25.01.1949
Efri deild: 46. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

113. mál, ríkisborgararéttur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef beðið hv. allshn. d. að taka mál þetta að sér til flutnings. Mér er ljóst, að það ber að með óvenjulegum hætti, en fyrir því eru augljósar ástæður, sem þarf eigi að lýsa fyrir hv. þdm. mjög ýtarlega. Mun þeim vera þetta kunnugt flestum. Ástæða þess, að dr. K. M. H. Metzner sé veittur ríkisborgararéttur, er sú, að ég hef öðlazt þá sannfæringu, að geti maður þessi óhindraður flutt sig, starfsemi sína og þekkingu til landsins, þá muni það verða fiskiðnaðinum í landinu sérstaklega til mikils framdráttar. Og með fiskiðnaði er ekki aðeins átt við þann vísi að þess háttar iðnaði, er fyrir er í landinu, heldur hvers konar vinnslu úr hráefnunum, þá er vísindin hafa þegar fundið eða eiga eftir að finna. Dr. Karl Metzner er mjög vel þekktur vísindamaður, og meðmæli Háskóla Íslands liggja fyrir til þess, að hann fái þau borgararéttindi, að hann geti starfað hérlendis. En ástæðan fyrir því, að þörf er á að hraða þessu, er sú, að hann þarf að fara utan fljótlega varðandi eignauppgjör og önnur fjármálefni sín og telur sig eigi geta horfið aftur til landsins, nema þetta form verði haft á. Ég endurtek það, að afskipti mín af þessu máli byggjast á þeirri sannfæringu minni, að við höfum þörf fyrir hæfileika dr. K. Metzners og þekkingu, og í öðru lagi, að hér sé um valinkunnan mann að ræða, er reynast muni vel, og þjóðin komi til með að njóta góðs af hæfileikum hans.

Ég á eftir að bæta því við, að hér er um fleira fólk að ræða, konu doktorsins og einn son hans. Svo er aðstoðarmaður hans, Bernhard Wiencke að nafni, sem mér er tjáð, að dr. K. Metzner hafi sagt, að væri sér ómissandi. Hafi doktorinn lagt áherzlu á, að verði sér veittur ríkisborgararéttur, þá verði hann eigi við sig skilinn. Síðan er það kona aðstoðarmannsins og stjúpbörn hans.

Ég vildi svo vona skv. þessu, að hv. d. sæi sér fært að afgreiða málið nú, ef hún fellst á það, því að fullnægja þarf vissum formum, svo að pappírarnir komist í lag. Má hér engan tíma missa. Þetta er í sjálfu sér fyrsti dagurinn eftir þinghlé, sem hægt var að taka málið fyrir. Þótti eigi hlýða að gefa út brbl. um þetta efni, heldur var álitið rétt að bíða þess, að Alþ. kæmi saman að nýju.