10.12.1948
Efri deild: 28. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

93. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég benti á það hér áðan, að það væri ákaflega óvenjulegt, að hv. 4. landsk, þm. sendi svona hnýfla yfir borð í ræðum sínum, og hefur honum sjálfum þótt það, því að hann hefur ekki viljað við það kannast, og er það að vísu gott, að hann lítur sjálfur þannig á, að það hæfi ekki. Ég þarf ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég hef svarað hér þeim mótbárum í stórum dráttum, sem hreyft var á móti frv. Eins og ég áður minntist á, þá nefndi ég sérstaklega hina gífurlegu útgjaldaaukningu, sem sprottið hefði af nýju fræðslul., með tilliti til þeirra verðleika, sem hv. 4. landsk. þm. telur sig þar eiga. Fyrst hann er svona ánægður með að hafa lagt þessar auknu byrðar á þjóðina, þá óska ég honum til hamingju með það, en er ekki viss um, að landsfólkið yfirleitt sé svona hrifið af þessu. — Þá þarf ekki að ræða sparnaðartilraunir hv. þm. Það liggur hér fyrir samkvæmt upplýsingum hans, að hann hafi ekkert gert í því efni annað en að tala um það á stjórnarfundum, hvað oft veit ég ekki, að endurskoða þyrfti starfsmannakerfið. Síðan ekki söguna meir. Ég er ánægður með þessa yfirlýsingu hans. Hún undirstrikar það, sem ég áður benti á.