11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Hermann Jónasson:

Ég átti hér í orðakasti við hæstv. fjmrh. og ætlun mín var að beina orðum mínum til hans, en þar sem hann er nú ekki viðstaddur núna, verð ég að stytta mál mitt, en vona þó að það berist honum til eyrna.

Ræða hæstv. ráðh. gefur tilefni til ýmissa aths. Hann talar um fjárfrekasta flokk þingsins og á þar við Framsfl. Ég er svo aldeilis hissa á hæstv. ráðh. Mig minnir, að það hafi verið aðrir flokkar en Framsfl., sem lögfestu kröfurnar á ríkið. Mig minnir, að þau l. hafi verið sett af öðrum en Framsfl., sbr. launalög, tryggingalög og skólal., fræðslul. o.fl. o.fl. Það er alveg rétt, að framsfl.-menn greiddu atkv. með sumum af þessum l., en þar fyrir var ekki vafi á, hver hafði forustuna, og er þetta því kostulega og einkennilega til orða tekið hjá hæstv. ráðh.

Hann segir, að ég hafi haldið ögrunarræðu og hótað afarkostum, ef ríkið greiddi ekki, en svo sé ég að tala um eyðslu í hinu orðinu. Það var ekkert annað, sem ég fór fram á, en að fá lögboðnar greiðslur, það voru bara lögboðin tillög til Búnaðarbankans. En það er nú orðið aumt ástandið í fjármálunum, þegar ríkissjóður greiðir ekki lögboðin tillög, en það er engin fjármálastefna hjá hæstv. ráðh. Ef stj. treystir sér ekki til þess að greiða lögboðin tillög, á hún að afnema þau. Ég er hissa á því, að fjmrh. skuli vera undrandi á því, að ég kom hér fram til þess að krefja lögboðinnar greiðslu. Hann segir, að ég hafi sagt, að fjmrh. beri ábyrgð á öllu. Ég sagði það nú ekki beint, en þetta er rétt, fjmrh. er ábyrgur aðili.

Þá segir hann, að ég hafi sagt, að stj. hefði enga stefnu í fjármálunum. Ég hefði gaman að fá að vita, hver sú stefna er. — Hann segir, að hann vilji láta hætta öllum niðurgreiðslum. Hvar sést það, að hann vilji hætta niðurgreiðslunum? Hefur ekki þvert á móti orðið, að niðurgreiðslur hafa aukizt og aukizt hafa álögur á menn? Ég held, að menn hafi þegar orðið varir við það. Það hefur þess vegna komið í ljós, þó að ég minntist ekki á það, sem ráðh. gerir mér upp orð um, að ríkisstj. hefur enga stefnu í fjármálum. Eða finnst hv. þm. það ekki undarlegt, að það sé stefna sín að hætta niðurgreiðslum úr ríkissjóði og lækka álögur, en snýr þessu svo alveg við? Ég spyr hvern þm.: Hvar í veröldinni er þetta fyrirbrigði til? Hvar, þið sögufróðu menn? Er það til í veraldarsögunni, að fjmrh. eins ríkis geri annað eins? Nei, það var ekki ég, sem álasaði ríkisstj. mest. Það voru orð hæstv. ráðh. sjálfs. (Fjmrh.: Ég sagði, að það hefði orðið ágreiningur um leiðir innan stj.) Ég hélt nú, að stefna og leiðir væru nú nokkuð svipað. (Fjmrh.: Satt er það.) Jæja, það er gott, að við erum sammála um það. En þetta minnir mig á annað, sem ég hef að vísu bent á og valdið hefur allri skæðadrífunni, sem á mér hefur dunið, og tek ég því með þökkum. Ég sagði, að þegar fjárlfrv. væri lagt fram, þyrftu að liggja fyrir skýrslur um tekjur og tekjuöflunarmöguleika. En nú kemur hv. þm. Barð. og segir, að það sé ekki fjvn. að kenna, að fjárl. eru ekki afgr. á öðrum mánuði ársins 1949, það ár, sem lögin eiga að gilda fyrir. Í byrjun þings á samkv. stjskr. að leggja fram áætlun um tekjur og gjöld ríkisins, og þetta þarf að afgreiða áður en liðið er á það fjárhagsár, sem lögin eiga að gilda fyrir. Þetta er stjórnarskráratriði. Og nú kemur þm. Barð. og lýsir því yfir, að það standi ekki á fjvn.afgr. fjárl. En hafa þm. tekið eftir því, að öðrum mánuði þess árs, sem fjárl. eiga að gilda fyrir, er ríkisstj. ekki búin að koma sér saman um afgreiðslu þeirra? Það er víst voðaleg goðgá af þm. Str. að vera að álasa stj., þegar á eftir koma fram þær upplýsingar, að ríkisstj. sé ekki enn búin að leggja fram áætlun um möguleika til öflunar tekna! Ég skal svo ljúka þessu, ég hef ekki leyfi nema til stuttra aths. En ég get ekki stillt mig um að segja þetta að lokum: Hæstv. fjmrh. segir, að það sé stefna sín að hætta niðurgreiðslum og fara sem skemmst í að auka álögur. En það er farin öfug leið. Hann segir, að það sé þingið, sem heldur áfram þessa sömu leið, það verði haldið áfram, þangað til siglt verði í strand, þjóðin verði að sigla sig í strand. (Fjmrh.: Það sagði ég ekki. Ég sagði, að það yrði að sýna sig, að þetta gæti ekki verið til frambúðar.) Já, það er þjóðin sem á að taka stefnuna, þegar það er búið að sýna sig! — Já, — ég hef ekki haft mikið vit á fjármálum. Það stendur líklega í þingtíðindum, en ég verð að segja það, að ég skil ekki þessa fjármálapólitík.