10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum árum hafi komið till. frá framsóknarmönnum um, að Alþ. kæmi saman 1. sept. Þá var ekki talið erfitt fyrir bændur, sem sæti áttu á þingi, að koma til þings. Ég held því, að ef sami áhugi er enn hjá bændum að vinna að þjóðmálunum, þá sé ekki ástæða til, að Alþ. komi saman síðar, en 1. okt. Það er farið að hringla mjög óviðeigandi með samkomudag Alþingis, og úr því að ekki er hægt að láta Alþ. koma saman á sínum lögákveðna degi skv. stjskr., þá held ég, að heppilegast sé að halda sig við 1. okt., enda ætti með því að vera nægilegur tími til að afgr. fjárl. fyrir áramót, ef sæmilega er undir það búið af hálfu ríkisstj. Ég legg því til, að frv. verði samþ. eins og það upphaflega kom frá allshn.