03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti: Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 192, hefur þegar hlotið samþ. Nd. og er búið að ganga gegnum tvær umr. í þessari hv. d. hér. Og hæstv. fjmrh., sem talaði hér í upphafi þessarar umr. á þessum fundi, lýsti því yfir, að hann væri fylgjandi efni frv., eins og það nú er, eftir þær umr., sem fram hafa farið, og kvað svo að orði m.a., að hann teldi það vera réttlætismál í fremstu röð. Ég er alveg samþykkur þessu, svo langt sem það nær. Ég álít, að það sé sanngirnismál, sem kveðið er á um í frv., eins og það liggur fyrir. En ég álít hins vegar; að það atriði, sem felst í frv., eins og það er orðið, það sé jafnvel ekki eins þýðingarmikið eins og þó það atriði, sem fjallað er um í þeirri brtt., fyrri brtt. sérstaklega, sem ég, ásamt hv. 4. landsk. þm., flyt á þskj. 403. Og ég álít, meira að segja, að það muni í flestum, ef ekki öllum tilfellum geta orðið alveg gagnslaust í framkvæmdinni að samþ. frv., eins og það nú er, nema hitt fylgi með, og skal ég koma nánar að því eða skýra það síðar. Það ákvæði, sem felst í fyrri brtt. á þskj. 403, varðar þá menn, sem eiga hús í byggingu og verða að telja þau fram til skatts áður en byggingunni er lokið og þess vegna hefur ekki farið fram fasteignamat á húsinu, sem annars er talið fram í venjulegum skattaframtölum, og verður þá annaðhvort að telja húsið fram eins og byggingin hefur kostað á þeim tíma eða þá eftir mati. Og mér er tjáð af ýmsum þeim mönnum, sem verið hafa í þessari aðstöðu, að skattanefndir og þá einkum skattyfirvöldin í Reykjavík hafi framkvæmt þetta þannig að miða við einhvern ákveðinn byggingarkostnað hjá einhverjum tilteknum byggingarfélögum, sem er það, sem þessi tilteknu skattyfirvöld vilja í þessu sambandi meta sem eins konar opinberan byggingarkostnað. Hins vegar hefur það sýnt sig í fjölda tilfellum, að slíkt mat, sem skattyfirvöldin hafa þannig notað á slíkar byggingar, sem ekki hefur verið alveg lokið og ekki hefur verið komið á fasteignamat, hefur reynzt miklu hærra, en sá raunverulegi byggingarkostnaður hefur verið hjá viðkomandi manni. Af þessu hefur leitt, að hjá slíkum manni hefur orðið óeðlileg eignaraukning, sem skattyfirvöldin hafa orðið að leita einhverra skýringa á. Og þegar viðkomandi skattþegn hefur ekki þær tekjur — þó að hann hafi talið rétt fram launatekjur, sem ekki er hægt að blanda málum um — þegar mikið hefur vantað á, að viðkomandi skattþegn hefur haft í framtali þær tekjur, sem samsvöruðu þessari eignaraukningu, sem skattyfirvöldin hafa talið hjá honum, þá hafa skattyfirvöldin ekki haft aðra leið færa, en að áætla þessum manni miklu meiri tekjur, en hann telur fram. Þetta hefur leitt til þess, að á slíkan mann hefur verið lagður meiri skattur, en efni standa til og sanngirni hefur mælt með, bara vegna þess, að þetta mat hefur verið þarna svona, þrátt fyrir það að fyrir lægju kostnaðarreikningar um byggingu hússins. Ég álít þetta atriði mjög þýðingarmikið í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, og að það geti ekki verið réttlætanlegt að láta slíkt mat skilyrðislaust gilda um þessar byggingar, sem látið hefur verið gilda hjá skattyfirvöldunum, þrátt fyrir það að fyrir liggi skýlausir reikningar um byggingarkostnaðinn og viðkomandi maður geti fært á þá fullgildar sönnur. Og brtt. okkar fer þess vegna fram á, að slíkir reikningar verði látnir gilda og lagðir til grundvallar fyrir skattframtali mannsins og skattálögum, en ekki mat, sem gert er að meira eða minna leyti út í bláinn. Það er kannske nokkuð sterkt til orða tekið að segja þetta, þar sem miðað er við byggingarkostnað byggingarfélaga, en samt sem áður er það ekki öruggt mat á byggingarkostnað manna. Með því að leggja fram eigin vinnu geta menn jú komið upp sínum húsum fyrir talsvert lægra verð en byggingarfélög byggja fyrir og reiknað er með í mati sem opinberum byggingarkostnaði. Og ég sé ekki ástæðu til að refsa slíkum mönnum fyrir þá framtakssemi að byggja hús yfir sig í frístundum sínum eða á annan hátt með eigin vinnu og fyrir það erfiði, sem þeir Leggja á sig, refsa þeim þannig með því að reikna þeim tekjur, sem þeir alls ekki hafa haft, og meira að segja umfram þá vinnu, sem þeir hafa lagt í þetta, og miða síðan skattálagningu við það. Enda hef ég heyrt ýmsar mjög háværar kvartanir um þetta og álit, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að þetta atriði sé í mörgum tilfellum miklu þýðingarmeira fyrir fjölda skattþegna heldur en jafnvel aukavinnan, sem í frv. er talað um. — Og kem ég þá aftur að því, að það ákvæði um að undanþiggja þessa aukavinnu skatti, verður í flestum tilfellum þýðingarlaust, ef þessi regla verður látin gilda áfram, sem ég nú siðast gerði að umtalsefni, því þó að þessum mönnum hafi verið sleppt við að telja fram til tekna þessa aukavinnu, þá er ekki aðeins hún, heldur líka í ýmsum tilfellum miklu meira talið þeim til tekna með þessari áætlun, sem ég áður nefndi. Ég held þess vegna, ef hæstv. ráðh. og aðrir þeir, sem mælt hafa með því að samþ. frv., eins og það er nú orðið, eftir þær umr., sem um það hafa farið fram, vilja halda við það, að það sé réttlætismál í fremstu röð, þá sé nauðsynlegt til þess að tryggja þetta réttlæti í framkvæmd að bæta við einmitt því ákvæði, sem felst í brtt. okkar, sem fyrir liggur á þskj. 403.

Síðari brtt. á því þskj., við 2. gr. frv., hún felur aðeins það í sér, að um leið og reiknaður væri upp álagður tekjuskattur fyrir síðasta ár vegna þessa nýmælis í frv., þá sé sá umreikningur einnig látinn ná til útsvara. Og ég held, að það geti varla verið ágreiningur um, að ef menn á annað borð ætlast til þess, að farið sé að reikna upp skatt vegna þessa ákvæðis, þá hljóti það einnig að eiga að ná til útsvarsálagningarinnar, vegna þess að á flestum stöðum mun því vera þannig varið, að niðurjöfnun útsvara sé byggð á skattframtölum og þá fyrst og fremst á tekjuframtölum. Og ef þar hefur verið við skattálagningu, — eins og í þessum tilfellum hefur verið — reiknað með tekjum, sem nú á að ákveða, að ekki skuli lagður skattur á, þá er mjög eðlilegt og sjálfsagt, að slíkar tekjur séu heldur ekki látnar ráða um útsvarsálagningu. Og ef þessi umreikningur á skattinum væri gerður, má telja það eðlilegt og sjálfsagt, að slíkt hið sama sé einnig látið ná til útsvarsálagningar. — Ég þykist hafa skýrt þessar brtt. okkar og fært rök að því, að þær séu ekki aðeins fyllilega réttmætar, heldur — og þá sérstaklega hvað fyrri till. snertir — sé hún blátt áfram nauðsynlegt ákvæði, til þess að nokkurt gagn verði að framkvæmd á því ákvæði, sem nú þegar er komið í frv. Ég vænti þess, að hv. þdm. vilji þess vegna taka þetta til athugunar og meta það alveg eins og efni standa til.