10.12.1948
Efri deild: 28. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

93. mál, tollskrá o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá það skýrar fram en komið er í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, hvort það er rétt, sem mér skildist á hv. frsm. n., að n. hefði átt tal við hæstv. ráðh., sem teldi, að ekki væri hækkunar þörf á þeim liðum, sem liggja hér fyrir, frekar en hér er lagt til. Ef þetta er réttur skilningur, þá skil ég það svo, að ríkisstj. sé búin að finna leið til að koma fjárl. saman, án þess að það þurfi að hækka skatta og tolla. Hv. frsm. sagði, að það hefði verið athugað í samráði við hæstv. fjmrh., að ekki þyrfti að koma til greina frekari hækkun og þessir tollar skyldu vera óbreyttir. En ég benti á það hér í hv. d. við 1. umr. málsins, að ég teldi, að tollar þyrftu að hækka, og alveg sérstaklega taldi ég, að benzínskatturinn þyrfti að hækka, ef tekjur ríkissjóðs ættu að standa undir tekjum fjárl. Þegar hér koma nú til umr. frv. viðvíkjandi innheimtu tolla, sem hv. fjhn. segir, að ekki þurfi að hækka, þykist ég skilja, að hæstv. ríkisstj. sé búin að finna aðrar leiðir, og það gleður mig, þó að ég sé ekki viss um, að ég sé henni þar samþykkari heldur en þó að einhverju hefði verið breytt hér.