03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég stóð aðallega upp til þess að mótmæla þeim ósannindum, sem hv. 1. landsk. þm. fór með hér í hv. d. um daginn, þegar hann talaði um það, að lagðir væru þeir skattar á þessa menn, sem koma sér upp íbúðum í sínum eftirvinnutíma, að þeir yrðu að ganga frá húsunum o.s.frv. Þessi vinna, sem menn hafa lagt fram á þennan hátt, hefur alltaf verið virt svo lágt til tekjuskatts, að það hefur mátt deila um það, hvort ekki hafi verið þar um sviksemi að ræða við það opinbera að virða hana svo lágt eins og gert hefur verið. En aldrei hefur mönnum verið íþyngt með slíku mati, svo að um hafi þurft að kvarta. Ég fullyrði það um hvern einasta mann hér í Reykjavík, sem lagt hefur á þennan hátt vinnu í að koma upp eigin íbúð, að honum hefur ekki verið reiknuð sú vinna nema lítið brot á móts við hverja aðra vinnu, sem hann hefði unnið í eftirvinnu.

Ef frv. á þskj. 192 verður samþ., og þá 2. gr. þess, þá verður að reikna upp 400 menn viðkomandi skatti í fyrra. Ég hélt nú, að það væri nóg að reikna upp vegna áhættuþóknunar hjá sjómönnum, þótt ekki væri bætt þessu við. T.d. hafa verið byggð hér í Kleppsholti milli 30 og 40 sænsk hús á árinu 1947. Þessum mönnum hafa verið áætlaðar tekjur frá 7 til 9 þús. kr. við að koma þeim upp. Á að fara að reikna þá alla um og sleppa skatti af þessum tekjum? Ég held, að ekkert vit sé í því. Þessar tekjur af vinnu þeirra hafa verið reiknaðar þeim svo vægilega, að það væri beinlínis heimska að ákveða nú á Alþ. að sleppa þessum liðum alveg og reikna þessa menn alla upp í skattinum. Á næstsíðasta ári voru byggð 500 íbúðarhús úti um land. Bændum hafa verið reiknaðar meiri og minni tekjur af því. Á að fara að reikna þá alla saman um og sleppa þessum tekjum frá skatti? Ég skil satt að segja ekki, að nokkrum manni, sem áttar sig á, hvað hér er verið að leggja fyrir að gera, ef þetta verður samþ., detti í hug að láta framkvæma lögin svona. Og mér þykir næsta undarlegt, ef nú, þegar annríkið er að byrja hjá skattan. um land allt, á að fara að samþ. lög, sem leggja þessa aukavinnu á skattanefndirnar.

Þá vil ég taka það fram í sambandi við það, sem ég veit, að hæst hafa verið reiknaðar tekjur manns við að byggja eigið hús — og sem þá hefði ekki komið undir þessi lög endanlega, þó að til hefðu verið þá, því að hann seldi húsið —, að þessi maður vann við húsið sjálfur og vann ekki annars staðar á meðan, og honum voru upphaflega áætlaðar 30 þús. kr. í tekjur af þessari vinnu, og það hafði verið áætlað lágt. En svo, þegar hann seldi húsið og það kom í ljós, að hann hafði selt það fyrir nokkuð á annað hundrað þús. kr. fram yfir það, sem hann taldi kostnaðinn við húsið, þá var hækkað matið á tekjunum, sem hann hafði með eigin vinnu við húsið, þar sem það sýndi sig, að vinna hans hafði í raun og veru verið greidd með nokkru á annað hundrað þús. kr., en sjálfsagt hefði maðurinn ekki fengið svo mikið fyrir sina vinnu, ef um kaupgreiðslu hefði verið að ræða, því að þarna kom til greina hærra söluverð heldur en kostnaðarverð.

Um þær brtt., sem hér eru fram komnar, vil ég segja það að það liggur í hlutarins eðli, að ef farið er með löggjöf að undanskilja einstaka hluta af tekjum manna skatti, eins og ef vinna við byggingu húsa fyrir sjálfan sig verður undanþegin tekjuskatti hjá einstaklingum, þá er ákaflega hætt við, að margt fleira vilji dragast þar inn í: Tveir menn, sem ég þekki, smíðuðu t.d. trillur í fyrra, 21/2 og 4 tonna. Þeir unnu að þessu mikið í fyrravetur, án þess að fara á vertíð suður með sjó og koma með tekjur þaðan, eins og þeir höfðu áður gert. Þeim voru báðum áætlaðar tekjur af þessari eigin vinnu, sem námu því, sem trillurnar voru metnar til verðs, að frá dregnu efni. Ég geri ráð fyrir, að það megi alveg eins sleppa þessum tekjum, eins og við vinnu í húsunum. Yfirleitt eru það ákaflega mörg tilfelli, sem eru hliðstæð því, sem um er að ræða í 1. gr. þessa frv., sem fyrir liggur, þannig að það er erfitt að gera þar greinarmun á, og virðist því eina rétta leiðin í þessum efnum vera sú að taka mildum höndum yfirleitt gagnvart skattálagningu á tekjur manna af vinnu, sem er þessa eðlis eins og hér er um að ræða, eins og reyndar gert hefur verið. Og ef hér væri í deildinni hv. flm. brtt. á þskj. 402, 7. landsk. þm., þá mundi hann geta sagt ykkur, hvernig milliþn., sem nú starfar í skattamálum, kemst fram hjá þessu atriði á þann hátt, sem er mjög heppilegur að mínum dómi, miklu heppilegri heldur en hér er gert ráð fyrir í frv., að sleppa alveg þessum tekjum af eigin vinnu við byggingu eigin íbúðarhúsa. — Og enn fremur held ég, að þeim, sem eru með því að sleppa þessum tekjum alveg fyrir framtíðina, þeim geti ekki dottið í hug að láta umreikna skv. 2. gr., eins og frv. er, alla menn í skatti, sem hér koma til greina og búið er að leggja á skatt árið 1948 um allt land. Mér þykir það svo mikil fjarstæða að leggja þetta á skattanefndirnar nú um allt land, að það nái ekki nokkurri átt að gera það. Og ég er alveg hissa á, að enginn skuli hafa bent á þetta atriði málsins í hv. Nd. og ekki hæstv. fjmrh., þrátt fyrir það að hann sé búinn að athuga frv. Hann hefur líklega ekki athugað þessa hlið málsins, enda vissi ég, að skrifstofustjórinn í ráðun. hafði enga af þessum brtt. við frv. séð né verið sendar þær. Þess vegna held ég, að t.d. skrifstofustjórinn í stjórnarráðinu hafi ekki verið búinn að átta sig á 2. gr. og þeirri vinnu, sem lögð væri á skattan. úti um landið með samþykkt þeirrar gr., eins og hún er nú orðuð, með umreikningi á fjölda skattþegna í þessu efni. Og mér finnst ekki ná nokkurri átt að samþ. 2. gr. frv., jafnvel þótt menn vildu samþ.

1. gr. frv., sem mér finnst heldur engin ástæða til.