03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bernharð Stefánsson:

Ég verð að játa, að mér finnst dálítið vafasamt að ganga inn á þá braut, sem gert er með þessu frv. Ég hef þó fylgt því vegna þess, hve brýn nauðsyn er á því að allir þjóðfélagsþegnar geti átt þess kost að búa í sæmilegum húsakynnum.

Ég get tekið undir það að vissu marki hjá hv. 1. þm. N–M., að óþægilegt verði að framkvæma ákvæðin í 2. gr. frv., en þó ekki svo miklum vandkvæðum bundið, að það þurfi að skipta. miklu um afstöðuna til þess, sem er aðalatriði í þessu. En þegar gengið er inn á svona braut, þá koma aðrir, sem vilja ganga enn lengra, og þær 3 brtt., sem hér liggja fyrir, sýna ein- mitt þetta.

Mér finnst, að það mætti samþykkja brtt. hv, 3. landsk., ef hægt væri að skilgreina nákvæmlega, hvað við er átt. Þar stendur, að „á sama hátt verði allar tekjur verkafólks og annarra lágtekjumanna af aukavinnu, sem fram er lögð utan venjulegs vinnutíma, undanþegnar tekjuskatti“. — Ég er nú hræddur um, að með þessu náist ekki fullt réttlæti. Mér dettur í hug bændur landsins, sem margir vinna tólf tíma á dag. Það er þeirra venjulegi vinnutími; Ætti þá gagnvart bændum að miða við hann, en verkamenn í verkalýðsfélögunum, sem hafa lögboðinn 8 st. vinnudag, að fá skattfríðindi vegna tekna af vinnu umfram þann tíma? Mér dettur líka í hug sjómennirnir. E.t.v. væri hægt að áskilja þeim ákveðinn hvíldartíma, en ég skil ekki annað, en íslenzkar fiskveiðar verði seint svo á vegi staddar, að ákveðinn verði 8 st. vinnudagur á skipunum. Þar af leiðandi virðist mér, að þetta nái aðeins til nokkurs hluta láglaunafólksins í landinu. Og þar sem ekki er gert jafnt við alla, er ekki um réttlæti að ræða. Og fólk með svipuð kjör á að hafa sömu skatta.

Ég er líka hræddur um að brtt. á þskj. 403 sé þannig, að ákvæði hennar verði kyndug í framkvæmd. Ég skal þó ekki ræða frekar um hana. — En sú brtt., sem mér finnst sanngjörnust, er á þskj. 402, frá hv. 7. landsk., og hnígur að því, að ekki skuli skattleggja menn fyrir að selja hús á hærra verði, en það kostaði, ef menn fá sér annað þak yfir höfuðið, sem kostar menn jafnmikið hinu selda. Þó er hætta á, að þetta kynni að verða misnotað í braski, og ég tel hana svo mikla, að ég mun ekki greiða þessari till. atkvæði.

Annars tók ég eiginlega til máls af þeirri ástæðu., að ég vildi spyrja hv. 3. landsk., hvaða réttlæti hann haldi, að náist með till. hans um, að menn fái skattfríðindi viðkomandi tekjum umfram þær, sem menn afla á stuttum vinnutíma.