11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti d., hv. þm. Eyf., sagði í ræðu sinni áðan, að það væri að vísu illt, ef stj. hefði ekki fjárlfrv. tilbúið, er þing kæmi saman, en annað væri þó enn verra, og það er, ef þm. eiga að sitja aðgerðalausir um lengri tíma. Virtist mér það vera skoðun hans, að ef brtt. mín yrði samþ., fengi þingið ekkert að starfa um lengri tíma, eftir að það hefur komið saman. Þetta þyrfti þó ekki svo að vera. Það er skýrt ákveðið í þingskj. og hefur enda verið venja, að fjárlfrv: þurfi að leggja fram í þingbyrjun. Það er lagabókstafur fyrir því. Ég er ekki að draga það í efa, að hæstv. ríkisstj. telur sér skylt að taka við fyrirmælum Alþ. og láta haga svo störfum að undirbúningi fjárl., að þau geti verið til, þegar þing kemur saman eða í þeirri viku, sem þing kemur saman. En það fær enginn mig til þess að trúa því, að ekki sé hægt að koma undirbúningnum til leiðar með góðri samvinnu, þó að þing komi saman svolitlu fyrr. Nei, vinnubrögðin eru nú þannig, að það er ekki reynt að hefjast handa um undirbúning fyrr, en mánuði áður en þing kemur saman. En ef þingið ætti að koma saman mánuði fyrr, þá er ekki um annað að gera en hefja bara undirbúninginn mánuði fyrr.

Mér þykir það leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, því að ég hefði viljað víkja ögn að orðum hans. Hann afsakaði þann drátt, sem orðið hefði á afgreiðslu fjárlfrv., og sagði, að það stæði á upplýsingum frá einni ríkisstofnun og innan rn. stæði á skýrslu frá starfsmönnum þess. Er það nú svo komið, að starfsfólkið á að fara að stjórna rn.? Er það Alþ., sem á að gefa ríkisstj. fyrirskipanir, eða eru það ríkisstofnanir, sem eiga að stjórna? Svona virðist þetta vera, eftir því sem ráðh. upplýsir. Ef þessu er þannig varið, er sannarlega kominn tími til þess að breyta um, en ég vil ekki trúa því, að það sé svona. Það á ekki að vera á valdi póstsins eða símans eða áfengisverzlunarinnar, hvenær þingið á að hefjast og fjárlög að leggjast fram. Það er ekki boðlegt handa þm. að segja, að starfsfólkið hafi ekki hlýtt ráðh. og af þeirri ástæðu sé ekki hægt að afgr. fjárlög, þess vegna ekki hægt að fullnægja ákvæðum um afgreiðslu fjárl. og ekki heldur ákvæðinu um, að Alþ. komi saman 14. febr. Ég held, að hæstv. ráðh. verði að taka þetta alvarlegri tökum, því að mér finnst nú skörin vera farin að færa sig upp á bekkinn, ef hann heldur, að hann geti þorið þetta fram hér á Alþ. og ætlast til þess, að það hafi áhrif á þm.