25.01.1949
Neðri deild: 50. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

113. mál, ríkisborgararéttur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og mörgum er kunnugt, bauð Háskóli íslands þýzkum vísindamanni, dr. Metzner, hingað til lands á s.l. hausti til þess að flytja hér fyrirlestra. Nafn dr. Metzners var talsvert þekkt hér áður vegna þekkingar hans á fiskiðnaði, og sömuleiðis hefur danskur fræðimaður á þessu sviði lokið miklu lofsorði á hæfni og þekkingu dr. Metzners. Háskólinn hefur nú sent ríkisstj. bréf, þar sem mælt er með dr. Metzner sem vísindamanni á þessu sviði og talið mjög til bóta, ef hann settist að hér. Út af þessu og viðtali við ýmsa áhrifamenn hef ég öðlazt þá sannfæringu, að það gæti orðið okkar fiskiðnaði, sem enn er á frumstigi, mikils virði að fá þennan mann til starfa hér, og ekki hvað sízt vegna þess, að vitað er, að við eigum einhver beztu hráefni, sem fyrirfinnast til þessa iðnaðar. Dr. Metzner hefur látið svo um mælt, að hann vilji flytja hingað til Íslands og vinna hér að íslenzkum hagsmunum, ef hann fengi íslenzkan ríkisborgararétt. En það, að þetta mál liggur þannig fyrir og nauðsynlegt er að veita honum svo skyndilega ríkisborgararétt, hefur verið skýrt fyrr hv. þm., að ég hygg, og mun ég ekki fara langt út í að ræða það. Hitt er vitað, að sá háttur hefur verið á hafður nú eftir ófriðinn í ýmsum löndum, að náð hefur verið í hæfileikamenn frá Þýzkalandi og þeim veittar alls konar undanþágur til þess að eignast ríkisborgararétt. Nú hefur dr. Metzner fjölskyldu, og óskar hann eftir því að koma með fjölskyldu sína með sér. Hann er nálægt fimmtugu. Hann hefur og lagt hina mestu áherzlu á það, að aðstoðarmaður hans, Wieneke að nafni, sem hefur einnig fjölskyldu, yrði ekki frá sér skilinn, þar sem hann hefur verið hans önnur hönd, og varð ekki að öðru komizt en að leggja til, að báðum þessum mönnum yrði veittur ríkisborgararéttur. Ég leitaði mjög eftir því við dr. Metzner, hvort það kæmi ekki í sama stað niður, þótt minni hraði yrði hafður á þessu máli, en hann hefur skýrt mér frá sínum ástæðum og segir, að þetta sé mjög nauðsynlegt fyrir sig til þess að geta átt afturkvæmt til Íslands, að fá nú ríkisborgararétt hér. Ég hef síðan rætt um þetta við samstarfsmenn mína í ríkisstj., og ég þykist vita, að þeir muni hafa rætt það utan þingsins, og álít ég ekki þörf að ræða öllu meira hér um þetta mál. En það eru allra síðustu forvöð vegna formsins, sem þarf að fullnægja, að fá þetta nú lögfest, því að þessi maður þarf af sérstökum ástæðum að fara út fyrir mánaðamótin, og þarf helzt að ganga frá þessu máli fyrir 28. þ. m. Þessi maður er, eftir því sem hann sjálfur segir, talsvert efnaður, og hefur hann farið fram á, að hann fengi að flytja eigur sínar hingað til landsins, en það er annað atriði. Ég hef skýrt viðskmrh. frá þessari ósk hans, og geri ég ráð fyrir, að tillit verði tekið til hennar, ef fallizt verður á að veita honum ríkisborgararétt. Þetta er meginatriði málsins. Loks liggur fyrir skrifleg og vottfest yfirlýsing frá dr. Metzner um það, að ef hann fengi ríkisborgararétt hér, skuldbindi hann sig til þess að hafa aðsetur hér á landi að minnsta kosti í 5 næstu ár, og sömuleiðis, að hann sé reiðubúinn, ef þess er óskað, að gerast ráðunautur íslenzku ríkisstj. í fiskiðnaðarmálum.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta. Ég mundi alls ekki hafa haft forgöngu um þetta mál, ef ég væri ekki þeirrar skoðunar, að íslenzku atvinnulífi á sviði fiskiðnaðar gæti orðið hið mesta happ í því að fá slíkan mann hingað til landsins, en vitaskuld get ég ekki gefið þá sannfæringu öðrum, öðruvísi en að skýra frá því, sem hér liggur fyrir.

Ég mun ekki á neinn hátt setja mig á móti því, að þetta mál fari til hv. allshn., ef þess verður óskað, en mundi þá aðeins biðja um fljóta afgreiðslu, þannig að málið gæti komið fyrir á fundi aftur í dag, því að það, sem er stefnt að, er að ljúka málinu nú.