03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég álít, að skattalögin, eins og þau eru nú, séu þannig úr garði gerð, að þau séu ekki viðhlítandi. Þau leggja nú allt of þungar byrðar á skattþegnana, fyrst og fremst af þeirri einföldu ástæðu, að þeim hefur ekki verið breytt frá því fyrir styrjöldina að því er skattstigann snertir. Hins vegar hefur verðgildi peninga innanlands lækkað stórkostlega. En þrátt fyrir það að lögin megi teljast stórgölluð, eins og nú er komið málum, þá virðast talsvert miklir erfiðleikar á því að fá þau endurskoðuð í heild, sem þó er brýn nauðsyn á, að gert sé. Af þessari ástæðu er ég í raun og veru fylgjandi hverri þeirri till., sem kemur fram um það að sniða verstu agnúana af skattal., eins og þau eru nú. Ég skal viðurkenna það, að það er vandræðaástand að þurfa að fara þessa leið til þess að fá leiðréttingu á skattal., því að skattal. eru ein þau lög í landinu, sem ekki á að vera að breyta á hverju ári, og sízt að það komi mörg frv. fram í þinginu sama árið til breyt. á þessum l., sem eiga að vera undirlögð minnstum breyt. að mínu áliti af almennum lögum í landinu. Ég ætla ekki að fara út í það atriðið sérstaklega.

Hér liggja fyrir þrjár brtt. við frv. Ég get sagt það um brtt. á þskj. 402, að ég er samþ. þessari brtt. eins og hún liggur fyrir og tel hana sanngirnismál, ekki síður en það atriði, sem frv. fjallar um. Um brtt. á þskj. 404 vil ég segja það, að það kann vel að vera sanngirnismál, að þetta væri gert. En með góðum vilja á ég ekki hægt með að sjá, að það sé hægt að gera slíka breyt. á skattal. nema fara með þau alveg út í öfgar. Meðan nauðsyn er á að sníða ýmsa agnúa af skattal., þá verða þó þær aðgerðir að vera þannig, að þær geti ekki eyðilagt eða gripið inn í heildarframkvæmdir skattal. í landinu, svo að ég sé ekki fært að vera með þessari brtt., eins og hún liggur fyrir. — Um brtt. á þskj. 403 skal ég viðurkenna að hugmyndin, sem liggur bak við þá brtt., er sanngjörn. En ég á ákaflega bágt með að sjá, að með þessari breyt., sem hér er lagt til, að gerð verði, náist sá árangur, sem stefnt er að. Og vil ég í því efni benda á, að þessi till. byggir á því, að fullgildir reikningar yfir byggingarkostnaðinn liggi fyrir. En hvað verða fullgildir reikningar í þessu efni að áliti skattanefndar eða skattstjóra? Ég hygg, að framkvæmdin mundi verða sú, að menn legðu fram sína reikninga, en það mundi fara um þá eins og fer nú, að skattstofan eða skattanefndir taki oft ekki reikningana trúanlega. Þeir segja nú við þessa menn: Þessir reikningar, sem þú leggur fram, eru of lágir. Kostnaðurinn hefur verið meiri. Þessi brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 403, setur ekki undir þennan leka. Ef hægt er að koma með brtt., sem setur undir þennan leka og tryggir það, að hægt sé að sanna byggingarkostnaðinn, þá er það að sjálfsögðu sá grundvöllur, sem skattstofan á að byggja á, því að þá kemur fram það raunverulega kostnaðarverð eignarinnar. En það hvílir alltaf á eigandanum að sanna kostnaðarverðið. Og hins vegar verður það skattstofan, sem gagnrýnir kostnaðarverðið og ákveður sjálf; hvað hún tekur gilt og hvað hún tekur ekki gilt. Og þarna liggur veilan í þessari till., að mínu áliti. Þess vegna er ég efins um, að þótt þetta yrði samþ., fengist nokkur leiðrétting, nema skattstofan sé skylduð til að taka gilda reikninga, sem viðkomendur leggja fram. Það er dálítið hæpið að mínu áliti, þar sem viðkomendum er þá í lófa lagið að leggja þá fram og segja: Þetta eru allir eignareikningarnir með tölu. Ég álít þetta viðsjárverða leið. Hins vegar viðurkenni ég fullkomlega, að það er oft þannig, að það er auðveldara að benda á misfellur í framkvæmd, en setja undir lekann og bæta úr þeim.

Hv. 1. þm. N-M. talaði hér eins og hann væri skattstjóri. Hann er að vísu í ríkisskattanefnd, svo að e.t.v. er ekki að furða, þótt honum finnist skattanefndirnar gæta fullrar sanngirni. En ég er honum ósammála. Ég hef haft þá skoðun, að skattanefndirnar hugsi fyrst og fremst eftir þeim forsendum, hvað orðið geti til hagsbóta fyrir ríkið, og ég tel, að í túlkun sinni á lögunum og málavöxtum gangi þær venjulega nokkuð á rétt hins vesala skattþegns.

Út af 2. gr. frv. vil ég segja það, að þótt lögunum sé ætlað að verka aftur fyrir sig, þá hef ég enga meðaumkun með skattanefndunum þess vegna. Það ætti að vera þeim vorkunnarlaust þótt þær þyrftu samkvæmt lagabókstaf að fara svolítið aftur í tímann og leiðrétta það, sem þær hafa gert ósanngjarnlega.