07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

128. mál, bæjarstjórn í Keflavík

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla hér ekki að fara að deila við hv. 1. þm. N–M., en vildi aðeins í þessu sambandi upplýsa það, að hvað snertir Njarðvíkur, þá hef ég rætt við fulltrúa frá báðum þessum hreppsfélögum, Keflavík og Njarðvíkum, og báðir eru sammála um það, að þeir vilja ekkert hafa hvor með annan að gera og eru því á móti því, að þeir verði sameinaðir í eitt umdæmi. Þessir hreppar voru sameiginlegir fyrir nokkrum árum, en það var mjög gott samkomulag um það að leggja það til, að þeim yrði skipt. Ég held því, að ég þori að fullyrða það, að það yrði gegn vilja allra aðila, ef fara ætti að sameina þá aftur.

Að því er flugvöllinn varðar, þá má náttúrlega alltaf della um hann. Hann er í öllum hreppunum þarna suður frá, en langsamlega minnstur hluti af honum er í Keflavíkurhreppi. Hann er í landi Hafnahrepps, Miðneshrepps, Garðahrepps, Vatnsneshrepps og Keflavíkurhrepps, þó er langminnstur hlutinn í Keflavíkurhreppi. Allar byggingarnar eru utan hans, allar flugbrautir eru utan hans, nema aðeins bláendinn á 2–3 brautum. Og ef leggja ætti allt flugvallarsvæðið undir Keflavík, þá væri það það sama og að leggja alla hreppana þar undir. Ég held líka, að það hafi engin ósk komið um það, hvorki frá Keflvíkingum né öðrum, og held ég, að menn yrðu yfirleitt andvígir þeirri ráðstöfun.