08.03.1949
Efri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

101. mál, sala landræmu úr Öskjuholtslandi

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Við athugun á þessu frv. varð það niðurstaða meiri hl. landbn. að mæla með samþykkt þess, eins og það liggur fyrir frá hv. Nd.

Ég sé nú ekki ástæðu, til að fjölyrða um þetta litla og að því er virðist meinlausa mál, en eins og sjá má í grg., er farið fram á, að bóndinn í Skarði á Landi fái keypta spildu eða landræmu úr Öskjuholtslandi, sem nú er eign ríkisins. Það liggur að vísu ekki fyrir nákvæmlega, hvað þetta land er stórt, en eftir því, sem kunnugir hafa sagt mér, þá mun hér vera um að ræða nálægt 10 ferkm af gróðurlandi, sem Skarðsbóndann vantar til beitar. Sem meðmæli með því, að frv. verði samþ., má benda á fylgiskjöl frá sandgræðslustjóra og hæstv. landbrh., sem báðir mæla með, að frv. verði samþ.

Það er nú í Landsveit eins og víða annars staðar, að öllu verður að halda til skila, svo að býlunum fækki ekki, og þess vegna finnst mér nauðsynlegt, að sýndur sé skilningur á aðstöðu bóndans í Skarði, þegar hann fer fram á landræmu til þess að vera öruggari um jörð sína, og virða þann vilja, sem hann með því sýnir til búskaparins. Ég viðurkenni, að það getur verið um fleiri sjónarmið að ræða. En með tilliti til umsagnar sandgræðslustjóra, þá ætti þessi ráðstöfun að vera öllum meinfangalaus.

Ég ræði þetta svo ekki frekar, nema tilefni gefist, en niðurstaða n. varð sem sagt þessi, að 4 af 5 nm. leggja til, að frv. verði samþ., en einn nm., hv. 1. þm. N-M., hefur sérstöðu og gefur út sérstakt nál.