04.02.1949
Efri deild: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

99. mál, skattgreiðsla Eimskipafélag Íslands

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hæstv. forseti tók það fram, að ég væri frsm. þess hluta fjhn., sem skilað hefði áliti. Ég veit nú ekki betur, en öll n. hafi skilað áliti, og er tekið fram í nál., hver afstaða einstakra nm. sé til frv. Af undirtektum hv. meðnm. minna mætti skilja, að vel gæti brugðið til beggja vona með afgreiðslu málsins hér í hv. d., en ég vona, enda þótt ég sé sá eini af nm., sem beint leggur til, að frv. verði samþ., að frv. nái þó samþykki hv. d. Þetta er ekki nýtt mál. Þau fríðindi, sem gert er ráð fyrir að Eimskipafélag Íslands verði aðnjótandi, hefur félagið haft frá stofnun, og hafa fríðindin venjulega verið veitt til tveggja ára í senn. Þessi fríðindi hafa verið veitt með því skilyrði um rekstur félagsins, að hluthafar fengju ekki greiddan nema 4% arð. Þetta hefur verið framkvæmt svo frá byrjun, og hluthafarnir hafa aldrei fengið nein fríðindi úr félaginu fram yfir þessa litlu úthlutun. Félagið hefur verið rekið sem almenningseign og litið á það sem slíkt, enda hefur félagið í samræmi við þetta varið öllum arði til almenningsheilla, þ.e.a.s. til þess að auka og bæta samgöngur innan lands og utan. Ég vil sérstaklega benda hv. d. á þetta. Meðan félagið vinnur undir þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir skattfríðindunum, þá er það í raun og veru almenningseign. Ef fríðindin væru hins vegar tekin af því, þá yrði það venjulegt hlutafélag, og í stað þess, að nú standa bréf félagsins í tiltölulega lágu verði, þá mundu þau þegar stórhækka í verði, því að þá hafa hluthafar óbundnar hendur um ráðstöfun á eignum félagsins, svo að ef hv. d. vill, að félagið verði rekið sem almenningseign, þá er ekki annað, en veita því fríðindin, ef það vill taka við þeim. Því er ekki að neita, að með þeim l., sem undanfarið hafa gilt, þá hefur félagið getað safnað miklum sjóðum, en þennan eignarauka hefur félagið líka notað til þess að stuðla að auknum samgöngubótum. Félagið hefur eignazt ný skip, en ef fríðindin eru tekin af því, þá hafa hluthafarnir óskoraðan rétt yfir þeim. Ég efast ekki um, að hv. þdm. sjá þetta, og skýtur hér nokkuð skökku, við það, sem þeir menn hafa haldið fram, sem alltaf hafa viljað skóinn ofan af Eimskipafélaginu, því að þeir hafa talið, að félagið væri einkafélag hluthafanna, en það hefur það alls ekki verið eins og ég hef bent á, vegna þeirra l., sem gilt hafa. Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál að sinni, en vildi fara fram á það við hv. þdm., að þeir létu málið ganga til 3. umr., þótt þeir fylgdu því ef til vill ekki út úr d., því að hæstv. fjmrh. er veikur, og ég tel ekki sanngjarnt, að frv. séu felld, ef veikindi hamla mönnum frá að mæta í d.