04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti mæla með því, að þetta frv. verði samþ. Það þarf kannske að athuga betur ýmsa tekniska hluti í sambandi við þetta, því að það getur að sumu leyti verið dálítið vandasamt að framkvæma efni frv. En ég vil samt mæla með samþykkt frv., vegna þess að mér sýnist ástæða til þess, eins og kemur fram hjá hv. flm. málsins, að gera allt, sem mögulegt og framkvæmanlegt er, til þess að ýta undir það, að menn leggi sig fram þannig, að þeir leggi sína eigin vinnu fram til þess að koma upp íbúðum yfir sig. Þetta hefur svo mikla þjóðfélagslega þýðingu, að það er tvímælalaust full ástæða til að hlynna að þeim, sem svona fara að.

Það er að vísu rétt, eins og tekið var fram áðan, að ef menn lita aðeins formlega á þetta, mætti kannske segja, að líka væri ástæða til að undanþiggja frá skatti eftirvinnutekjur, sem menn fá fyrir vinnu hjá öðrum. En þar er sá mikli munur á, að ef menn vinna þetta við eigin byggingar, þá eru menn að festa þessi verðmæti til þess að búa í haginn fyrir sig, og þess vegna er þetta allt annars eðlis en lausayfirvinnutekjur, sem þá ganga ýmist til þess að koma upp íbúðum eða til venjulegra nota. Það gildir náttúrlega sérstakt um aukatekjur, sem menn ávinna sér og beinlínis nota í byggingar eigin íbúða, og mætti segja, að þarna kæmi fram nokkur mismunur. Og mætti sjálfsagt athuga, hvort hægt er að draga úr slíku misrétti. En þó að slíkir ágallar komi fram, er hér um svo þýðingarmikið atriði að ræða, sem þetta frv. fjallar um, að ýta undir það, að menn vinni sjálfir að því að koma upp íbúðum til eigin nota, að ég mun ekki láta það standa í vegi fyrir því að vera með þessari breyt., þó að einhverja ágalla kynni að mega benda á í því sambandi, sem ég nú gat um.