07.02.1949
Neðri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

116. mál, umboð þjóðjarða

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og fram er tekið í grg. þessa frv., hefur um skeið verið hafður nokkur annar háttur á um umboð þjóðjarða í Múlasýslu, en annars staðar á landinu, sökum þess, hvað það er stórt og víðáttumikið umboð, og var því skipaður sérstakur umboðsmaður fyrir Múlasýsluumboð, en annars staðar á landinu er þessu þannig skipað, að hreppstjórinn á hverjum stað fer með þetta lögum samkvæmt. Sá maður, sem um langt skeið fór með þetta umboð fyrir ríkið, hefur nú gefið það frá sér sakir vanheilsu, og var þá tekið til athugunar, hvort ástæða væri til að skipa nýjan mann yfir þetta umboð eða láta meðferð þessa máls fara í sama farveg og tíðkast í öðrum umboðum landsins, og varð úr að óska eftir því, að lög um þetta efni, nr. 54 31. maí 1927, yrðu úr gildi felld og sami háttur á þessu hafður þarna og annars staðar á landinu.

Ég óska svo, að málinu verði vísað til 2. umr.