11.02.1949
Efri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég fer nú dálítið að efast um, að mönnum sé það eins mikið áhugamál að kippa því í lag, sem þeir þó flestir eða allir, sem talað hafa, hafa kallað ófremdarástand, að fjárlög séu afgr. fyrir áramót, eins og þeir hafa viljað vera láta, en ekki þegar einn fjórði eða einn þriðji hluti er liðinn af fjárhagsárinu, sem fjárl. eiga að gilda fyrir. Því að ef mönnum fyndist þetta verulegt ófremdarástand, þá held ég, að sjálfsögð afleiðing af því væri það, að menn vildu færa samkomudag Alþingis fram, svo að ætla mætti, að það væri nokkurn veginn tryggt eða alveg öruggt, að fjárlagaafgreiðslu yrði lokið fyrir jól eða fyrir byrjun þess tíma, sem fjárl. eiga að gilda fyrir. Ef ekki þætti nógu snemmt að hafa samkomudag þingsins 1. sept., til þess að fjárlagaafgreiðslu væri lokið fyrir áramót, því þá ekki að ákveða samkomudaginn fyrr, segjum 1. ágúst, til þess að kippa þessu í lag? Þá hefði Alþ. fimm mánuði fyrir sér til þess að vinna að undirbúningi og afgreiðslu fjárl., svo að afgreiðslu þeirra mætti verða lokið áður en fjárhagsárið, sem þau eiga að gilda fyrir, byrjar.

Ég vék að því áðan, í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh., að ég vildi ekki fallast á, að hægt væri af fjmrh. að bera fyrir sig, að það stæði á stofnunum um að skila gögnum, sem nauðsynleg væru, til þess að geta undirbúið og lagt fjárlagafrv. fyrir Alþ. á réttum tíma, svo að ekki þyrfti að brjóta ákvæði stjskr. Ég hef staðið í þeirri meiningu, að gangur málanna væri þessi og þess vegna væri frv. þetta lagt fyrir Alþ.,Alþ. hefði rétt til þess að ákveða samkomudag þingsins og ríkisstj. tæki svo við þeirri ákvörðun og gæfi fyrirskipanir til starfsmanna stjórnarráðsins í samræmi við ákvörðun þingsins og fyrirmæli til stofnana, sem á hefur staðið við afgreiðslu á störfum sínum að þessu leyti, með tilliti til þess, sem Alþ. hefði ákveðið. En ég hef ekki staðið í þeirri meiningu, að starfsmenn ríkisstofnana segi starfsmönnum stjórnarráðsins fyrir verkum og þeir síðan ráðh. og ráðh. síðan þinginu og síðast yrði svo að brjóta stjskr. og hafa engin fjárlög til að stjórna landinu eftir svo og svo mikinn hluta af árinu. Af því að ég hélt, að þetta ætti að ganga svona, eins og ég sagði áðan, þá hélt ég, að þingið ætti að taka ákvörðun um samkomudaginn nógu snemma til þess að afgr. fjárlög á réttum tíma. Ég hygg, að dráttur á undirbúningi fjárlagafrv. hafi að undanförnu stafað af því, að ekki hafi verið byrjað á undirbúningi fjárlagafrv. fyrr en einum eða tveimur mánuðum áður en þing á að koma saman. Ef byrja á þingið segjum einum mánuði fyrr á árinu, en gert hefur verið ráð fyrir, þá yrði að fyrirskipa þeim opinberu starfsmönnum, sem vinna að undirbúningi fjárlagafrv., að hefja þann undirbúning og gera þann undirbúning fyrr, og það held ég, að væri hægt, því að tíminn er nægur fyrir hendi. En það eru einhverjar duldar ástæður, sem eru fyrir því, að menn vilja ekki kippa þessu í lag. Það er ófremdarástand, að fjárlög eru ekki til, þegar fjárhagsárið byrjar, og að þingið, sem byrjar árið áður, standi langt fram yfir þann tíma, er þing yfirstandandi árs á samkv. stjskr. að hefjast og taka til starfa. Og það er ófremdarástand, að þingið fyrir 1948 skuli nú standa yfir, þegar komið er langt fram í annan mánuð ársins 1949 og komið er rétt að þeim degi, þegar þingið 1949 átti að hefjast samkv. stjskr., það þing, sem afgreiða ber fjárlög fyrir árið 1950. Þetta er ekki viðunandi ástand, en svona er þetta búið að ganga síðan árið 1942, að einu ári undan teknu, eftir því sem upplýst er, þar sem þá hafi á því eina ári tekizt það vel með störf fjvn., að þá var hægt að pressa afgreiðslu fjárlaga af fyrir jólin.

Hv. þm. N-Þ. sagði, að hann greiddi atkv. á móti till. um að færa samkomudag þingsins til 1. sept. af því, að þó að sú brtt. væri samþ., þá væri alls ekki trygging fyrir því, að fjárl. yrðu afgr. fyrir áramót. En því þá að tylla á svo tæpt vað? Væru ekki líkur til þess, að unnt væri að kippa þessu ófremdarástandi í lag um fjárlagaafgreiðsluna, ef þingið hefði fjóra mánuði til starfa? En ef menn teldu hæpið, að þingið gæti lokið við fjárlagaafgreiðsluna á fjórum mánuðum, því þá ekki að ætla Alþ. t.d. fimm mánuði til þess að koma fjárlagaafgreiðslunni í lag og úr því ástandi, sem verið hefur og er til vansæmdar?