10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé óverðskuldað last í garð fulltrúa íslenzkrar bændastéttar, sem hv. 1. þm. Árn. lét sér um munn fara hér áðan, þegar hann vildi segja, að sökum þess, að hagsmunir bændastéttarinnar sem slíkrar hefðu sérstaklega snert það, hvenær samkomudagur Alþ. hefði verið ákveðinn hér áður fyrr, þá hefðu fulltrúar bændastéttarinnar fundið ástæðu til að berjast fyrir því, að þingið kæmi saman 1. eða 15. sept. En nú, þegar það er ekki sérstaklega bændastéttin, heldur alþýða manna öll, sem kemur það við, að lag komist á afgreiðslu fjárl. og þjóðarbúskapinn í heild, þá vill hv. 1. þm. Árn. láta það sitja í fyrirrúmi, að tekið sé tillit til þess, að fulltrúum bændastéttarinnar er ekki þægilegt að koma til þings fyrr en 11. okt. Nefnilega svo framarlega að það sé ekki nema um alþjóðarhagsmuni að ræða, þá telur hann, að það sé ekki ástæða til að leggja á þessa hv. þm, þau óþægindi að koma til þings fyrr en 11. okt. Ég held, að þetta sé óverðskuldað last um íslenzka bændastétt og bændafulltrúa á þingi, því að ég held, að bændastéttin hafi viljað taka tillit til alþjóðarhagsmuna. Ég álít því, að þessi brtt., þó að hún virðist ekki veigamikil, um að færa samkomudaginn frá 1. okt. til 11. okt. eingöngu vegna þessara sérhagsmuna, sé ástæðulaus, þegar fulltrúar bændastéttarinnar hafa sýnt, að þegar þeir hafa álitið hagsmuni bændastéttarinnar í veði, þá hafa þeir viljað láta þingið koma saman 1. eða 15. sept. Ég held, að það væri meir í samræmi við stefnu bændastéttarinnar hér á landi í íslenzkri pólitík, að þingið kæmi saman heldur fyrr en seinna.