14.12.1948
Neðri deild: 34. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

99. mál, skattgreiðsla Eimskipafélag Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá frsm. meiri hl. fjhn., að þetta mál er gamall gestur hér á Alþ. Það er svo margt, sem hefur verið rætt í sambandi við þetta skattfrelsi Eimskipafélagsins, sem búið er að vera lengi. Ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á því, að fyrir utan ýmsar aðrar mótbárur, sem oft hafa verið settar fram hér gagnvart þessu skattfrelsi Eimskips, þá er svo komið, að það eru fleiri eimskipafélög, sem rekin eru hér á landi en Eimskipafélag Íslands. Það er vitað, að samvinnufélögin hafa hér eimskipafélag og 2–3 einstaklingsfélög eru starfandi hér í Reykjavík og hafa fengið sér ný skip. Það er þess vegna mjög athugavert fyrir Alþ., hvort eigi ekki að gera þessum félögum jafnhátt undir höfði. Við verðum að gera okkur ljóst, út á hvaða braut er verið að fara í þessum efnum. Við erum að gera þegnunum misjafnlega hátt undir höfði með því að skapa réttindi handa einstökum mönnum, en leggja aftur byrðar á aðra. Þegar á að heita, að hér geti verið frjálst atvinnulíf í landinu, og menn eiga að geta fengið að keppa um það, hvernig þeir geti rekið skipaútgerð á sem hagkvæmastan hátt, þá er ekki rétt, að einn aðili fái önnur eins sérréttindi og þessi, sem hér er um að ræða, en hinir ekki. Það virðist sízt ástæða til þess að veita slík sérréttindi einmitt gagnvart þeim aðilanum, sem sterkastur er allra þeirra aðila, sem slíka útgerð reka. Það er vitað, að Eimskipafélag Íslands er eitthvert ríkasta hlutafélag hér á landi. Það virðist því frá því sjónarmiði ekki vera sérstök ástæða til þess að veita því sérréttindi, borið saman við þá keppinauta þess, sem hafa minna fjármagn og ekki hafa notið neinna sérréttinda fram að þessu. Með slíkum forréttindum er verið að skapa einokunaraðstöðu til handa einu sérstöku félagi Ég vil vekja athygli á því, að þótt Alþ. hafi gert margt og mikið, til þess að hægt væri að koma upp myndarlegum skipastól, og hafi lengi vel þannig stutt Eimskip, þá má það ekki ganga út á þá braut að beita aðra þegna þjóðfélagsins órétti með því hins vegar. Lengi vel þurfti ríkið að vísu mikið til Eimskip að sækja vegna strandferðanna og þarf þess að vissu leyti enn þá. En ríkið hefur nú komið sér upp allstórum skipastól til þess að hafa sjálft hinar útgjaldafrekustu ferðir.

Það hefur verið fært fram sem rök fyrir skattfrelsi Eimskips, að það væri í raun og veru þjóðareign, og upphaflega var það svo.

Þegar Eimskipafélagið var myndað, var það eitt af allra beztu og stærstu átökum, sem þjóðin hefur gert til þess að skapa sjálfstætt atvinnulíf í landinu. Á því átaki og á þeirri sameiningu þjóðarinnar, sem kom fram gagnvart Eimskip þá, hefur það lifað hvað vinsældir snertir, og á þeim hefur það byggt þá. siðferðislegu sérréttindaaðstöðu, sem það hefur notið. Hins vegar er svo komið, að Eimskipafélagið kemur ekki fram sem slíkt þjóðarfélag. Eimskipafélagið hefur sýnt sig, þegar það hefur átt í viðskiptum við landsmenn, t.d. verkalýðssamtökin, að vera hið harðvítugasta í viðskiptum við meiri hl. þjóðarinnar og alls ekki hikað við að láta einkahagsmuni nokkurra auðmanna hér í Rvík sitja fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Enn fremur hefur það sýnt sig, að það raunverulega vald í Eimskipafélaginu er ekki lengur hjá þjóðinni, eins og að mörgu leyti var upphaflega, þegar hlutabréfi. voru upp á 25 kr. og þar fyrir ofan. Það er vitað, að það raunverulega vald í h/f Eimskip er í höndum nokkurra auðmanna í Reykjavík, sem ráða algerlega í þessu félagi, þannig að þeir halda fund til þess að ákveða, hvernig því skuli stjórnað, þannig að hlutahafafundirnir eru ekki nema til málamynda.

Ég hef lengi álitið, að ef ríkið vill halda áfram á þeirri braut að gefa eftir skattana, þá ætti ríkið heldur að semja við Eimskip þannig, að það yrðu gefin út hlutabréf fyrir sköttunum og þeir borgaðir með hlutafjárframlagi og að ríkið eignaðist smátt og smátt stóra hluti í Eimskipafélagi Íslands. Það er eina ráðið til þess að gera Eimskipafélag Íslands h/f að því, sem það einu sinni var í meginatriðum, að raunverulegri eign þjóðarinnar.

Þegar Eimskipafélagið var myndað hér, þá var þjóðin það fátæk og enn litið til af auðmönnum hér á Íslandi, að Eimskipafélagið gat verið, þótt það væri hlutafélag og hlutabréfin í einstakra manna höndum, á vissan hátt sem eins konar samtök þjóðarinnar. Nú, eftir að myndað er á Íslandi hlutafélag sterkasta auðvalds í Evrópu, kannske að undanskildu Englandi, þá er ekki ástæða til þess að láta þeirra félag, Eimskipafélagið, njóta slíkra sérréttinda sem hér er farið fram á. Ég álít þess vegna, að það sé ekki hægt að ganga inn á þetta skattfrelsi án a.m.k. frekari samninga við Eimskip. Það getur ekki gengið, að ríkið haldi áfram að gefa einu félagi af mörgum, sem starfa að slíkri skipaútgerð sem það rekur, forréttindi, en tryggja sér ekkert vald á móti. ríkið getur búizt við því hvenær sem er, að Eimskipafélagið segi sem svo: Ef ekki verður leyfð hækkun á farmgjöldum eða flutningsgjöldum, stöðvum við reksturinn. — Þjóðin hefur heldur enga tryggingu fyrir því, að Eimskipafélagið eða stjórn þess segi ekki einn góðan veðurdag: Svo framarlega sem launin verða ekki lækkuð um þetta eða þetta, stöðvum við reksturinn. — Þjóðin á því undir högg að sækja, þar sem Eimskipafélagið er, eins og stjórn þess er nú. Ég held þess vegna, að þetta frv. ætti að athugast betur í fjhn. Það er meiri hl. hennar, sem flytur það, en ég álít, að heppilegra væri, að það væri athugað betur af n. sem heild og séð, hvort hægt væri að ná nokkru samkomulagi um þetta frv. Að halda áfram að veita Eimskipafélaginu forréttindi sem einkafélagi, það álít ég mjög varhugavert og vil alveg sérstaklega skírskota til þeirra manna, sem segjast vera fylgjendur frjáls atvinnulífs og frjálsrar samkeppni, hvernig þeir hugsi sér að framkvæma þá frjálsu samkeppni í skipaútgerðinni hér á Íslandi, ef þeir menn, sem leggja hlutafé í önnur fyrirtæki en Eimskipafélag Íslands, eiga að borga skatta og útsvar, en þeir, sem ráða Eimskipafélagi Íslands, þurfa ekki að borga það. Ég held, að það sé nú eftir þau 20 ár, sem félagið hefur notið þessara réttinda, hægt að líta svo á, að þjóðin og ríkið séu búin að gera mjög vel við þetta félag, — búin að gera því mögulegt að græða svo mikið, að það er nú vafalaust orðið ríkasta hlutafélag landsins og búið að koma sér upp myndarlegum skipastól, þannig að það ætti nú að geta keppt við önnur eimskipafélög landsins.

Ég hef ekkert á móti því, að þetta gangi áfram til 2. umr., en legg til, að fjhn. fái það aftur til umr.