir því, að málið kæmi ekki svona fljótt til umr. Þar sem ég hef ekki komið með nál., vil ég gera grein fyrir minni afstöðu til málsins, að ég er andvígur þessu frv. og legg til, að það verði fellt.

Ég var andvígur frv. því, sem lagt var fram 1947 og fól í sér þær tollahækkanir, sem eru í þessu frv. og nú er lagt til, að verði enn einu sinni framlengdar, sem eru þær stórkostlegustu, sem samþ. hafa verið á Alþ. í einu lagi fyrr og síðar. Ég benti þá á, að þessi mikla tollahækkun mundi verða til þess að hækka mjög allt verðlag í landinu og auka dýrtíðina, og það er búið að koma fram. Það er ekki nóg með það, að erlendar vörur hafi hækkað í verði, heldur hafa líka iðnaðarvörur hækkað mjög í verði vegna þeirra hækkanna, sem hafa orðið á erlendum vörum. Íslenskar iðnaðarvörur hafa hækkað í verði vegna hækkunar á hráefnum. Kaup hefur hækkað vegna þeirrar óbeinu kauphækkunar, sem l. höfðu í för með sér. Og af öllum þessum ástæðum hefur orðið mikil hækkun á landbúnaðarafurðum, sem annars hefði verið hægt að komast hjá og hefur orðið til þess, að verja hefur orðið tugum millj. kr. úr ríkissjóði til þess að greiða þessar landbúnaðarafurðir niður.

Nú er svo komið, að raunveruleg vísitala er talsvert á fimmta hundrað stig. Það hefur ekki verið látin fara fram nein rannsókn á því, hver hin raunverulega vísitala er, en það er víst, að hún er á fimmta hundrað stig. Hagfræðingarnir Ólafur Björnsson og Jónas Haralz hafa í áliti, sem þeir hafa samið fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, komizt að raun um, að raunveruleg vísitala sé að minnsta kosti 400 stig. En ýmsar staðreyndir, sem þeir hafa sett fram, benda til þess, að hún sé talsvert á fimmta hundraðinu.

Þegar þessar till. um tollahækkanir, sem í þessu frv. eru, voru fyrst bornar fram, var gert ráð fyrir því, að þær yrðu aðeins til bráðabirgða eða til eins árs. Ég leyfði mér þá að draga það í efa, vegna fyrri reynslu. En reyndin hefur alltaf orðið sú, að slíkar svokallaðar bráðabirgðaráðstafanir, þegar um tekjuöflun er að ræða, hafa orðið fastir tekjustofnar. Og nú virðist augljóst, að ætlunin er að gera þessar gífurlegu álögur að l. til frambúðar. Ef svo er, þá er alveg fráleitt að fara þessa leið. Með þessu máti verður hlutfallsleg tollahækkun jafnmikil á öllum vörum, bæði þörfum og óþörfum, svo að þessar gífurlegu hækkanir koma þannig niður á allar vörur og líka nauðsynjavörur, að undanteknum allra algengustu matvörum. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt, ef um frambúðarráðstafanir er að ræða, eins og virðist nú vera alveg augljóst, þegar lagt er til, að þetta verði samþ. í þriðja skipti.

Þetta raskar sem sagt allri tollskránni og þeim grundvelli, sem hún byggist á. En ef á að hækka tolla almennt svo stórkostlega til frambúðar, þá er vitaskuld ekkert vit í öðru, en endurskoða alla tollskrána. Þetta virðast allir vera sammála um, að eina vandamálið nú sé að lækka dýrtíðina og halda henni í skefjum. En þegar svo er, þá er undarlegt, að þessir sömu menn skuli ekki geta líka orðið sammála um að forðast ráðstafanir, sem stórauka dýrtíðina.

Af öllum þessum ástæðum legg ég til, að frv. verði fellt.