10.02.1949
Neðri deild: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er gersamlega úr lausu lofti gripið, að ég hafi sagt nokkuð um, hvort unnt yrði að afgreiða fjárlög, hvort sem samkomudagur Alþingis yrði 1. eða 11. okt. Ég sagði aðeins, að það væri allt eins hægt, þó að hann yrði ekki fyrr en 11. okt. Þar er mest komið undir því, hvernig fjárl. hafa verið undirbúin, og því viðhorfi, sem er til fjármála og viðskiptamála. Ég ímynda mér, að það séu allir sammála um, að stefna beri að því, að fjárlög séu afgreidd fyrir áramót. En mér finnst það of langt gengið að bjóða þm. upp á að hverfa svo algerlega frá samþykkt, sem gerð var fyrir 5 mínútum.