09.11.1948
Efri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég skal játa það, að ég hef lítið lagavit, en ég verð að segja, að mér virðist orðalag 1. gr. nægilega skýrt, en í niðurlagi hennar stendur: „og skulu þá vinningar þess undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti“. Í mínum huga nær sú undanþága, sem hér er um að ræða, til þeirra gjalda, sem lögð eru á af hálfu hins opinbera og miðuð við tekjur, hvort sem um ríki eða bæjar- eða sveitarfélög er að ræða. Eignarskatturinn er hins vegar undantekinn. Hann á að greiða. Mér virðist gr. skýra sig sjálf.