25.02.1949
Efri deild: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mál þetta, sem hér liggur fyrir, hefur gengið í gegnum hv. Nd. og er, að því er virðist, komið á síðasta stig með að verða lögfest. Ég ætla ekki að fara að gera það hér að sérstöku umtalsefni. Er í sjálfu sér eðlilegt, að fram komi tilraun til að lagfæra ranglæti það, er ýmsir álíta svo, með till. í frv-formi til að rétta hlut þeirra, sem telja sig verða illa úti af völdum skattaálagningarinnar á þessu sviði. En svo er eigi, að öll löggjöf sé gallalaus, og frá sjónarmiði skattheimtunnar kunna að vera á ýmsir annmarkar, þótt eigi sé málið samþ. á annan veg en segir á þskj. 192. Nú er komin fram skrifleg brtt., og þar eð hún opnar nýtt viðhorf að vissu leyti og með henni er fært út áhrifasvið það, sem frv. stefnir til, þá er sanngjarnt, að skattyfirvöld landsins fengju tækifæri til að athuga málið í heild sinni og láta uppi álit um þau efni, er í henni greinir, því að það má vera okkur öllum ljóst, að þörf ríkissjóðs fyrir skattana verður eigi minni á þessu ári en fyrr. Ég vildi hafa forgöngu um að láta athugun fara fram og vildi því beina þeim tilmælum til hæstv. forseta og annarra hv. dm., ef til kemur, að þessu máli verði eigi hraðað svo, að ekki verði tími til að athuga brtt. þá, sem hér liggur fyrir. Mælist ég til, að málið verði tekið af dagskrá í dag. En ég vil eigi stuðla að óhæfilegri töf á málinu, en óska tækifæris til að láta greind yfirvöld segja álit sitt um það. — eins og ég hef áður sagt.