11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta mál allmikið í báðum d., og er því ekki ástæða til að bæta þar miklu við. En örfá orð vil ég segja um málið, sérstaklega ef það fer ekki til n.

Svo virðist sem svo að segja allir hv. þm., sem talað hafa, séu sammála um, að þetta ástand, sem síðustu árin hefur verið hér, að fjárlög hafa ekki verið afgr. fyrr en einn fjórði eða einn þriðji hefur verið liðinn af fjárhagsárinu, sé slæmt ástand. Og þá finnst mér því undarlegra, að bæði var í fyrra gerð og nú í hv. Nd. er búið að gera þá breyt. á frv. ríkisstj. að færa samkomudaginn aftur frá því, sem ríkisstj. ætlaðist til um hann bæði þessi ár. Því verður ekki neitað, að þetta ástand kemur sér mjög illa, eins og tekið hefur verið fram hér, sérstaklega gagnvart mörgum stofnunum ríkisins og verklegum framkvæmdum, þar sem vitað þarf að vera nokkrum mánuðum fyrir fram, hversu mikið fé er ætlað til þeirra. Einhver hv. þm. minntist á það áðan, að nokkuð löngu fyrir fram þyrfti að gera áætlanir um verklegar framkvæmdir, því að við vitum, að það tekur nokkra mánuði afgreiðslufresturinn á ýmsum hlutum, sem þarf til hafnargerða, brúarbygginga o.þ.l. Þess vegna fæ ég ekki séð, að þetta mál verði leyst með því að breyta fjárhagsári ríkisins og láta það byrja t.d. 1. júní og miða svo við það, að fjárlög séu ekki afgr. fyrr en rétt um það leyti, að fjárhagsárið á að fara að byrja, sem viðkomandi fjárlög eiga að gilda fyrir. Nú kemur það líka fram í sambandi við verklegar framkvæmdir, að ýmis mistök verða á þeim, og fjvn. og Alþ. hafa komizt í kynni við að þurfa að borga skakkaföll, sem kennd eru því, að ekki sé hægt að byrja á framkvæmdum fyrr en svo seint, eins og t.d. hefur átt sér stað um hafnargerðir. Hvernig á t.d. að framkvæma hafnargerðir, þegar ekki er búið að fá efni til þeirra, fyrr en komið er fram á mitt ár og þeim á svo að vera lokið, þegar haustveður byrja? Þegar tillit er tekið til þessa og annars hliðstæðs, finnst mér það nægilegt til þess að sanna, að lausn á þessu óviðunandi ástandi verður ekki fengin með því að færa til fjárhagsár ríkisins til 1. maí eða 1. júní. Ég sé ekki betur en að lausnin á þessu verði bezt með því að láta þingið koma saman fyrr á árinu en síðustu ár og fyrr en gert er ráð fyrir í frv. hæstv. ríkisstj. og eins og það er komið frá hv. Nd., þar sem því var breytt í Nd. þannig, að færa samkomudaginn til 11. okt. Allt fram að síðustu árum hefur tekizt að ljúka afgreiðslu fjárl. fyrir jól, a.m.k. í nokkur ár, þó að þingið hafi byrjað 1. okt. Hins vegar býst ég við, að færa megi rök fyrir því, að ýmsir erfiðleikar meiri séu á því nú en áður, og því þurfi eitthvað lengri tíma. Þess vegna fæ ég ekki betur séð, en að eðlilegast væri að færa samkomudag þingsins til 1. sept., um einn mánuð fram frá því, er hæstv. ríkisstj. hafði hugsað sér. Og mér þykir ákaflega einkennilegt, að það skuli koma fram hér á Alþ. sú skoðun frá fjölda mörgum hv. þm., að í raun og veru sé þetta ástand, sem ríkt hefur hér síðustu ár um afgreiðslu fjárl., gersamlega ófært, en samt sem áður staðfestir þingið í fyrra og hv. Nd. nú í gær þá viljayfirlýsingu sina, að í raun og veru sé þetta fært til hins lakara með því að seinka samkomudeginum enn þá meira fram yfir það, sem ríkisstj. hefur ætlað um hann. — Ég mun þess vegna leyfa mér að bera fram brtt. við frv. um þetta, að í staðinn fyrir, að samkomudagurinn sé tiltekinn 1. okt., eins og nú er í frv., þá verði hann 1. sept.