10.12.1948
Efri deild: 28. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

93. mál, tollskrá o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Ég hygg, að það sé ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta frv. hafi ekki orðið til að stórauka útgjöld til dýrtíðarráðstafana. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að sú verðhækkun, sem orðið hefði vegna þeirra l., sem hér er lagt til, að verði framlengd, hafi ekki orkað svo mjög á verðlag landbúnaðarafurðanna. Það er samt vitað og kemur skýrt fram í þeim rökstuðningi, sem hér hefur verið færður fram, að svo hefur einmitt verið. (Fjmrh.: Landbúnaðurinn hefur vísað til markaðsverðhækkunar á framleiðsluvörum sínum, en ekki tollahækkunar.) Landbúnaðurinn hefur vísað til hækkunar á vörum, sem hann þarf að nota. Það hefur orðið hækkun á efnisvörum til iðnaðar, og iðnaðarvörur hafa hækkað, nauðsynjavörur hafa hækkað, vefnaðarvörur og búsáhöld hafa hækkað, enn fremur koma líka kauphækkanir til greina. Af þessu leiðir, að útgjöld búanna hafa stóraukizt. Það hefur ekki verið reiknað út, hvað þetta nemur miklu, og þegar ekki liggja fyrir neinar tölur, þá er lengi hægt að deila um, hvað þungt þetta atriði verður á metum í sambandi við verðhækkun landbúnaðarafurðanna. Svo mikið er víst, að það hlýtur að muna mjög miklu, þegar á það er lítið, hvaða afleiðingar svona frv. hafa haft. — Hæstv. ráðh. var gramur mér fyrir það, að ég hefði borið honum á brýn slæmar hvatir, vegna þess að ég hefði látið svo um mælt, að sennilega væri það eitt af því, sem hæstv. ráðh. teldi til kosta á þessu frv., að það kæmi þyngra niður á þeim tekjulágu en þeim, sem væru tekjuháir. Það er fjarri því, að ég hafi verið að bera honum á brýn slæmar hvatir. Ég geri ráð fyrir, að hann viðurkenni ekki, að þessi skoðun hans sé sprottin af slæmum hvötum. Ég sagði þetta að gefnu tilefni í ræðu hæstv. ráðh., en hann sagði í sinni ræðu, að tollstjórinn héldi því fram, að hæstu skattarnir innheimtust verr. (Fjmrh.: Tollstjórinn hefur á hendi að innheimta tekju- og eignarskatt.) Mér skildist, að af þessu mætti draga þá ályktun, að skattarnir væru of háir. Þess vegna er það eðlilegt, að samkvæmt þessari skoðun hæstv. ráðh. kæmi mér til hugar, að hann teldi það kost á frv., að það kæmi þyngra niður á þeim tekjulágu, og var alveg óþarft fyrir hæstv. ráðh. að fyrtast af því. (Fjmrh.: Veit hv. þm. ekki, að það er verið að tala um tollafrv.?) Hæstv. ráðh. hlýtur að skilja það, að almenningur þarf að borga þessa tolla af tekjum sínum, engu síður en beina skatta. Ég var einmitt að sýna fram á það, að þessir skattar, sem í frv. felast, koma þyngra niður á þeim tekjulágu en tekjuhærri, og mér skildist, að hæstv. ráðh. teldi þetta til kosta á frv. og hefði fært rök að því. (Fjmrh.: Ég held ég hafi ekki reynt að færa nein rök fyrir því. Hv. þm. virðist blanda saman óskyldum málum.) Ég blanda ekki saman tveimur óskyldum málum. Það er misskilningur, að skattar og tollar séu óskyld mál. Það er misskilningur að halda, að tollar séu í eðli sínu eitthvað allt annað en beinir skattar, og hvort sem hæstv. ráðh. skilur það eða skilur það ekki, eru þær tekjur, sem ríkissjóður fær með frv. eins og þessu, teknar af almenningi. Ráðh. þurfti því ekki að fyrtast af því, þó að ég áliti það hans skoðun, að það væri kostur á frv., að það kæmi þyngra niður á þeim; sem höfðu lægri tekjur, vegna þess að hann hafði haldið fram þeirri skoðun, að skattar og t.d. tekjuskatturinn væri orðinn of hár. Og ég gat ekki betur skilið en að hann væri einmitt að færa rök fyrir því.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri ekki rétt, að sér yxu í augum þau laun, sem kennarar hefðu. Það er gott, að hann er kominn á þá skoðun, að laun kennara séu ekki of há. Einmitt í síðustu ræðu sinni tók hann sérstaklega sem dæmi, þegar hann talaði um útgjaldaaukninguna, hin háu laun, sem kennarar hefðu, og fór um það mörgum orðum, að launin væru orðin svo há, að kennarar þyrftu ekki að fara í aðra vinnu á sumrin og gerðu það ekki, af því að þá þyrftu þeir að borga hærri skatta. Þess er því að vænta, að hann muni ekki leggja til, að dregið verði úr launum þeirra eða þeirra kjör verði rýrð. Samt var það svo, að það var eina dæmið, sem hann nefndi, útgjaldaaukningin til fræðslumála. (Fjmrh.: Af þeirri ástæðu, að hv. 4. landsk. þm. ber mesta ábyrgð á þeirri þenslu, sem þar hefur orðið.) Ég blygðast mín ekki fyrir þá ábyrgð, en ég er stoltur af henni. Það er, auk þess sem ég benti hæstv. ráðh. á í fyrri ræðu minni, að mesta útgjaldaaukningin stafar ekki af hinum nýju fræðslul., heldur af brýnni nauðsyn, þó að engin ný l. hefðu verið samþ. Þá vil ég benda honum á það til viðbótar, sem líka verður að athuga, að allmikið af þessari útgjaldaaukningu eru útgjöld, sem áður voru greidd af bæjar- og sveitarfélögunum, en nú hafa færzt yfir á ríkissjóð. Þetta þýðir ekki útgjaldaaukningu, heldur aðeins það, að gjöldin hafa áður verið greidd af öðru opinberu fé, en færast nú yfir á ríkissjóð. Hins vegar gat hæstv. ráðh. ekki um þá miklu þenslu, sem hefur orðið á dómgæzlu- og lögreglumálum, kostnaði við stjórn landsins o.s.frv., sem hefur vaxið mest á allra síðustu tímum, en einmitt þessa hluti þarf að taka til athugunar, og hér hefur þenslan orðið tiltölulega langmest síðan núverandi ríkisstj. tók við.

Við þeirri spurningu hæstv. ráðh., hvað ég hafi gert á þeim tíma, sem ég var ráðh., til þess að draga úr gjöldum ríkissjóðs, er þessu til að svara. Ég hafði út af fyrir sig ekki nein skilyrði til þess. Ég var ekki fjmrh., og það embætti, sem ég var í, gaf mér ekki tækifæri til þess að geta komið á stórfelldum sparnaði á útgjöldum ríkissjóðs. En ég get sagt hæstv. ráðh. það, að hvað eftir annað hreyfði ég því innan ríkisstj., og eins hef ég oft hreyft því hér á Alþ., að nauðsynlegt væri að endurskoða starfsmannakerfi ríkisins, að það yrði að setja sérfróða menn til að endurskoða þetta og til að athuga, hvað væri hægt að spara. Hitt er aftur á móti misskilningur, að það sé alltaf sparnaður að vera á móti útgjöldum. Það eru mörg útgjöld, sem hafa orðið til þess að stórauka tekjur ríkissjóðs, og nenni ég ekki að taka einstök dæmi um það. Þetta er einfalt mál, sem bæði hv. þm. og hæstv. ráðh. hljóta að skilja.