10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er sammála sumum þeim, sem talað hafa, um það, að óviðunandi sé í alla staði og óviðfelldið, að Alþ. afgreiði ekki fjárlög áður en fjárlagaárið hefst, sem þau eiga að gilda fyrir. Því miður hefur það komið fyrir, bæði nú og áður, að það hefur ekki tekizt. En ég vil benda á það, að hvort þetta tekst eða ekki, að afgreiða fjárlög fyrir byrjun ársins, sem þau eiga að gilda fyrir, það fer ekki eingöngu eftir því, hvort Alþ. er kallað saman mánuði fyrr eða seinna, heldur og ekki síður eftir því, hvort ríkisstj. hefur fjárlagafrv. tilbúið, er þingið hefst. Og í haust, þó að þingið kæmi ekki saman fyrr en 11. okt., þá hafði ríkisstj. hæstv. fjárlagafrv. ekki tilbúið er þingið kom saman. Það mun ekki hafa verið lagt fram fyrr en um mánaðamótin október og nóvember. Nú virðist mér ekki eðlilegt að láta Alþ. sitja lengi yfir litlum störfum og láta það þá bíða eftir því, að ríkisstj. leggi fyrir þingið stærsta málið, sem það þarf að afgreiða, eins og t.d. fjárlagafrv. Og ég tel, að ef fjárlagafrv. væri tilbúið og lagt fyrir þingið í þingbyrjun, ætti að vera auðvelt að afgreiða fjárlög fyrir lok ársins, þó að þingið væri ekki kvatt saman fyrr en í október, hvort sem væri 1. eða 11. dag mánaðarins. Þetta tel ég stórt atriði í málinu, að ríkisstj. hafi fjárlagafrv. tilbúið í þingbyrjun, svo að þm. séu ekki látnir vera hér lengi yfir litlum störfum framan af þingtímanum.